22.10.2021

Viðskiptalönd okkar efla samkeppni og skjóta þannig sterkari stoðum undir neytendavernd og velsæld

  • PGP_1634725884070

Í vikunni fór fram morgunverðarfundur um samkeppnis- og neytendamál á vegum verðlagseftirlits ASÍ og Neytendasamtakanna. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, flutti erindi á fundinum auk þess að taka þátt í pallborðsumræðum. Í erindi sínu bar Páll saman stefnur helstu viðskiptalanda Íslands í samkeppnismálum.

„Ef við lítum fyrst til vesturs má sjá að þar er verið að ráðast í miklar aðgerðir á vettvangi samkeppnismála. Ríkisstjórn Bandaríkjanna ætlar að ráðast gegn stöðnun í efnahagslífi og versnandi hag neytenda með því að efla samkeppni á sem flestum sviðum. Það er talað um að ráðast gegn ægivaldi stórfyrirtækja með svipuðum hætti og Roosevelt gerði snemma á síðustu öld. Sérstaklega er horft til þess að efla hag launþega með því að skjóta styrkari samkeppnisstoðum undir bandarískt efnahagslíf,“ sagði Páll og bætti við.

„Nú í sumar var gefin út ítarleg forsetatilskipun þar sem stórfelldar breytingar eru boðaðar á vettvangi samkeppnismála. Fjöldi stofnana eru kallaðar til verka til þess að bæta samkeppnisaðstæður á ýmsum sviðum atvinnulífs, svo sem í fjármálaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og landbúnaði.

Washington

Síðast en ekki síst er boðuð veruleg efling samkeppniseftirlits og stefnubreyting í átt til harðara samrunaeftirlits, til þess að vinna gegn samþjöppun og eftir atvikum að brjóta upp samsteypur fyrirtækja sem hafa fengið að vaxa á síðustu áratugum í skjóli varfærinnar beitingar á samkeppnislögum. Þá eru ráðgerðar hertar aðgerðir gegn samkeppnislagabrotum,“ sagði Páll og beindi spjótum sínum næst að Evrópu.

Bretar boða styrkingu samkeppniseftirlits

„Sunnan við okkur eru Bretar að fóta sig í nýju umhverfi eftir úrsögn úr Evrópusambandinu. Það kynnu ýmsir að halda að bresk stjórnvöld myndu nýta tækifærið og reisa atvinnulífi þar í landi varnir gagnvart evrópskri samkeppni.

Svo er hins vegar alls ekki. Núna í sumar birtu bresk stjórnvöld til umsagnar ítarlega stefnumótun á vettvangi samkeppnis- og neytendamála. Þar er lögð áhersla á að bæta hag neytenda með eflingu samkeppnisreglna og samkeppniseftirlits. Þótt bresk samkeppnisyfirvöld séu talin hafa skilað miklum ábata er boðuð styrking samkeppniseftirlits á flestum sviðum, þar með talið í samrunaeftirliti, eftirliti með samkeppnilagabrotum og í markaðsrannsóknum. Ef Bretar vilji búa til atvinnulíf á heimsmælikvarða þurfi samkeppnis- og neytendastefna einnig að vera á heimsmælikvarða.

London

Þessu til viðbótar hafa bresk stjórnvöld kynnt nýtt regluverk sem á að taka á því valdi sem stóru stafrænu fyrirtækin hafa og tryggja það að þau búi við virkt samkeppnislegt aðhald.

Á meginlandi Evrópu hafa um langa hríð staðið yfir aðgerðir til þess að tryggja virka samkeppni neytendum og efnahag þjóða til hagsbóta. Árið 2014 setti Evrópusambandið sérstaka tilskipun sem miðaði að því að auðvelda fyrirtækjum og neytendum að sækja bætur til fyrirtækja sem brjóta samkeppnisreglur. Meðal annars auðveldar tilskipunin gagnaöflun og sönnun brota.

Árið 2019 tók gildi tilskipun sem hefur það að meginmarkmiði að styrkja samkeppniseftirlit Evrópusambandsríkja, oft nefnd ECN+. Þar eru settar lágmarkskröfur um hvaða eftirlitstæki samkeppniseftirlit hafi yfir að ráða og stuðlað að samræmingu viðurlaga í einstökum ríkjum, bæði hvað varðar umgjörð og fjárhæð sekta. Einnig eru kveðið á um samræmingu reglna um lækkun eða niðurfellingu sekta þegar fyrirtæki stíga fram og upplýsa um brot og eða aðstoða við rannsókn.

Brussel

Síðast en ekki síst er í tilskipuninni kveðið á um sjálfstæði samkeppniseftirlita, bæði í eftirliti og ákvörðunum, en einnig stuðlað að því að þau búi yfir nægilegu bolmagni til að sinna hlutverki sínu.

Og á síðasta ári hóf framkvæmdastjórnin svo vinnu við að efla úrræði sín til að taka á nýjum áskorunum, ekki síst á vettvangi starfrænna markaða. Af þessu má sjá að viðskiptalönd okkar hafa markað þá skýru stefnu að efla samkeppni og skjóta þannig sterkari stoðum undir neytendavernd og velsæld viðkomandi landa.

Ef við ætlum ekki að vera eftirbátar viðskiptalanda okkar þurfum við að gera slíkt hið sama,ׅ“ var á meðal þess sem kom fram í máli Páls á fundinum. Ræðuna í heild má nálgast hér.