12.10.2005

Samkeppniseftirlitið beinir fyrirmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Gengið verði til samninga við sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra við sálfræðimeðferð

Sálfræðingafélag Íslands hefur krafist þess að Samkeppniseftirlitið mæli fyrir um að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gangi til samninga við klíníska sálfræðinga um þáttöku hins opinbera í kostnaði sjúkratryggðra við sálfræðimeðferð sem ekki felur í sér lyfjagjöf. Vísað er til þess að ráðuneytið hafi samið við geðlækna um þátttöku ríkisins í kostnaði sjúkratryggðra við sambærilega meðferð og óumdeilt sé að sálfræðingar og geðlæknar starfi á sama samkeppnismarkaði hvað hana áhrærir. Samkeppnisstaða klínískra sálfræðinga sé því skert taki ríkið þátt í kostnaði þeirra sem eru sjúkratryggðir við þjónustu geðlækna en ekki kostnaði við þjónustu klínískra sálfræðinga.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, nr. 8/2005, kemur fram það mat að ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um að ganga ekki til samninga við sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra við áðurnefnda sálfræðimeðferð raski þeirri samkeppni sem ríkt geti á milli sálfræðinga og geðlækna og fari gegn samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið telur að samkeppnisleg mismunun sé fólgin í því að hið opinbera taki þátt í kostnaði sjúkratryggðra einstaklinga sem hlýst af tiltekinni viðtalsmeðferð sjálfstætt starfandi geðlækna, en ekki þeim kostnaði sem hlýst af sambærilegri viðtalsmeðferð sjálfstætt starfandi klínískra sálfræðinga í sams konar tilvikum. Þó ljóst sé að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi það hlutverk að lögum að stýra innkaupum og veitingu á opinberri heilbrigðisþjónustu beri honum að taka tillit til samkeppnissjónarmiða og ákvæða samkeppnislaga, nema lög mæli skýrt fyrir um annað. Svo er ekki í þessu tilviki. Heilbrigðisyfirvöldum er heimilt að taka ákvörðun um hvort tiltekin heilbrigðisþjónusta skuli keypt af sjálfstætt starfandi sérfræðingum eða hún alfarið innt af hendi hjá opinberum heilbrigðisstofnunum. Ákveði heilbrigðisyfirvöld hins vegar að hið opinbera kaupi þjónustu af sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem starfa utan heilbrigðisstofnana eða taki þátt í kostnaði sjúkratryggðra við þjónustu þeirra, verða yfirvöld að gæta jafnræðis með öllum þeim sérfræðingum sem starfa á sama samkeppnismarkaði. Að öðrum kosti er um samkeppnislega mismunun að ræða.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).