25.2.2023

Vegna fréttar í Morgunblaðinu um að ekki verði af sölu Gunnars til KS

  • Samrunarannsokn-Gunnars-KS

Í frétt í Morgunblaðinu og á mbl.is í dag er greint frá því að eigendur Gunnars ehf. og KS hafi ákveðið að áfrýja ekki ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ógildingu á kaupum KS á Gunnars. Er vitnað í tilkynningar frá lögmanni Gunnars annars vegar og KS hins vegar. Er meðferð Samkeppniseftirlitsins á málinu m.a. gagnrýnd. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að koma eftirfarandi á framfæri:

Í fréttinni kemur ranglega fram að samruninn hafi verið ógiltur um níu mánuðum eftir að hann var tilkynntur. Hið rétta er að fullbúin samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu þann 19. júlí 2022. Er slík tilkynning forsenda formlegrar rannsóknar á samruna. Ákvörðun um ógildingu var tekin þann 26. janúar 2023. Rannsókn eftirlitsins tók því ekki níu mánuði.

Þá er rétt að fram komi að frumniðurstöður Samkeppniseftirlitsins í málinu lágu fyrir í byrjun október 2022. Þá var haldinn stöðufundur í málinu, þar sem Samkeppniseftirlitið kynnti frummat sitt á samrunanum fyrir aðilum um að samruninn hefði skaðleg áhrif á samkeppni og gæti ekki gengið fram að óbreyttu.

Samrunaaðilar ákváðu, eins og þeirra er réttur, að andmæla frummati eftirlitsins og halda tilkynningu sinni til streitu. Gengu þeir þó lengra en það og breyttu m.a. fyrri afstöðu sinni til skilgreininga á mörkuðum og þess aðhalds sem stafa kynni af öðrum vörutegundum og tegundum sósa. Áður höfðu samrunaaðilar í meginatriðum byggt á fordæmum úr ESB-rétti, líkt og Samkeppniseftirlitið, en töldu nú að skoða þyrfti sérstaklega aðstæður á íslenskum markaði, s.s. mögulega neysluhegðun neytenda. Kallaði þetta á frekari rannsókn af hálfu eftirlitsins.

Undir rannsókn málsins óskuðu samrunaaðilar eftir því að virkjaður yrði 20 daga viðbótarfrestur í málinu, til þess að gefa samrunaaðilum sjálfum svigrúm til að koma að frekari sjónarmiðum og m.a. framkvæma sérstaka neytendakönnun í desembermánuði að beiðni aðila á lokametrum rannsóknarinnar. Samkeppniseftirlitið varð við þeirri beiðni.

Í fréttinni er haft eftir lögmanni Gunnars að í nágrannalöndum geti fyrirtæki „fengið niðurstöðu í svona mál á nokkrum vikum“. Af þessu tilefni er rétt að fram komi að rannsókn samrunamála er háð lögbundnum tímafrestum sem eru hinir sömu og gilda í EES-/ESB–rétti. Endanleg tímalengd málsmeðferðar ræðst svo m.a. af mögulegum skaðlegum áhrifum samruna og umfangi máls. Í fyrra, árið 2022, lauk fjölmörgum samrunamálum hjá Samkeppniseftirlitinu á fyrsta fasa og á nokkrum vikum, enda þá ekki nánir keppinautar að sameinast.

Að lokum er rétt að minna á að Ríkisendurskoðun framkvæmdi nýlega stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu, en niðurstöður hennar voru kynntar í ágúst 2022. Þar kom m.a. eftirfarandi fram: „Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að á tímabilinu 2018-2020 hafi málsmeðferðartími samrunamála verið óeðlilega langur eða að viðvarandi veikleikar í afgreiðslu þeirra hafi grafið undan skilvirkni, árangri og hagkvæmni starfseminnar.“

Í skýrslunni er hins vegar að finna ýmsar tillögur og ábendingar til eftirlitsins sem horfa til þess að styrkja starfsemina, þar á meðal rannsókn samrunamála. Upplýsingar um stjórnsýsluúttektina og viðbrögð eftirlitsins má nálgast á sérstakri upplýsingasíðu á heimasíðu þess.

Almenna lýsingu á rannsókn samrunamála má einnig nálgast hér.