10.6.2021

Yfirlýsing vegna sáttarviðræðna við Eimskip

Samkeppniseftirlitið og Eimskip undirrituðu þann 9. júní 2021 eftirfarandi yfirlýsingu;

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætluð brot Eimskipafélags Íslands hf. (og tengdra félaga) og Samskipa hf. (og tengdra félaga) á 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Megin rannsóknartímabilið eru árin 2008 – 2013. Einnig hafa ætluð brot á 19. gr. samkeppnislaga verið til rannsóknar.

Í 17. gr. f. samkeppnislaga segir að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt. Í sátt samkvæmt samkeppnislögum getur falist að fyrirtæki viðurkenni brot, fallist á að greiða sekt og grípi til aðgerða til að efla samkeppni.

Eimskip hefur snúið sér til Samkeppniseftirlitsins og óskað eftir formlegum viðræðum um hvort unnt sé með vísan til 17. gr. f. samkeppnislaga að ljúka rannsókn eftirlitsins á brotum fyrirtækisins með sátt.

Samkeppniseftirlitið fellst á að hefja viðræður við Eimskip um hvort forsendur séu til þess að ljúka rannsókn á brotum fyrirtækisins með sátt.

Eimskip er ljóst að í sáttarviðræðunum er leitað leiða til að bregðast með fullnægjandi hætti við þeim aðgerðum Eimskips sem lýst er í andmælaskjölum Samkeppniseftirlitsins frá 6. júní 2018 og 13. desember 2019. Náist niðurstaða í sáttaviðræðunum mun það fela í sér endanlegar lyktir gagnvart Eimskipi á þeirri rannsókn og málsmeðferð sem lýst er í andmælaskjölum Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið mun á þessu stigi ekki veita frekari upplýsingar um viðræður við Eimskip.

Bakgrunnsupplýsingar:

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins.

Rannsóknin hófst með húsleit í september 2013 í kjölfar ábendinga frá bæði viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa. Önnur húsleit var framkvæmd í júní 2014. Hefur málið verið til samfelldrar rannsóknar og hefur fyrirtækjunum m.a. í tvígang verið gefinn kostur á að tjá sig um frummat eftirlitsins, með útgáfu svokallaðra andmælaskjala.

Fyrirtæki geta á hvaða stigi rannsóknar óskað eftir viðræðum um hvort unnt sé með vísan til 17. gr. f. samkeppnislaga að ljúka rannsókn eftirlitsins á ætluðum brotum fyrirtækisins með sátt, sbr. 22. gr. reglna nr. 880/2005.