23.4.2018

Vegna umfjöllunar fjölmiðla og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um rannsókn á sjávarútvegsfyrirtækjum

Að undanförnu hefur verið fjallað um það á opinberum vettvangi að Samkeppniseftirlitið hafi lokið rannsókn á mögulegu samkeppnishamlandi samráði sjávarútvegsfyrirtækja. Þannig birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins þann 27. mars sl. með fyrirsögninni „Sluppu undan rannsókn vegna anna“.

Þessi frétt varð framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins tilefni til þess að skrifa pistil á heimasíðu samtakanna þann 28. mars sl. Þar er fullyrt að forstjóri Samkeppniseftirlitsins hafi ákveðið „að sleppa nokkrum fyrirtækjum við rannsókn vegna anna við samrunamál“. Segir framkvæmdastjóri SA að með því hafi verið vakin þau hugrenningatengsl að í rekstri fyrirtækjanna hafi eitthvað misjafnt átt sér stað. Síðan segir: „Forstjórinn eftirlætur dómstól götunnar um að komast að niðurstöðu sem hann vildi komast að“.

Í framhaldi af pistli framkvæmdastjóra SA birti fjölmiðillinn Hringbraut frétt með fyrirsögn þar sem segir að brot hafi verið framin, en í fréttinni er vísað í pistil framkvæmdastjóra SA.

Vegna framangreindrar umfjöllunar vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:

Í aðdraganda umfjöllunar Fréttablaðsins óskaði blaðið eftir upplýsingum um umrædda rannsókn. Var fjölmiðillinn upplýstur um að Samkeppniseftirlitið hefði lokið viðkomandi rannsókn án efnislegrar niðurstöðu. Tekið var fram að ástæðu þessara málalykta mætti rekja til mikilla anna við rannsókn samrunamála síðustu misseri, en vegna lögbundinna tímafresta í samrunamálum yrði eftirlitið ávallt að forgangsraða slíkum málum.  Því hefði verið ákveðið að ljúka málinu á þessu stigi án efnislegrar niðurstöðu. Þá var upplýst um að kæmi sama eða sambærileg háttsemi síðar til skoðunar myndi eftirlitið leggja nýjan grundvöll að þeirri rannsókn.  Í svari Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn fjölmiðilsins var aldrei notað orðalagið að þau fyrirtæki sem um ræðir hefðu „sloppið undan rannsókn“.

Samkeppniseftirlitið áréttar það sem áður hefur komið fram af þess hálfu, að framangreindri rannsókn var lokið án efnislegrar niðurstöðu. Í því felst eðli máls samkvæmt að ekki er forsvaranlegt að draga þá ályktun að umrædd fyrirtæki hafi framið brot á samkeppnislögum. Ályktanir um að þessi fyrirtæki hafi sloppið undan rannsókn eða framið brot eru því ekki Samkeppniseftirlitsins. Einnig er úr lausu lofti gripin sú staðhæfing framkvæmdastjóra SA að svör Samkeppniseftirlitsins veki þau hugrenningatengsl að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað í rekstri fyrirtækjanna. Af sömu ástæðu er ámælisverð sú fullyrðing framkvæmdastjórans að forstjóri Samkeppniseftirlitsins eftirláti dómstól götunnar að komast að niðurstöðu sem hann hafi viljað komast að.