Fræðsla og leiðbeining


Samtal um samkeppni

Fundaröð Samkeppniseftirlitsins með atvinnulífi og stjórnvöldum

Undanfarin ár hefur Samkeppniseftirlitið staðið fyrir fundaröð með atvinnulífi og stjórnvöldum um samkeppnismál undir samheitinu „Samtal um samkeppni“. Fundirnir eru umræðuvettvangur þar sem fjallað er um hverju hefur verið áorkað og hver séu brýnustu viðfangsefnin framundan. Með þessu er Samkeppniseftirlitið að leggja við hlustir, þ.e. draga saman sjónarmið og upplýsingar sem að gagni geta komið við forgangsröðun verkefna og mótun áherslna. Um leið er eftirlitið að búa til vettvang til að koma sjónarmiðum á framfæri, sem vonandi gagnast öðrum þátttakendum einnig.

Fundirnir eru með misjöfnu sniði en það ræðst af eðli og efni fundanna. Sumir eru einugis ætlaðir boðsgestum sem tengjast málaflokknum sérstaklega og eru þeir smærri í sniðum en aðrir fundir eru opnir og verða þeir auglýstir sérstaklega hér á vefnum.


Morgunverðarfundur á Grand Hótel um áhrif samkeppni á hagvöxt og launakjör

Morgunverðarfundur Samkeppniseftirlitsins um áhrif samkeppni á hagvöxt og launakjör var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík miðvikudaginn 31. ágúst 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var hin bandaríska Fiona Scott Morton, hagfræðiprófessor við Yale-háskóla. Um 40 manns sóttu fundinn og þá fylgdumst um 200 með í beinu streymi. 

Fiona-Scott-MortonFiona er með doktorsgráðu frá Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT) en hún hefur einblínt á samkeppnishagfræði í rannsóknum sínum auk þess sem hún starfaði um skeið sem aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem m.a. fer með framkvæmd á þarlendum samkeppnislögum. Auk Fionu fluttu Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, erindi á fundinum. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins flutti opnunarávarp og Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins, hafði umsjón með umræðum og spurningum úr sal. 

IMG-2474Að neðan má horfa á upptöku af fundinum: 

https://www.youtube.com/watch?v=HP60nmvam2U&t=1585s

Dagskrá:

 • 08:15 – Kaffi og morgunverður
 • 08:30 – Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, býður gesti velkomna
 • 08:35 – Fiona Scott Morton, hagfræðiprófessor við Yale háskóla - erindi
 • 09:05 – Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands - erindi
 • 09:15 - Spurningar úr sal og umræður
 • 09:25 – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flytur lokaorð

Morgunráðstefna í Hörpu um samspil samkeppni, verðbólgu og kaupmáttar

Morgunfundur Samkeppniseftirlitsins um samspil samkeppni, verðbólgu og kaupmáttar fór fram í Björtuloftum í Hörpu mánudaginn 13. júní 2022. Tilefni ráðstefnunnar var koma aðalhagfræðinga samkeppniseftirlita í Evrópu hingað til lands en Samkeppniseftirlitið hélt árlegan fund þeirra að þessu sinni. Um 100 manns mættu á ráðstefnuna í Hörpu og þá fylgdust 400 manns með í streymi eða horfðu á upptöku.

Untitled-design-93-

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flutti opnunarávarp á fundinum og Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti erindi. Hann fjallaði um hvaða áhrif samkeppni og samkeppniseftirlit geta haft á verðbólgu og kaupmátt. Aukin verðbólga er áhyggjuefni víða um heim þessi misserin þar sem hún getur rýrt kaupmátt heimila.

Að neðan má nálgast upptöku frá ráðstefnunnni.

https://www.youtube.com/watch?v=4ffHFM1KPNg

Frábærir gestir tóku þátt í fjörugum pallborðsumræðum:

 • Ana Sofia Rodrigues, aðalhagfræðingur portúgalska samkeppniseftirlitsins
 • Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
 • Martin Gaynor, hagfræðiprófessor við Carnegie Mellon-háskóla
 • Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB
 • Fundarstjórn: Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Dagskrá:

 • 08:00 – Kaffi og morgunverður
 • 08:15 – Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, býður gesti velkomna ( eintak hér )
 • 08:20 – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flytur opnunarávarp
 • 08:25 – Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flytur erindi ( eintak hér )
 • 08:50 – Pallborðsumræður
 • 09:40 – Sveinn Agnarsson, stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins, flytur lokaorð ( eintak hér )

Hér má nálgast frétt um fundinn.


