15.4.2021

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna fyrirhugaðra kaupa Skeljungs hf. á Port I ehf.,eignarhaldsfélagi Dælunnar ehf. og Löðurs ehf.

Samkeppniseftirlitinu barst tilkynning um samruna vegna kaupa Skeljungs hf. á öllum hlutum í félaginu Port I ehf. Með kaupunum eignast Skeljungur rekstur Löðurs bílaþvottastöðva og eldsneytisstöðva Dælunnar. Hér má finna samrunaskrá fyrirtækjanna þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar.

Að mati fyrirtækjanna er lítil lárétt skörun í starfsemi þeirra aðila sem sameinast, sem felst þó í því að Skeljungur (kaupandi) og Dælan (eign seljanda) selja bæði eldsneyti í smásölu á höfuðborgarsvæðinu. Þá starfar Skeljungur jafnframt á öðrum stigum eldsneytismarkaðarins, þ.e. við heildsölu, birgðahald og dreifingu eldsneytis. Þá er Löður (eign seljanda) starfandi á markaði fyrir rekstur bílaþvottastöðva hérlendis, og flytur inn takmarkað magn af hreinsiefnum fyrir bílaþvott eins og Skeljungur.

Telja samrunaaðilar því að um sé að ræða bæði láréttan samruna (á markaði fyrir smásölu eldsneytis og innflutning á hreinsiefnum til bílaþvottar) og samsteypusamruna.

Í samræmi við 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005 beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins að því hvort samruni fyrirtækjanna hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða hann verði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, þannig að samruninn krefjist mögulegrar íhlutunar.

Samkeppniseftirlitið kallar hér með eftir athugasemdum og sjónarmiðum allra hagaðila og annarra sem kunna að vilja tjá sig um samrunann, svo sem um möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif á hans á samkeppni og viðkomandi mörkuðum fyrir eldsneyti og bílaþvottastöðvar.

Er þess óskað að umsagnir berist með tölvupósti á netfangið brynja@samkeppni.is innan tveggja vikna eða í síðasta lagi 28. apríl nk.