3.7.2018

Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna framboðinna tillagna Haga að skilyrðum vegna samruna félagsins við Olís og DGV

Samkeppniseftirlitið leitar í dag sjónarmiða vegna framboðinna tillagna Haga hf. að skilyrðum vegna kaupa félagsins á Olíuverslun Íslands hf. og DGV ehf. Hagar telja að tillögurnar séu til þess fallnar að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið hefur talið að leitt gætu af samrunanum. Á fyrri stigum málsins hefur Samkeppniseftirlitið leitað sjónarmiða aðila á markaði. Í kjölfar þess hafa framboðin skilyrði Haga tekið breytingum. Af þeim sökum kallar eftirlitið að nýju eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra áhugasamra.

Tillögur Haga lúta meðal annars að því að sameinað félag selji frá sér tilteknar verslanir Bónuss, tvær þjónustustöðvar Olís og eina dælustöð ÓB á höfuðborgarsvæðinu, auk þurrvöruhluta verslunar Olís í Stykkishólmi. Einnig eru lagðar til aðgerðir til að auka aðgengi að heildsölu- og birgðarými eldsneytis og til þess að bregðast við eignatengslum keppinauta á eldsneytis- og dagvörumarkaði.

Í því skyni að meta tillögur Haga leitar Samkeppniseftirlitið sjónarmiða hagsmunaaðila vegna tillagna fyrirtækisins. Með tilkynningu þessari kallar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum allra aðila sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, t.d. þeirra sem kynnu að hafa áhuga á að hasla sér völl á eldsneytis- eða dagvörumarkaði og öðrum þeim sem eiga einhvers konar viðskipti á þessu sviði eða sjá á markaðnum viðskiptatækifæri. Þá er einnig kallað eftir frekari sjónarmiðum neytenda.

Til nánari kynningar á málinu veitir Samkeppniseftirlitið aðgang að eftirfarandi gögnum:

Óskað er eftir því að sjónarmið berist eigi síðar en 11. júlí nk. Aðilum er gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, í bréfi, tölvupósti (samkeppni@samkeppni.is) eða síma (585-0700).

Rannsókn á samrunanum – Tímalína

Eldra samrunamál:

 • 26. september 2017: Samkeppniseftirlitinu berst upphafleg tilkynning um samrunann. Umfangsmikil rannsókn hefst, þar sem aflað er gagna og sjónarmiða keppinauta og hagsmunaaðila á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Rannsókninni lauk 8. mars 2018, sbr. nánar hér á eftir.
 • 23. nóvember 2017: Samkeppniseftirlitið birtir frétt á heimasíðu sinni þar sem gerð er grein fyrir áherslum eftirlitsins við rannsókn málsins og sjónarmiða leitað. Í framhaldinu hélt upplýsingaöflun og rannsókn málsins áfram.
 • 19. janúar 2018: Samkeppniseftirlitið birtir samrunaaðilum andmælaskjal, þar sem rökstutt frummat á samrunanum er sett fram. Samkvæmt því er talið að alvarlegar samkeppnishindranir leiði af samrunanum sem bregðast verði við, annað hvort með ógildingu samrunans eða skilyrðum sem eyði umræddum hindrunum. Hagar senda tilkynningu til kauphallar um stöðu málsins þann 29. janúar 2018.
 • 26. janúar 2018: Hagar lýsa yfir áhuga á sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið til þess að eyða þeim samkeppnishindrunum sem stöfuðu af samrunanum samkvæmt frummati eftirlitsins. Hófust viðræður í kjölfarið.
 • 2. febrúar 2018: Hagar senda Samkeppniseftirlitinu athugasemdir við fyrrgreint andmælaskjal, ásamt tillögum að skilyrðum til að leysa hin samkeppnislegu vandamál. Þann 20. febrúar 2018 sendu Hagar eftirlitinu frekari tillögur.
 • 1. mars 2018:Samkeppniseftirlitið kynnir Högum frumniðurstöður viðbótarrannsóknar sem ráðist var í í kjölfar útgáfu andmælaskjals og viðbragða Haga við því. Einnig kynnti eftirlitið Högum það frummat sitt að framboðin skilyrði félagsins væru ekki fullnægjandi til að vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem ella gætu stafað af samrunanum. Var Högum gefinn lokafrestur til 5. mars 2018 til að setja fram frekari skilyrði. Þann dag bárust sjónarmið Haga og frekari tillögur að skilyrðum. Var Högum í framhaldinu gerð grein fyrir því frummati að fyrirliggjandi tillögur fyrirtækisins væru sem fyrr ekki fullnægjandi.
 • 6. mars 2018: Hagar senda frekari tillögur að skilyrðum vegna samrunans til Samkeppniseftirlitsins. Var Högum bent á að lögmæltur frestur til þess að taka ákvörðun í málinu væri að renna út og að þessar nýju tillögur væru of seint fram komnar, enda einsýnt að ekki væri mögulegt að ráðast í fullnægjandi rannsókn á áhrifum skilyrðanna innan hins lögboðna frests til rannsóknar málsins.
 • 8. mars 2018: Hagar afturkalla samrunatilkynningu sína, sama dag og ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins var að vænta, eða við lok þeirra fresta sem eftirlitið hafði til rannsóknar málsins lögum samkvæmt. Samhliða boðaði fyrirtækið að tilkynnt yrði um samrunann á ný, þar sem lögð yrðu til skilyrði sem til þess væru fallin að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum. Sjá nánar frétt Samkeppniseftirlitsins og tilkynningu Haga til kauphallar, dags. sama dag.

