4.8.2021

Ný efnahagsskýrsla OECD – fækkun samkeppnishindrana getur haft umtalsverð áhrif á íslenskt efnahagslíf

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti nýlega skýrslu um íslenskt efnahagslíf. Slíkar skýrslur eru gefnar út á tveggja ára fresti. Áherslur skýrslunnar í samkeppnismálum eru í takti við niðurstöður sem birtust í sjálfstæðu samkeppnismati OECD á regluverki á sviðum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi sem kom út á síðasta ári. Samkeppnismatið var unnið í náinni samvinnu við Samkeppniseftirlitið og önnur stjórnvöld og fól í sér ítarlega greiningu á öllu gildandi regluverki á þessum sviðum.

Sú vinna fólst að mestu leyti í því að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi. Í samkeppnismatinu voru settar fram 438 tillögur um úrbætur til að efla þessar greinar og fækka samkeppnishindrunum. OECD metur að áhrif tillagnanna geti leitt til aukinnar landsframleiðslu sem nemi 200 milljónum evra á ári eða sem svarar til um 1% af landsframleiðslu Íslands. Frétt um samkeppnismatið má lesa hér.

Í efnahagsskýrslunni sem birt var í síðasta mánuði eru íslensk stjórnvöld hvött til að innleiða þær breytingar sem lagðar voru til í samkeppnisskýrslunni.

Þar kemur jafnframt fram að regluverk hér á landi hamli samkeppni. Þannig séu aðgangshindranir á mörkuðum á Íslandi miklar samanborið við önnur lönd innan OECD. Má þar helst nefna hindranir í tengslum við net- og þjónustugreinar, beina erlenda fjárfestingu, kröfur til einkahlutafélaga og einstaklingafyrirtækja og leyfisveitingar hins opinbera. Einnig sé regluverk í tengslum við lögverndaðar starfsgreinar og starfa umtalsvert hærri hér á landi miðað við önnur Evrópulönd og önnur lönd innan OECD.

Þá er varað við því að náin tengsl stjórnmálageirans við hagsmunasamtök geti aukið áhættuna á því að heilbrigt samkeppnisumhverfi raskist.

Hér má nálgast skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf árið 2021.