25.3.2020

Vegna fréttaflutnings í Markaði Fréttablaðsins

Í Markaði Fréttablaðsins í dag er gerð að umtalsefni skipan Lúðvíks Bergvinssonar lögmanns sem eftirlitsaðila (kunnáttumanns) með framkvæmd sáttar sem N1 hf. (nú Festi hf.) gerði við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa þess á Festi.

Í umfjölluninni er fullyrt að Lúðvík hafi verið skipaður „að kröfu Samkeppniseftirlitsins, sem hafði lagst gegn tillögu félaganna um annan mann í starfið“. Jafnframt er látið að því liggja að ástæðan sé sú að lögmaðurinn sé góður vinur aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á að þann 31. ágúst 2018 birti Festi frétt á Nasdaq Iceland – Kauphöll, þar sem greint er frá skipan kunnáttumanns. Þar er kemur fram að þann 9. ágúst 2018 hafi forstjóri N1 tilnefnt „þrjá einstaklinga sem félagið taldi hæfa til að gegna hlutverki hins óháða kunnáttumanns. Að undangengnu hæfismati féllst Samkeppniseftirlitið á að Lúðvík Bergvinsson yrði falið hlutverk óháða kunnáttumannsins.“ Af þessu er ljóst að ekki er rétt farið með í Fréttablaðinu að þessu leyti.

Jafnframt er eðlilegt að fram komi að við fyrrgreint hæfismat kom í ljós hinir tveir aðilarnir sem félagið tilnefndi höfðu tengsl við félagið, keppinauta þess eða markaði sem það starfar á, sem þóttu skapa vafa um óhæði gagnvart a.m.k. tilteknum verkefnum sem falla undir störf kunnáttumanns. Þá er rétt að fram komi að aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins kom ekki að umræddu hæfismati.

Um eftirlitsaðila/kunnáttumenn, verkefni þeirra og kostnaðaraðhald

Í umfjöllun Fréttablaðsins eru verkefni kunnáttumanns og kostnaður vegna þeirra einnig gerð að umtalsefni. Í tilefni af þeirri umfjöllun þykir rétt að varpa nánara ljósi á störf kunnáttumanna og aðhald með störfum þeirra.

Í innlendum jafnt sem erlendum samkeppnisrétti er gert ráð fyrir því að unnt sé að ljúka rannsókn samkeppnismála með sátt við málsaðila. Í samrunamálum snúast slíkar sáttir um að gera tilteknar breytingar á viðkomandi viðskiptum með það að markmiði að koma í veg fyrir neikvæð samkeppnisleg áhrif sem annars myndu leiða af samruna. Til þess að auðvelda eftirfylgni með slíkum skilyrðum er í sumum tilvikum, sérstaklega í stærri málum eða þar sem um flóknari skilyrði er að ræða, kveðið á um sérstakan eftirlitsaðila (kunnáttumann eða söluaðila). Slíkur kunnáttumaður hefur það hlutverk að gæta að því að viðkomandi fyrirtæki framfylgi þeim skilyrðum sem það hefur lofað að starfa eftir. Einnig hafa í viðamiklum samkeppnismálum verið skipaðar sérstakar eftirlitsnefndir til að fylgja eftir skilyrðum sem viðkomandi fyrirtæki hafa lagt til. Miklir almannahagsmunir eru fólgnir í því að fyrirtæki fari að skilyrðum af þessum toga.

Í skipun kunnáttumanna eða eftirlitsnefnda felst ekki framsal á hlutverki eða skyldum viðkomandi samkeppnisyfirvalds, heldur felst í því að viðkomandi aðili hefur það hlutverk að fylgja því eftir að viðkomandi fyrirtæki grípi tímanlega til þeirra ráðstafana sem það hefur lofað að grípa til og jafnframt að taka til skoðunar mögulegar kvartanir og önnur atriði sem kalla á sérstaka skoðun. Er hann oft í stöðu til þess að leysa úr álitaefnum sem upp koma, sem og kvörtunum keppinauta og viðskiptavina, með skjótvirkari hætti en samkeppnisyfirvöldum er unnt. Þannig getur skipan eftirlitsaðila leitt til töluverðs hagræðis bæði fyrir viðkomandi fyrirtæki og samkeppnisyfirvöld. Auk þess er sem fyrr segir stuðlað enn frekar að því að m.a. samrunar fyrirtækja valdi almenningi ekki tjóni.

Loks er mikilvægt að hafa í huga að samkeppnisyfirvöld hafa almennt ekki frumkvæði að því að leggja til sátt eða setja skilyrði í samkeppnismálum. Þannig er það ávallt val viðkomandi fyrirtækis hvort það kjósi að sætta sig við frummat samkeppnisyfirvalda um t.d. áhrif samruna á samkeppni og leggja fram tillögur að skilyrðum til þess að mæta því frummati. Á það jafnframt við um ákvæði um eftirlitsaðila, en endanlegt mat á þörf á slíkri eftirfylgni er í höndum samkeppnisyfirvalda. Yfirleitt eru viðkomandi kunnáttu- eða nefndarmenn lagðir til af fyrirtækinu en skipaðir af samkeppnisyfirvöldum.

Í öllum tilvikum er það viðkomandi fyrirtæki, sem lagði fram tillögur að skilyrðum og lagði til viðkomandi eftirlitsaðila, sem ber kostnaðinn af störfum kunnáttumanns.

Samkeppniseftirlitinu er umhugað um að eftirfylgni með sáttum sé skilvirk og góð og hefur beint tilmælum til viðkomandi fyrirtækja þar að lútandi. Varðandi kostnað við störf umræddra eftirlitsaðila hefur Samkeppniseftirlitið beint því til fyrirtækjanna að hafa sambærilegt eftirlit með þeim þætti og í tilviki annarra utanaðkomandi ráðgjafa sem fyrirtækin nýta sér. Var þetta m.a. áréttað í sérstöku bréfi sem sent var á tímabilinu nóvember 2019 til febrúar 2020, til þeirra fyrirtækja sem hafa kunnáttumann eða eftirlitsnefnd á sínum vegum. Texti bréfanna er aðgengilegur hér.

Að lokum er rétt að árétta að sé fyrirtæki ósátt við niðurstöður samkeppnisyfirvalda vegna mála sem snúa að eftirlitsaðilum geta þau leitað réttar síns fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og einnig eftir atvikum fyrir dómstólum, sjá t.a.m. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 5/2019, Festi hf. gegn Samkeppniseftirlitinu.