1.2.2024

Skilyrði vegna samruna Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða endurskoðuð

Með ákvörðun nr. 1/2024 eru endurskoðuð skilyrði sem sett voru við samruna Ferðaskrifstofu Íslands ehf. og Heimsferða ehf., sbr. ákvörðun nr.10/2022 , Kaup Ferðaskrifstofu Íslands ehf. á rekstri Heimsferða ehf. Ákvörðunin grundvallaðist á sátt sem samrunaaðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið þann 22. apríl 2022.

Í ljósi óvissu um þróun markaðarins á rannsóknartímabilinu, var í sáttinni kveðið á um endurskoðun hennar. Í því fólst að aðilar voru ásáttir um að Samkeppniseftirlitið gæti gert breytingar á kjörum og skilmálum heildsölu til hagsbóta fyrir endurseljendur ef í ljós kæmi að sáttin og skilmálar sem henni fylgja væru ekki að ná markmiðum sínum. Á hinn bóginn var eftirlitið einnig reiðubúið að falla frá skilyrðum um heildsölu ef og þegar í ljós kæmi að þeirra væri ekki þörf.

Með ákvörðuninni eru felld úr gildi þau ákvæði sáttarinnar sem varða skuldbindingar um heildsölu sameinaðs fyrirtækis á flugsætum í vélum þess. Að fenginni reynslu liggur nú fyrir að keppinautar félagsins hafa ekki nýtt sér þennan möguleika. Jafnframt virðast hafa orðið breytingar á markaðnum, sem einkum felast í auknu flugframboði áætlunarflugfélaga, sem draga úr vægi skilyrðanna.

Áfram eru í gildi skilyrði sáttarinnar sem varða sjálfstæði Ferðaskrifstofu Íslands og eignatengsl við keppinauta.