Samtal um samkeppni: Vel sóttur umræðufundur um meðferð samrunamála

Þriðjudaginn 1. júní 2021 hélt Samkeppniseftirlitið opinn veffund um meðferð samrunamála, en rúmlega 40 manns tóku þátt í fundinum.

Á fundinum fjallaði Jani Ringborg, sérfræðingur hjá samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar ESB, um rannsókn samrunamála. Einkum rakti hann fyrirkomulag forviðræðna (e. pre-notification talks), en slíkar viðræður eiga sér stað í flestum málum á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar. Í þessu sambandi reifaði Jani hvaða gögn lægju til grundvallar slíkum viðræðum, hvaða tíma viðræðurnar tækju og hverju þær gætu skilað.

Í máli Jani kom fram mikilvægi þess fyrir skilvirka meðferð samrunamála að samrunaaðilar veiti greinargóðar upplýsingar og gögn í forviðræðum. Það verklag stuðlar að því að málið sé vel upplýst strax við mótttöku samrunatilkynningar og um leið gerir það eftirlitinu kleift að skipuleggja vinnu sína betur.

Einnig reifaði Jani að forviðræður væru vettvangur fyrir hreinskiptið samtal um gagnaöflun, skipulag rannsóknar og í sumum tilvikum mögulegar samkeppnishindranir og lausnir á þeim. Jani lagði þó áherslu á að þess væri ekki að vænta að samkeppnisyfirvöld væru í stakk búin að taka skýra afstöðu til álitaefna í forviðræðum, enda rannsókn ekki hafin.

Þá kom fram að forviðræður hefðu leitt til þess að fleiri samrunamál væru afgreidd á I. fasa.

Glærur af fundinum, ásamt upptöku af innleggi Jani Ringborg er aðgengileg hér .

Bakgrunnsupplýsingar:

Fundurinn var sá þriðji í röð umræðufunda um meðferð samrunamála:

 • Fyrsti fundurinn var haldinn þann 16. október 2019, en til grundvallar umræðum á þeim fundi lá minnisblað eftirlitsins um meðferð samruna, reynslu og úrbótatækifæri.
 • Annar fundurinn var haldinn þann 11. desember 2020, en á þeim fundi var kallað eftir umræðum um drög að nýjum samrunareglum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar og aflað sjónarmiða.

Fundurinn nú var haldinn í ljósi fenginnar reynslu af hinum nýju samrunareglum. Í því sambandi er einnig gagnlegt að leita í reynslubanka framkvæmdastjórnar ESB, en hún hefur mikla reynslu af meðferð samrunamála. Samrunareglur samkeppnislaga hér á landi sækja fyrirmynd sína til samrunareglugerðar ESB.

Þá er rétt að benda á að nýlega birti Samkeppniseftirlitið pistil á heimasíðu sinni (nr. 4/2021), þar sem meðferð samrunamála hér á landi er borin saman við samrunamál í nágrannalöndum. Þar kemur m.a. fram að málshraði hér á landi er sambærilegur við málshraða hjá framkvæmdastjórn ESB, þegar búið er að taka tillit til þess að stór hluti meðferðar hjá framkvæmdastjórninni á sér stað á vettvangi forviðræðna við samrunaaðila, þ.e. áður en tímafrestir í málinu byrja að líða.


Samtal um Samkeppni: Fjölsótt alþjóðleg vefráðstefna um samkeppnismál – samstaða um mikilvægi samkeppnisreglna

Þann 9. júní 2020 stóð Samkeppniseftirlitið fyrir alþjóðlegri vefráðstefnu um stefnumörkun á vettvangi samkeppnismála, undir fyrirsögninni „COVID:19: Hætta á aukinni verndarstefnu og veikara eftirliti með samkeppni?“. Tæplega 250 þátttakendur skráðu sig til leiks, frá rúmlega 40 þjóðlöndum. Ráðstefnan var liður í fundarröð Samkeppniseftirlitsins, „Samtal um samkeppni“. Fundarboðið má nálgast hér.

