12.1.2024

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um kröfu Samskipa um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot fyrirtækisins

  • Áfrýjunarnefndin frestar réttaráhrifum ákvörðunarinnar að því er varðar greiðslu stjórnvaldssekta, á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni
  • Áfrýjunarnefndin hafnar kröfu Samskipa um að fresta réttaráhrifum fyrirmæla um aðgerðir sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni

Samkeppniseftirlitið lauk rannsókn á brotum Samskipa 31. ágúst sl., sbr. ákvörðun nr. 33/2023. Var það niðurstaða eftirlitsins að Samskip hafi með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með langvarandi ólögmætu samráði við Eimskip. Þá var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Samskip hafi við rannsókn málsins brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu. Samanlagðar stjórnvaldsektir vegna framangreindra brota nema 4,2 milljörðum króna.

Jafnframt var lagt fyrir Samskip að grípa til tiltekinna aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni.

Þann 27. september 2023 kærðu Samskip ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Samskip kröfðust þess einnig að réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins yrði frestað meðan málið væri til meðferðar fyrir áfrýjunarnefndinni en samkvæmt 29. gr. stjórnsýslulaga getur æðra stjórnvald gripið til slíkrar frestunar þegar ástæður mæla með því.

Til stuðnings því að fresta réttaráhrifum héldu Samskip því fram að (1) greiðsla sektarinnar myndi valda fyrirtækinu fjárhagslegum erfiðleikum, (2) málsmeðferð muni taka langan tíma hjá áfrýjunarnefnd, (3) aðgerðir sem fyrirtækinu bæri að grípa til í því skyni koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni væru til þess fallnar að valda því tjóni og að (4) yfirgnæfandi líkur væru á því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins yrði breytt eða hún felld úr gildi.

Réttaráhrifum stjórnvaldssektar frestað vegna langs málsmeðferðartíma fyrir nefndinni

Í úrskurði áfrýjunarnefndar í dag er vísað til þess að málið sé mjög umfangsmikið og eigi sér hvað það varðar vart hliðstæðu í samkeppnisrétti hér á landi. Í ljósi þeirra staðreynda sé einsýnt að meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefndinni muni dragast og sé viðbúið að talsverður tími muni líða þar til niðurstaða í málinu muni liggja fyrir hjá nefndinni. Þannig sé ljóst að ekki muni takast að ljúka meðferð málsins fyrir nefndinni innan þeirra tímamarka sem lög kveða á um.

Með hliðsjón af þessu taldi áfrýjunarnefndin vera fyrir hendi aðstæður sem væru á margan hátt sérstakar og óvenjulegar, sem réttlættu að frestað yrði réttaráhrifum hvað varðar þann hluta ákvörðunarinnar sem snéri að greiðslu álagðrar sektar. Með vísan til þessa var réttaráhrifum er varðar greiðslu sektarinnar frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafnar því að fresta réttaráhrifum fyrirmæla

Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar er aftur á móti hafnað að fresta réttaráhrifum þeirra fyrirmæla sem Samkeppniseftirlitið beindi til Samskipa, svo sem um að fyrirtækið hætti öllu viðskiptalegu samstarfi við Eimskip og félög á þess vegum, nema sýnt væri fram á að samstarfið væri þess eðlis að ekki væri hætta á röskun á samkeppni. Taldi nefndin að fyrirmælin væru hvorki óvenjuleg né sérlega íþyngjandi í garð fyrirtækisins þannig að fyrir hendi væru aðstæður sem réttlættu að fresta réttaráhrifum þeirra.

Úrskurðurinn er aðgengilegur hér.