21.12.2020

Storytel AB dregur til baka samrunatilkynningu vegna kaupa félagsins á 70% hlut í Forlaginu

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft til rannsóknar fyrirhuguð kaup Storytel AB á 70% hlutafjár Forlagsins, en samrunaaðilar tilkynntu eftirlitinu um samrunann lögum samkvæmt.

Við rannsókn málsins aflaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga og sjónarmiða frá samrunaaðilum, sem og öðrum hagsmunaaðilum á viðkomandi mörkuðum. Bárust eftirlitinu sjónarmið frá keppinautum og rithöfundum, sem m.a. lýstu yfir áhyggjum af samrunanum.

Sem lið í rannsókninni birti Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum andmælaskjal þann 27. nóvember. Í andmælaskjali er frummati eftirlitsins lýst, þegar það telur mögulegt að grípa þurfi til íhlutunar vegna samruna. Um leið er samrunaaðilum gefið ítrasta tækifæri til að gæta andmælaréttar síns og koma á framfæri frekari sjónarmiðum. Var það m.a. frummat eftirlitsins að samruninn kynni að raska samkeppni við útgáfu hljóðbóka sem og prentaðra bóka. Samrunaaðilar brugðust við frummatinu og hefur eftirlitið að undanförnu unnið úr framkomnum sjónarmiðum þeirra.

Í dag barst Samkeppniseftirlitinu bréf frá samrunaaðilum þar sem greint er frá því að samrunatilkynningin sé afturkölluð. Ekki kemur því til þess að Samkeppniseftirlitið þurfi að taka formlega afstöðu til samrunans. Telst málinu því lokið.

Samkeppniseftirlitið mun í framhaldinu taka til skoðunar hvort ástæða sé til að taka saman frekari upplýsingar um rannsóknina.

Bakgrunnsupplýsingar:

Storytel er fyrirtækjasamstæða sem sérhæfir sig í útgáfu hljóðbóka ásamt rekstri streymisveitu sem veitir áskrifendum aðgengi að fræðslu- og afþreyingarefni í hljóð- og rafbókarformi. Starfsemi Storytel á Íslandi fer einkum fram í gegnum dótturfélag Storytel, Storytel Iceland ehf., og felst einkum í sölu á áskrift að streymisveitu Storytel og dreifingu íslenskra hljóðbóka og rafbóka á grundvelli dreifingarsamninga við bókaútgefendur. Forlagið er útgáfufyrirtæki á Íslandi. Félagið gefur út bækur undir merkjum JPV útgáfu, Máls og menningar, Vöku-Helgafells, Ókeibóka og Iðunnar og selur til endurseljenda. Forlagið rekur einnig eina bókabúð auk vefverslunar.