1.7.2025

Samkeppniseftirlitið í 20 ár - Virkt samkeppniseftirlit skilar umtalsverðum þjóðhagslegum ábata

  • Reginn

Fyrir réttum 20 árum síðan, eða þann 1. júlí 2005, hóf Samkeppniseftirlitið starfsemi sína í núverandi mynd. Fram að því, eða frá gildistöku samkeppnislaga 1993, hafði Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð farið með framkvæmd samkeppnislaga, auk eftirlits með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Breytingarnar 2005 juku áherslu á samkeppniseftirlit

Breytingarnar 2005 miðuðu að því að styrkja samkeppniseftirlit, einkum með því að skilja að eftirlit með samkeppni og eftirlit með neytendamálum og skýra þannig fókus í samkeppniseftirliti. Einnig var stjórnsýsla samkeppniseftirlits einfölduð.

Frá því að Samkeppniseftirlitið var sett á stofn hefur eftirlitið gripið til margs konar aðgerða til að efla samkeppni á mörkuðum. Hefur eftirlitið rekið á fimmta þúsund stjórnsýslumál, þar af hafa ákvarðanir verið birtar á heimasíðu í um 850 málum, en flestum öðrum málum lokið með bréfum. Samanlagðar stjórnvaldssektir greiddar í ríkissjóð vegna brota á samkeppnislögum og ákvörðunum eftirlitsins námu við síðustu áramót tæplega 19 milljörðum króna, á verðlagi ársins 2024. Á annan tug samkeppnishamlandi samruna hafa verið ógiltir og um 100 samrunum sett skilyrði til þess koma í veg fyrir samkeppnishamlandi áhrif samruna.

Iðulega reynir á úrlausnir eftirlitsins fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum. Á starfstíma eftirlitsins hafa gengið um 150 úrskurðir áfrýjunarnefndar, tæplega 50 dómar í héraðsdómi, um tugur dóma í Landsrétti og tæplega 40 dómar í Hæstarétti.

Einnig hefur Samkeppniseftirlitið beint á þriðja hundrað umsögnum til stjórnvalda um lagafrumvörp og stjórnvaldsfyrirmæli og sett fram nálægt 100 formleg tilmæli til stjórnvalda um ýmsar aðgerðir til þess að efla samkeppni. Er þá ótalin ýmis óformleg samskipti við stjórnvöld um sama efni. Þá hefur Samkeppniseftirlitið gefið út um 70 skýrslur af ýmsu tagi.

Ábati 18 til 29-föld fjárframlög

Samkeppniseftirlitið birtir árlega uppfært mat á reiknuðum ábata vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins síðastliðinn áratug. Reiknaður ábati vegna íhlutunar á árunum 2015 – 2024 nam 0,29-0,48% af vergri landsframleiðslu yfir tímabilið, eða sem nemur 18-29-földum fjárframlögum til stofnunarinnar á tímabilinu. Reiknaður ábati var að meðaltali 11,6-19,1 ma.kr. á ári hverju, á verðlagi ársins 2024.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri:

„Það eru í senn krefjandi og spennandi tímar framundan í atvinnulífi hér á landi sem erlendis. Reynslan sýnir okkur að þeim þjóðum vegnar best sem skapa atvinnulífi sínu sterkan grundvöll þar sem virk samkeppni er sett á oddinn. Við þær aðstæður keppast fyrirtæki við að bjóða sem bestar vörur og þjónustu á sem hagstæðustu verði, á grundvelli nýsköpunar og áræðni. Áherslur Samkeppniseftirlitsins fram á veginn taka eðli máls samkvæmt mið af þessu“.