 

Nýtt samrunamál:

 • 27. mars 2018: Ný samrunatilkynning vegna samruna Haga, Olís og DGV berst Samkeppniseftirlitinu. Meðfylgjandi tilkynningunni voru tillögur Haga að „heildstæðum“ skilyrðum sem að mati fyrirtækisins séu til þess fallin að leysa úr þeim samkeppnislegu hindrunum sem bent hafði verið á í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins.
 • 28. mars 2018:Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða hagsmunaaðila við nýrri samrunatilkynningu og tillögum Haga að skilyrðum. Svör hagsmunaaðila bárust á tímabilinu 11. til 20. apríl 2018.
 • 27. apríl 2018: Samkeppniseftirlitið sendir bréf til Haga þar sem gerð er grein fyrir umsögnum um tillögu Haga að skilyrðum og lagt frummat á tillögurnar. Var það frummat Samkeppniseftirlitsins að Hagar hefðu ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði væru til þess fallin að leysa úr þeirri samkeppnislegu röskun sem annars leiddi af samrunanum. Af þeim sökum væri ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins. Sjátilkynningu Haga til kauphallar vegna frummatsins, dags. 29. apríl 2018.
 • 8. maí 2018:Samkeppniseftirlitið og Hagar eiga fund þar sem frummatið frá 27. apríl er rætt. Hagar óska eftir frekari viðræðna um möguleg skilyrði sem unnt væri að setja samrunanum. Á fundinum og með tölvupósti 11. maí 2018 gerðu Hagar jafnframt tilteknar athugasemdir við efnislegt frummat Samkeppniseftirlitsins á samrunanum. Í ljósi þeirra athugasemda framkvæmdi eftirlitið viðbótarrannsókn á þeim þáttum frummatsins sem Hagar gerðu athugasemdir við. 
 • 28. maí 2018: Á fundi þann dag gerði Samkeppniseftirlitið Högum grein fyrir niðurstöðu viðbótarrannsóknarinnar. Niðurstaða hennar var að athugasemdir Haga breyttu ekki frumniðurstöðu málsins, m.a. því mati að með samrunanum myndi markaðsráðandi staða samrunaaðila á dagvörumarkaði styrkjast.
 • 21. júní 2018:Samkeppniseftirlitið sendir Högum bréf þar sem gerð er grein fyrir meðferð og stöðu málsins, þ.á m. viðræðna um möguleg skilyrði. Var m.a. rakið að Samkeppniseftirlitið hefði átt fundi með Högum vegna málsins 8. maí, 28. maí, 1. júní, 5. júní, 12. júní, 15. júní og 19. júní. Í ljósi þeirrar umfjöllunar og stöðu sáttarviðræðnanna óskaði Samkeppniseftirlitið eftir því að Hagar skiluðu uppfærðum heildstæðum lokatillögum að skilyrðum vegna samrunans auk rökstuðnings fyrir tillögunum. 
 • 29. júní 2018: Hjálagðar lokatillögur Haga að skilyrðum vegna samrunans berast, auk þess sem sett eru fram sjónarmið um málið, m.a. í tengslum við frummat sem kynnt var 27. apríl 2018.
 • Í dag, 3. júlí 2018: Samkeppniseftirlitið kallar eftir sjónarmiðum aðila, með frétt þessari og meðfylgjandi bréfi.

Bakgrunnsupplýsingar:

Reglum samkeppnislaga um samruna er ætlað að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna fyrirtækja, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist.  

Samrunamál hefjast að frumkvæði samrunaaðila. Ber aðilum samrunans þá að senda Samkeppniseftirlitinu tilkynningu um samrunann og í henni skal veita upplýsingar um atriði sem skipta máli varðandi mat á áhrifum samrunans. Þegar fullnægjandi tilkynning berst veita samkeppnislög Samkeppniseftirlitinu 25 virka daga til að leggja mat á samrunann. Telji Samkeppniseftirlitið þörf á frekari rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans hefur það 70 virka daga til þess að taka ákvörðun í málinu frá því það tilkynnir samrunaaðilum um frekari rannsókn eftirlitsins. Ef nauðsynlegt er að afla frekari upplýsinga er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja þennan frest um allt að 20 virka daga. Eftir að það lögmælta tímamark er liðið brestur Samkeppniseftirlitinu heimild til íhlutunar vegna samruna.

Framangreindir frestir eru settir til hagsbóta fyrir viðskiptalífið. Í flestum tilvikum gerir Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við samruna fyrirtækja. Í þeim tilvikum þar sem samruni er talinn hindra virka samkeppni geta samrunaaðilar sett fram tillögur til þess að afstýra röskun á samkeppni. Nauðsynlegt er að tillögur þess efnis berist nægjanlega snemma til að unnt sé að leggja mat á þær. Afstýri tillögurnar ekki samkeppnishindrunum ber samkvæmt samkeppnislögum að ógilda viðkomandi samruna.