Ráðstefnan hafði tvíþættan tilgang. Annars vegar var hún liður í þeirri viðleitni Samkeppniseftirlitsins að afla upplýsinga og sjónarmiða sem nýst geta í stefnumörkun hér á landi um efnahags- og samkeppnismál við ríkjandi efnahagsaðstæður. Hins vegar var ráðstefnan framlag Samkeppniseftirlitsins til erlends samstarfs samkeppniseftirlita, en eftirlitið er þátttakandi í þéttu samstarfi, m.a. á vettvangi evrópskra og norrænna samkeppnisyfirvalda.

Í pallborði ráðstefnunnar sátu fimm virtir fræðimenn á vettvangi samkeppnismála. Frá Bandaríkjunum komu Jonathan Baker, rannsóknarprófessor við American University Washington College of Law og Fiona Scott Morton, prófessor í hagfræði við Yale University School of Management. Frá meginlandi Evrópu komu Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Lars Sørgard, forstjóri norska samkeppniseftirlitsins. Frá Íslandi tók þátt Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Á ráðstefnunni var m.a. rakið hvernig beiting samkeppnisreglna hefur á undanliðnum áratugum þróast með mismunandi hætti. Þannig var bent á að væg beiting samkeppnisreglna og túlkun samkeppnisréttar í Bandaríkjunum hafi leitt til aukinnar samþjöppunar á ýmsum mikilvægum mörkuðum sem ýtt hafi m.a. undir aukna misskiptingu auðs. Á hinn bóginn eru Evrópsk samkeppnisyfirvöld að huga að endurbótum samkeppnisreglna og enn meiri festu í eftirfylgni þeirra, til þess að tryggja samkeppnishæfni Evrópuríkja.

Rætt var um hvort það væri skynsamlegt að veita fyrirtækjum vernd frá samkeppni/samkeppniseftirliti á heimamarkaði í skyni að gera þeim betur kleift að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni (e. national champions). Almenn samstaða var meðal fundarmanna um að þetta væri ekki skynsamleg stefna. Þvert á móti myndi festa í framfylgd samkeppnisreglna á heimamarkaði ala af sér sterkari fyrirtæki, sem yrðu betur í stakk búin til þess að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni, auk þess sem hagsmunir neytenda í viðkomandi ríki væru betur tryggðir.

Þá var einnig samstaða um að þjóðríki ættu að forðast að svara núverandi efnahagssamdrætti með aukinni verndarhyggju og veikara eftirliti. Mun árangursríkara væri að nýta krafta samkeppninnar við endurreisnina og flýta þannig uppbyggingu efnahagslífsins.

Einstaka hluta umræðnanna sem áttu sér stað á ráðstefnunni má nálgast hér að neðan:

 1. Which economic evidence show that domestic competition fosters international competitiveness?
 2. Two problems of creating national champions that go beyond direct effects on productivity?
 3. How has anti trust enforcement developed in the US for the last few years?
 4. How important is merger control for the Nordic countries?
 5. Does lobbying explain the diversion between US and EU anti trust enforcement?
 6. Is DG COMP making it impossible for EU firms to grow into effective competitors?
 7. Should merger control be relaxed to allow for the creation of national champions?
 8. How would increased emphasis on national champions affect smaller economies?
 9. How should competition agencies react when protectionism is promoted?
 10. Will COVID 19 related decisions of the EU Commission increase protectionism?
 11. Why are legislators considering new tools for competition enforcers?
 12. Is there a need to improve the anti trust law and enforcement in the US?

Upptöku af ráðstefnunni má nálgast hérhér


Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um nýjar samrunareglur

Þann 11. desember 2020 hélt Samkeppniseftirlitið opinn umræðufund um drög eftirlitsins að endurskoðuðum reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar á heimasíðu eftirlitsins og áhugasömum verið gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum. Fundarboðið má nálgast hér.

Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu um 28 manns fundinn. Sköpuðust þar frjóar umræður þær meginbreytingar sem lagðar eru til í nýju reglunum. Var fundurinn gagnlegur og munu sjónarmið sem þar komu fram nýtast við frágang leiðbeininganna.

Hinar nýju reglur byggja að verulegu leyti á gildandi reglum frá árinu 2008, með síðari breytingum. Þær breytingar sem nú eru gerðar eru einkum af tvennum toga:

 1. Formfestar eru breytingar á verklagi við meðferð samrunamála sem miða að aukinni skilvirkni, en eftirlitið hefur áður leitað samráðs vegna þessa og efnt til fundar í fundarröðinni Samtal um samkeppni þar sem gagnlegar umræður fóru fram um reynsluna.
 2. Reglurnar eru uppfærðar með tilliti til breytinga á samkeppnislögum sem tóku gildi þann 23. júlí á þessu ári.

