18.3.2022

Verklagsreglur um skipan og störf eftirlitsaðila

  • Untitled-design-75-

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt á heimasíðu sinni verklagsreglur um skipan og störf eftirlitsaðila, þ.e. óháðra kunnáttumanna eða eftirlitsnefnda, sem skipaðir eru á grundvelli sátta í málum fyrir Samkeppniseftirlitinu. Birting verklagsreglnanna er liður í því að styrkja enn frekar umgjörð um starfsemi eftirlitsaðila og skapa gagnsæi um hlutverk og ábyrgð þeirra, sem og ábyrgð viðkomandi fyrirtækja.

Í innlendum jafnt sem erlendum samkeppnisrétti er gert ráð fyrir því að unnt sé að ljúka rannsókn samkeppnismála með sátt við málsaðila. Í samrunamálum snúast slíkar sáttir um að gera tilteknar breytingar á viðkomandi samrunum eða áhrifum þeirra með það að markmiði að koma í veg fyrir neikvæð samkeppnisleg áhrif sem annars myndu leiða af samrunanum. Til þess að auðvelda eftirfylgni með slíkum skilyrðum er í sumum tilvikum kveðið á um sérstakan eftirlitsaðila, oft nefndur óháður kunnáttumaður eða eftirlitsnefnd. Er þetta fyrst og fremst gert í stærri málum eða þar sem um flóknari skilyrði er að ræða. Slíkur eftirlitsaðili hefur það hlutverk að gæta að því að viðkomandi fyrirtæki framfylgi þeim skilyrðum sem það hefur lofað að starfa eftir. Miklir almannahagsmunir eru fólgnir í því að fyrirtæki fari að skilyrðum af þessum toga.

Með verklagsreglunum er skjalfest nánar verklag sem stuðst hefur verið við hingað til, samanber m.a. umburðarbréf sem sent var á tímabilinu nóvember 2019 til febrúar 2020, til fyrirtækja sem hafa á að skipa slíkum eftirlitsaðilum.