23.11.2021

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Digital Bridge Group á óvirkum fjarskiptainnviðum Sýnar og Nova

  • Mostur-innvidir

Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun í dag samþykkt kaup félagsins ITP ehf. á tilteknum óvirkum fjarskiptainnviðum annars vegar Sýnar hf. og hins vegar Nova hf. ITP er undir endanlegum yfirráðum Digital Bridge Group Inc. (áður Colony Capital Inc.) sem er bandarískt sjóðastýringarfyrirtæki sem hefur meðal annars sérhæft sig í fjárfestingum í stafrænum innviðum. Sýn og Nova eru íslensk fjarskiptafyrirtæki en saman hafa þau rekið dreifikerfi fyrir farsíma í gegnum Sendafélagið ehf., samanber ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015.

Í samrunanum felast nánar tiltekið kaup Digital Bridge á svo til öllum stærri sendastöðum sem Sýn og Nova reka í dag. Um er að ræða kaup á svokölluðum óvirkum innviðum fjarskiptafélaganna, þ.e. fasteignum, möstrum og öðrum búnaði sem telst ekki til virks búnaðar. Þannig eru sendar, kaplar og annar virkur búnaður Sýnar og Nova ekki hluti af kaupunum. Í kjölfar samrunans mun hið nýstofnaða félag ITP leigja aðstöðuna aftur til baka til fjarskiptafélaganna á grundvelli þjónustusamnings.

Kaupin afmarkast við óvirka innviði

Með samrunanum eru umræddir sendastaðir færðir frá Sýn og Nova til sjálfstæðs félags, ITP, sem mun hafa hvata af því að bjóða sem flestum notendum að nýta aðstöðuna. Í kjölfar samrunans munu því ekki verða eignatengsl á milli umræddra innviða og fjarskiptafélaganna. Þrátt fyrir þessi jákvæðu áhrif taldi Samkeppniseftirlitið mikilvægt að taka nokkur atriði samrunans til ítarlegri skoðunar, einkum eftirfarandi:

 

  • Tímalengd þjónustusamninga, samstarf ITP við Sýn og Nova í kjölfar samrunans og áhrif bindingar sem í slíkum samningum og samstarfi felast.

  • Samhengi fyrrgreindra samninga og verðlagningar hins keypta og hvort hætta væri á því að samrunaaðilar hefðu hvata af því að hækka verð á þjónustu til lengri tíma.

  • Við lok rannsóknar var tilkynnt um kaup Ardian France SA á Mílu og kom þá til skoðunar hvort kaupendur í báðum málum hefðu tengsl vegna annarra fjárfestinga, sem horfa yrði til við mat á þessum samruna.

 

Í kjölfar rannsóknar á framangreindu er það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki sé tilefni til íhlutunar vegna samrunans. Byggir niðurstaðan meðal annars á eftirfarandi:

 

  • Kaupin afmarkast við óvirka innviði. Sjálfstæður markaður fyrir aðstöðuleigu fyrir stafrænan fjarskiptabúnað og annan mögulegan búnað á stærri sendastöðum er í mótun hér á landi og óljóst hvernig hann muni þróast.

  • Við samrunann verður ekki til markaðsráðandi staða á umræddum markaði.

  • Þar sem kaupandinn starfar ekki á öðrum mörkuðum fjarskiptaþjónustu eru líkur á því að hann hafi hvata til að bjóða keppinautum Nova og Sýnar eða öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að innviðunum, enda standi ekki samningar eða hagsmunir því í vegi. Það getur leitt til aukinnar skilvirkni og minni aðgangshindrana.

  • Samkeppniseftirlitið taldi tilefni til þess að taka til ítarlegrar skoðunar þjónustusamninga ITP við Sýn og Nova í kjölfar samrunans. Tók Samkeppniseftirlitið meðal annars til skoðunar uppbyggingu samninganna og hvort hætta væri á því að þeir gætu leitt til verðhækkana fyrir þjónustuna. Að mati eftirlitsins er ekki að sjá að sú hætta sé til staðar, til að mynda vegna uppbyggingar samninganna og þess að sameinað fyrirtæki mun njóta verulegs samkeppnislegs aðhalds af hálfu Símans og Mílu.

  • Samkeppniseftirlitið tók jafnframt til skoðunar gildistíma þjónustusamninganna en hann er þó nokkuð langur. Miðað við aðstæður í málinu taldi eftirlitið ekki tilefni til þess að grípa til íhlutunar vegna gildistímans eða annarra efnisatriða samninganna. Komi síðar í ljós að umræddir samningar kunni að skaða samkeppni, mun Samkeppniseftirlitið taka til skoðunar hvort tilefni sé til grípa til íhlutunar vegna þeirra á grundvelli annarra ákvæða samkeppnislaga.

  • Samkeppnieftirlitið óskaði eftir upplýsingum um samstarf Digital Bridge við Ardian væntanlegan kaupanda að Mílu, innviðafyrirtæki Símans. Samkvæmt upplýsingum samrunaaðila er um að ræða minniháttar samstarf og lítil eignatengsl þar sem Ardian eigi hverfandi hlut í þeim verkefnum sem fyrirtækin hafa bæði fjárfest í. Að mati Samkeppniseftirlitsins er afar mikilvægt að sjálfstæði þeirra fyrirtækja sem fjárfesta í fjarskiptainnviðum á Íslandi sé tryggt. Hyggst eftirlitið taka þessi tengsl viðkomandi fjárfesta til nánari skoðunar við rannsókn á kaupunum á Mílu.