 


Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um drög að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga

Þann 30. nóvember 2020 hélt Samkeppniseftirlitið opinn umræðufund um drög eftirlitsins að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga, en drögin höfðu verið birt til umsagnar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins og áhugasömum gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum. Fundarboðið má nálgast hér.

Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu um 25 manns fundinn. Sköpuðust þar góðar umræður um efni leiðbeininganna og þær meginbreytingar sem nýtt ákvæði 15. gr. samkeppnislaga mun hafa í för með sér. Var fundurinn gagnlegur og munu sjónarmið sem þar komu fram nýtast við frágang leiðbeininganna.


Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða um verklag við rannsóknir á samrunum

SamtalumsamkeppnisamrunarSamkeppniseftirlitið hefur um þessar mundir til athugunar hvort og þá hvernig gera megi verklag við rannsóknir samrunamála enn skilvirkari. Meðal annars er til skoðunar hvort efni séu til breytinga á reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, sem eftirlitið setur samkvæmt samkeppnislögum.

Af þessu tilefni efndi Samkeppniseftirlitið til fundar þann 16. október 2019 með lögmönnum sem komið hafa fram fyrir hönd samrunafyrirtækja gagnvart eftirlitinu frá upphafi árs 2018. Var fundurinn vel sóttur en um milli 40 og 50 manns tóku þátt. Var fundurinn liður í fundarröð sem Samkeppniseftirlitið hefur haldið undanfarin ár undir heitinu Samtal um samkeppni.

Fyrir fundinum lá minnisblað þar sem gefið er yfirlit yfir fjölda samrunamála og aðrar tölulegar upplýsingar um rekstur þeirra. Þá er í minnisblaðinu kallað eftir viðbrögðum um mögulegar breytingar á umgjörð og verklagi samrunarannsókna. Minnisblaðið er aðgengilegt hér.


Tólf fundir um það hvernig stjórnvöld geta eflt íslenskt efnahagslíf með endurbættu regluverki

Dagana 22.-24. febrúar 2017 átti Ania Thiemann, einn af stjórnendum samkeppnisdeildar OECD, tólf fundi hér á landi með opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Á fundunum var rætt um áhrif laga og reglna og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á samkeppni og efnahagslíf. Sérstaklega var farið yfir hvernig nýta mætti svokallað samkeppnismat til þess að draga úr samkeppnishindrunum sem stafað geta af þeirri umgjörð sem stjórnvöld búa atvinnulífi.  

Nánar má lesa um fundinn hér.


Eignarhald á atvinnufyrirtækjum – Áskoranir framundan

Samkeppniseftirlitið stóð þann 25. maí árið 2016 fyrir umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni. Fundurinn var sá fjórði í fundaröð sem eftirlitið rekur undir yfirskriftinni  „Samtal um samkeppni“. Tæplega 80 manns sóttu fundinn og spunnust gagnlegar umræður um málefnið. Til undirbúnings umræðunum setti Samkeppniseftirlitið saman stutt minnisblað.  

Nánar má lesa um fundinn hér.


Beiting samkeppnisreglna

Dr. Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) flutti erindi á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins í febrúar 2016 um beitingu samkeppnisreglna á Íslandi og Evrópska efnahagssvæðinu.

Nánar má lesa um fundinn hér.


Áhrif stjórnvalda á samkeppni

Fyrsti fundur í fundarröðinni fór fram þann 3. desember 2015 en þar var Ania Thiemann, hagfræðingur hjá samkeppnisdeild OECD frummælandi. Fundurinn fjallaði um áhrif stjórnvalda á samkeppni.

Nánar má lesa um fundinn hér


Tölum um samkeppni í landbúnaði

Annar fundur fundarraðarinnar var haldinn föstudaginn 12. febrúar árið 2016 undir yfirskriftinni „Tölum um samkeppni í landbúnaði“. Landbúnaðarráðherra, fulltrúum hagsmunaaðila í landbúnaði og verslun og fulltrúum neytenda var boðið til fundarins.

Í pallborði sátu dr. Daði Már Kristófersson stjórnandi fundarins og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra, Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, Jón Björnsson forstjóri Festis og Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.   

Umræður voru líflegar og komið víða við. Á fundinum lá frammi minnisblað um málefnið sem nálgast má hér