7.12.2022

Samkeppniseftirlitið birtir samkeppnisvísa

  • Samkeppnisvisar-4-

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt á vefsíðu sinni samkeppnisvísa (e. competition indicators) sem gefa vísbendingar um hvernig samkeppnisaðstæðum er háttað hér á landi. Þar sem við á er staða Íslands borin saman við níu samanburðarlönd. Horft er sérstaklega til vísa sem gefa vísbendingar um upplifun íslenskra neytenda og stjórnenda fyrirtækja um samkeppnisvirkni á ýmsum mörkuðum, samþjöppun á völdum mörkuðum og til hindrana sem hægt er að ryðja úr vegi til þess að auka samkeppni og stuðla þar með að aukinni framleiðni og nýsköpun.

Vísarnir lúta að því (i) hve virk samkeppni er, (ii) hve mikil samþjöppun er á markaði og umfang markaðsyfirráða, og (iii) hve miklar aðgangshindranir eru á markaði. Hvað varðar aðgangshindranir þá geta stjórnvöld haft þar áhrif á með því að ryðja þeim úr vegi til þess að auka samkeppni og stuðla þar með að aukinni framleiðni og nýsköpun. 

Samkeppnisvísa þessa mun Samkeppniseftirlitið uppfæra með reglubundnum hætti til þess að auðvelda neytendum, fyrirtækjum, stjórnvöldum, Samkeppniseftirlitinu, fjölmiðlum og öðrum haghöfum aðgengi að upplýsingum sem nýtast í umræðu um það hvernig samkeppni er háttað á íslenskum mörkuðum. Það athugast að í sumum tilfellum eru samkeppnisvísarnir ekki birtir nema á nokkurra ára fresti. Til að mynda er PMR mælikvarði frá OECD birtur á 5 ára fresti og viðhorfskannanir Samkeppniseftirlitsins eru framkvæmdar á 3 ára fresti.

Um 42% íslenskra neytenda skynjuðu árið 2019 vandamál á markaði fyrir farþegaþjónustu sökum ónægrar samkeppni. Það gerðu jafnframt 33% neytenda á markaði fyrir fjármálaþjónustu og 24% á markaði fyrir matvöru. Jafnframt skynjaði um þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja árið 2020 að samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé til staðar á þeim mörkuðum sem viðkomandi starfar á.

Þá er umfang markaðsyfirráða (e. market dominance) meira hér á landi en í öllum samanburðarlöndunum, og það öll þau ár sem tölur ná yfir. Á þeim fjórum mörkuðum sem greindir eru er samþjöppun mikil en hefur farið minnkandi á þremur mörkuðum. Hér ber þó að vekja athygli á því að umtalsvert sameiginlegt eignarhald er til staðar á framangreindum fjórum mörkuðum en í þeim tilvikum geta hefðbundnir samþjöppunarstuðlar vanmetið samþjöppun á markaðnum en þeir taka ekki tillit til þessa.

Staðan er varðar aðgangshindranir er slæm en á Íslandi eru viðskiptahindranir í milliríkjaviðskiptum næstmestar af löndunum sem litið er til. Þá er reglubyrði einnig mikil hér á landi miðað við samanburðarlönd, en hún var næstmest á Íslandi þegar litið er til hagkerfisins alls, og mest ef litið er til smásöluverslunar. Staðan er betri hvað varðar netgreinar, en þar er reglubyrði á Íslandi sú fjórða lægsta meðal landa í samanburðarhóp.

Samkeppnisvísana er að finna hér. Þá má einnig skoða á GRID-síðu Samkeppniseftirlitsins en þar eru vísarnir hýstir.

Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins:

„Það er hagur íslenskra neytenda og atvinnulífs að virk samkeppni ríki á mörkuðum hér á landi og aðgangur að þeim sé sem greiðastur. Alþjóðlegur samanburður virðist benda til þess að aðgangshindranir að íslenskum mörkuðum séu of miklar og að auki er það áhyggjuefni að um þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja verði var við samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Með reglulegri útgáfu samkeppnisvísa vonast Samkeppniseftirlitið til þess að stjórnvöld, fjölmiðlar, hagsmunasamtök og aðrir haghafar hafi betri yfirsýn yfir samkeppnisvirkni á íslenskum mörkuðum sem auðveldi greiningu á þeim úrbótatækifærum sem eru til staðar.“