16.6.2005

Samkeppnisráð setur ítarleg skilyrði fyrir samruna FL Group hf., Bláfugls hf. og Flugflutninga ehf.

Samkeppnisráð fjallaði á fundi sínum í dag um kaup FL Group á fraktflugfélaginu Bláfugli hf. og fyrirtækinu Flugflutningum ehf. sem annast flutningsmiðlun. Eitt af dótturfélögum FL Group er fraktflugfélagið Flugleiðir-Frakt ehf.

Í ákvörðun samkeppnisráðs sem tekin var í dag kemur fram það mat ráðsins að samkeppnisleg áhrif samrunans gefi tilefni til íhlutunar. Með hliðsjón af því mati áttu sér stað viðræður milli samkeppnisyfirvalda og þeirra sem að samrunanum standa. Viðræðunum lauk með sátt um skilyrði sem samkeppnisráð setur samrunanum sem málsaðilar munu sæta. Skilyrðunum er ætlað að tryggja virka samkeppni í fraktflutningum í flugi milli Íslands og áfangastaða erlendis.

Helstu skilyrði fyrir samrunanum eru m.a. eftirfarandi:

  • Fullur rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verður milli Flugleiða-Fraktar annars vegar og Bláfugls og Flugflutninga hins vegar
  • Flugleiðum-Frakt annars vegar og Bláfugli og Flugflutningum hins vegar er óheimilt að hafa með sér samvinnu eða grípa til samstilltra aðgerða um markaðs- og viðskiptaleg málefni á markaðnum fyrir fraktflutninga milli Íslands og áfangastaða erlendis
  • Verð og viðskiptakjör samrunafyrirtækjanna skulu vera almenn, gagnsæ og hlutlæg þannig að aðilar sem eiga í sams konar viðskiptum við fyrirtækin skulu njóta sambærilegra viðskiptakjara. Fyrirtækjunum er óheimilt að grípa til ráðstafana með sértækum aðgerðum sem miða að því að þau viðhaldi eða efli markaðsráðandi stöðu í flugflutningum á leiðum milli Íslands og áfangastaða erlendis
  • Aðilum samrunans er óheimilt að setja skilyrði fyrir viðskiptum sem tvinna saman sölu á flutningum í flugi á leiðum milli Íslands og áfangastaða erlendis
  • Keppinautum fyrirtækjanna sem að samrunanum standa skal standa til boða flutningarými hjá félögunum á leiðum milli Íslands og áfangastaða erlendis.

Ákvörðun samkeppnisráðs nr. 20/2005 má finna á vefslóð Samkeppnisstofnunar.