22.10.2019

Um frumvarp til breytinga á samkeppnislögum

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnti í gær drög að frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum.

Vegna fyrirspurna um afstöðu til frumvarpsins vill Samkeppniseftirlitið taka eftirfarandi fram:

Frumvarpsdrögin sem kynnt voru í gær valda miklum vonbrigðum þar sem í þeim er lögð til veruleg veiking á samkeppnislögum sem rýra munu kjör almennings.

Það er alvarlegt að með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til málskots til dómstóla til að verja hagsmuni almennings og fyrirtækja sem mátt hafa þolað skaðlegar samkeppnishindranir. Þannig verður Samkeppniseftirlitinu gert ókleift að tryggja að hagsmunir þessara aðila fái fullnaðarúrlausn fyrir dómstólum. Stór fyrirtæki sem eru ósátt við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála geta borið þá undir héraðsdóm, Landsrétt og eftir atvikum Hæstarétt. Verði frumvarpið að lögum mun hins vegar engin gæslumaður almannahagsmuna geta borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Verður þá skapað kerfi þar sem hagsmunagæsla öflugra fyrirtækja nýtur að þessu leyti forgangs og yfirburða gagnvart hagsmunum neytenda og smærri fyrirtækja.

Einnig er mikið áhyggjuefni að lagt er til að lögð verði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa til íhlutunar vegna tiltekinna skaðlegra samkeppnisaðstæðna en þessi heimild gerir eftirlitinu t.d. kleift að koma í veg fyrir að fyrirtæki sitji óáreitt að einokunarhagnaði almenningi til tjóns.

Þá er líka ljóst að frumvarpið er í beinu ósamræmi við aðgerðir á vettvangi ráðuneytisins, í samstarfi við OECD, sem miðar að því að draga úr samkeppnishindrunum, þ. á m. reglubyrði, sem stafar af lögum og reglum. Sú vinna miðar að því að efla samkeppni, almenningi til hagsbóta, á meðan tillögur í frumvarpinu hafa í veigamiklum atriðum þveröfug áhrif, þ.e. veikja samkeppnislögin og draga úr möguleikum Samkeppniseftirlitsins til að stuðla að aukinni samkeppni.

Samkeppniseftirlitið mun í umsögn sinni til ráðherra vara eindregið við lögfestingu frumvarpsins í núverandi horfi.


Bakgrunnsupplýsingar:

Almenningur hefur mikla hagsmuni af því að virk samkeppni ríki á sem flestum mörkuðum. Að sama skapi er ljóst að alvarleg brot fyrirtækja á samkeppnislögum eins og t.d. verðsamráð geta valdið almenningi miklu tjóni. Þó að hagsmunir almennings af virkri samkeppni séu miklir þá eru þeir eðli málsins samkvæmt mjög dreifðir. Þá er staða almennings vitaskuld allt önnur en staða öflugra fyrirtækja til þess að gæta hagsmuna sinna fyrir dómstólum. Þolendur samkeppnisbrota geta og verið lítil fyrirtæki, t.d. sprotafyrirtæki eða fjölskyldufyrirtæki. Getur einnig verið erfitt fyrir slíka þolendur samkeppnisbrota að standa í málarekstri gagnvart öflugum keppinautum. Sökum þessa er það afar mikilvægt að stjórnvald eins og Samkeppniseftirlitið geti höfðað dómsmál og varið þannig hagsmuni samfélagsins af virkri samkeppni fyrir dómstólum. Ella getur verið útilokað að þýðingarmikil atriði sem tengjast túlkun samkeppnislaga hljóti umfjöllun dómstóla. Það getur ekki verið skynsamlegt eða réttlátt að í samkeppnismálum geti aðeins fyrirtæki höfðað dómsmál og gætt einkahagsmuna sinna.

Samkeppnishömlur geta í vissum tilvikum átt rót sína að rekja til annarra atriða en samruna eða brota fyrirtækja á bannreglum samkeppnislaga. Slík röskun getur verið jafnalvarleg fyrir neytendur og sú takmörkun sem t.d. leiðir af brotum á bannreglum samkeppnislaga. Til að bregðast við þessu er þekkt að samkeppnisyfirvöldum sé veitt heimild til að grípa til ráðstafana til að vinna gegn slíkum hömlum og stuðla að því að hagur neytenda til frambúðar sé bættur. Slíka heimild er t.d. að finna í Bretlandi og var lögfest hér á landi á árinu 2011. Á Íslandi eru markaðir oft mjög samþjappaðir og fákeppni algeng. Brýnt er að hér á landi séu fyrir hendi úrræði svo unnt sé að bæta virkni mikilvægra markaða almenningi og atvinnulífinu til hagsbóta. Sú tillaga í frumvarpinu að fella úr gildi þetta úrræði myndi fela í sér mikla afturför og er andstæð hagsmunum neytenda og meginþorra fyrirtækja.