22.12.2022

Verðhækkanir og eftirlit með mögulegum samkeppnisbrestum

Þróun framlegðar á lykilmörkuðum – upplýsingasíða

  • Frett_verdhaekkanir_upplysingasida

Hækkandi verðlag dregur að öðru óbreyttu úr kaupmætti, skerðir lífsgæði almennings og raskar efnahagslegum forsendum í rekstri heimila. Þessi sjónarmið hafa m.a. endurspeglast í kjarasamningaviðræðum. Verðbólga skapar jafnframt að öðru óbreyttu óvissu í rekstri fyrirtækja og dregur þrótti efnahagslífs.

Upplýsingasíða opnuð

Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi er því mikilvægt að hafa vakandi auga með hvers konar samkeppnishindrunum, en samkeppnishindranir geta falist í háttsemi fyrirtækja, skipulagi markaða eða þeirri umgjörð sem stjórnvöld búa mörkuðum.

Með þetta í huga hefur Samkeppniseftirlitið opnað upplýsingasíðu þar sem haldið er utan um upplýsingar, aðgerðir og sjónarmið sem tengjast verðhækkunum á íslenskum mörkuðum og samkeppnisbrestum sem kunna að koma í ljós við ríkjandi efnahagsaðstæður. Jafnframt kallar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum og ábendingum um mögulegar samkeppnishindranir og þær athuganir sem þessu tengjast.

Upplýsingasíðan er aðgengileg hér.

Greining á þróun framlegðar á lykilmörkuðum

Samkeppniseftirlitið birtir einnig í dag greiningu á þróun framlegðar á lykilmörkuðum (dagvöru, eldsneyti og byggingavöru). Tekur greiningin til ársins 2017 og fram á árið 2022.

Greiningin er aðgengileg hér og á fyrrgreindri upplýsingasíðu.

Greiningin dregur ekki fram skýrar vísbendingar um brot á samkeppnislögum sem ryðja þurfi úr vegi. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hins vegar hægt að draga eftirfarandi ályktanir af niðurstöðunum hér að framan:

  • Verðlagning og álagning á dagvöru- og eldsneytismarkaði er há í alþjóðlegum samanburði sem vekur upp spurningar um hvort samkeppnislegt aðhald á þeim mörkuðum sé nægilegt.
  • Skýrar vísbendingar eru um að aukin samkeppni með innkomu Costco, og í kjölfarið viðbrögð Atlantsolíu og annarra olíufélaga, hafi haft áhrif til lækkunar á álagningu á bensíni. Þar virðist landsbyggðin, að Akureyri undanskyldu, hins vegar hafa setið eftir og litlar breytingar á álagningu í sölu dísilolíu vekja upp spurningar um hvort skortur sé á samkeppni þar.

Þá vekur athygli að framlegð á dagvörumarkaði hefur hækkað um tæplega þriðjung á árabilinu 2017-2021 auk þess sem framlegð á byggingavörumarkaði hefur hækkað í nokkrum mikilvægum vöruflokkum á sl. árum.

Kallað eftir umræðu og sjónarmiðum

Samkeppniseftirlitið kallar eftir umræðu og sjónarmiðum um niðurstöður greiningarinnar áður en frekari ályktanir verða dregnar af þeim upplýsingum sem safnað hefur verið. Óskað er eftir sjónarmiðum, upplýsingum og ábendingum um framangreint frá fyrirtækjum á hlutaðeigandi mörkuðum, málsvörum neytenda, stjórnvöldum og öðrum áhugasömum.

Þá telur eftirlitið nauðsynlegt að efna til frekari umræðu um samkeppnisbresti við ríkjandi efnahagsaðstæður og hvernig hægt er að skapa aukið aðhald neytendum, atvinnufyrirtækjum og efnahagslífi til framdráttar. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að Samkeppniseftirlitið hefur ekki með höndum eiginlegt verðlagseftirlit. Eftirlitið miðar á hinn bóginn að því að koma auga á möguleg brot á samkeppnislögum og aðrar samkeppnishindranir sem hafa m.a. áhrif á verð.

Vegna þessa óskar Samkeppniseftirlitið jafnframt eftir sjónarmiðum, upplýsingum og ábendingum um framangreint frá fyrirtækjum á hlutaðeigandi mörkuðum, málsvörum neytenda, stjórnvöldum og öðrum áhugasömum. Þar á meðal er óskað upplýsinga, sjónarmiða eða ábendinga um eftirfarandi, sbr. nánari umfjöllun á upplýsingasíðu eftirlitsins:

  1. Óskað er eftir ábendingum og sjónarmiðum um samkeppnishindranir fyrirtækja á mikilvægum mörkuðum íslensks atvinnulífs, sem kunna að hafa birst í hækkun verðs á vöru eða þjónustu á síðustu mánuðum.
  2. Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum og ábendingum um stöðu samkeppni á banka- og vátryggingamörkuðum sem m.a. geta komið að gagni við athuganir og forgangsröðun athugana og annarra verkefna í eftirliti með samkeppni á þessu sviði.
  3. Óskað er eftir sjónarmiðum og upplýsingum frá stjórnendum fyrirtækja á lykilmörkuðum um það hvaða áhrif samkeppnislegt aðhald á viðkomandi markaði hefur á stefnumörkun og ákvarðanir um arðgreiðslur til hluthafa.
  4. Óskað er eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá eigendum fyrirtækja á lykilmörkuðum sem eiga veigamikinn eignarhlut í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði, um það hvernig eigendaaðhald af þeirra hálfu styður við samkeppni og vinnur gegn verðhækkunum.
  5. Óskað er eftir ábendingum og sjónarmiðum um samkeppnishindranir af hálfu stjórnvalda, s.s. í lögum eða reglum, sem brýnt er að taka til umfjöllunar í tilefni af hækkun verðs og vöru eða þjónustu á síðustu mánuðum.
  6. Óskað er eftir sjónarmiðum um áherslur og forgangsröðun í verkefnum Samkeppniseftirlitsins á næstu misserum, vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja.

Er þess óskað að sjónarmið sendist á netfangið samkeppni@samkeppni.is og berist eigi síðar en 14. febrúar nk.

Á fyrri hluta nýs árs mun Samkeppniseftirlitið efna til frekara samtals á grunni þeirra sjónarmiða sem munu berast í tengslum við framangreint.