1.4.2019

Samkeppniseftirlitið sýknað af kröfu Símans hf.

Forsaga málsins er sú að með ákvörðun á árinu 2015 heimilaði Samkeppniseftirlitið Vodafone og Nova að hafa með sér tiltekið samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu. Forsenda þessa var að fyrirtækin féllust á að hlíta skilyrðum sem vinna eiga gegn því að samstarf þeirra um rekstur dreifikerfisins raski samkeppni á mörkuðum fyrir farsímaþjónustu á bæði heildsölustigi og smásölustigi. Þá var skilyrðunum einnig ætlað að skapa fleiri valkosti og þar með aukna möguleika fyrir núverandi og nýja þjónustuaðila á markaði fyrir farsímaþjónustu á smásölustigi og stuðla þannig að frekari samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Einnig er skapað tækifæri til betri nýtingar á fjárfestingum í undirliggjandi kerfum farsímaþjónustu.

Síminn var ósáttur við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og skaut henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti hana. Höfðaði Síminn í kjölfarið mál fyrir dómstólum og kvað héraðsdómur upp dóm í því máli í dag.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins í alla staði vönduð og ítarleg

Í málinu byggði Síminn meðal annars á því að Samkeppniseftirlitið hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti og að setja hafi átt samstarfinu ítarlegri skilyrði. Héraðsdómur hafnar þessu. Er það niðurstaða héraðsdóms að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi í alla staði verið vönduð og ítarleg. Er það niðurstaða héraðsdóms að engin ástæða sé til að draga í efa það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrðin hafi verið fullnægjandi með tilliti til ákvæða samkeppnislaga.

Matsgerð dómkvaddra matsmanna hróflar ekki við mati Samkeppniseftirlitsins

Undir rekstri málsins aflaði Síminn matsgerðar dómkvaddra matsmanna til að styðja málatilbúnað sinn. Er það niðurstaða héraðsdóms að matsgerðin hrófli ekki við mati Samkeppniseftirlitsins í málinu. Þá hafnar héraðsdómur að líta til skýrslu erlends ráðgjafarfyrirtækis sem Síminn aflaði af þeirri ástæðu að skýrslunnar hafi verið aflað einhliða.

Úrskurður áfrýjunarnefndar byggður á réttum forsendum

Í málinu byggði Síminn meðal annars á því að úrskurður áfrýjunarnefndar væri byggður á röngum forsendum. Héraðsdómur hafnar þessu og tekur fram að orðalag í úrskurðinum verði ekki skilið með svo þröngum skilningi sem Síminn geri í málatilbúnaði sínum.