18.2.2016

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mun verða meira áberandi í framkvæmd samkeppnisreglna á Íslandi í framtíðinni

Dr. Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA flutti í dag erindi á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins um beitingu samkeppnisreglna á Íslandi og Evrópska efnahagssvæðinu. Fundurinn var fjölmennur en hann sóttu yfir hundrað manns m.a. fulltrúar atvinnulífs og stjórnvalda.

ESA hefur mikilvægu hlutverki að gegna við úrlausn samkeppnismála á Íslandi. Ástæðan er m.a. sú að íslenskum samkeppnisyfirvöldum ber að beita banni EES-samningsins við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu (53. og 54. gr. EES-samningsins), samhliða beitingu samhljóða ákvæða íslensku samkeppnislaganna (10. og 11. gr.). ESA fylgist með því að íslensk samkeppnisyfirvöld beiti ákvæðum EES-samningsins með fullnægjandi hætti. Þá getur ESA tekið yfir mál sem eru til rannsóknar eða hafið rannsóknir að eigin frumkvæði, eftir atvikum með húsleitum hér á landi.

Sektir verða að fela í sér fullnægjandi varnaðaráhrif

Dr. Mathiesen fjallaði ítarlega um sektir vegna samkeppnislagabrota og lagði áherslu á mikilvægi þess að þær fælu í sér fullnægjandi varnaðaráhrif. Fjallaði hann um nokkur fordæmi og fór yfir leiðbeiningarreglur ESA um þetta efni. Ekki væri fullnægjandi að sektir væru nógu háar til að stöðva áframhaldandi brot viðkomandi fyrirtækis, heldur þyrftu önnur fyrirtæki einnig að draga þann lærdóm að það borgaði sig ekki að brjóta samkeppnisreglur.

Einnig skýrði hann frá vinnu innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem ætlað er að samræma betur sektarákvarðanir og tryggja að sektir séu nógu háar til að ná fram nauðsynlegum varnaðaráhrifum.

ESA ætlar sér að verða meira áberandi í íslenskum samkeppnismálum

Dr. Mathiesen greindi frá því að ESA hefði hug á því að verða meira áberandi í samkeppnismálum á Íslandi í framtíðinni. Stofnunin hefði víðtæka lögsögu í íslensku atvinnulífi, enda væri gildissvið samkeppnisreglna EES-samningsins túlkað mjög rúmt.

Boðaði hann að ESA myndi beita sér meira í samkeppnismálum fyrir íslenskum dómstólum, en stofnunin hefur heimild til þess að setja fram sjónarmið (amicus curiae observations) við meðferð dómsmála sem varða EES-rétt.

Þá taldi dr. Mathiesen líklegt að ESA myndi taka upp að eigin frumkvæði rannsóknir á íslenskum fyrirtækjum, líkt og ESA hefði um árabil gert í Noregi. Ekkert væri slíkum rannsóknum til fyrirstöðu.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
Samkeppnisreglur EES-samningsins og eftirfylgni ESA hefur haft mikla þýðingu við framkvæmd samkeppniseftirlits á Íslandi. Samkeppniseftirlitið hefur átt gott samstarf við ESA og telur það mjög jákvætt skref ef ESA verður meira áberandi í íslenskum samkeppnismálum í framtíðinni.


Aðgerðir til að efla samkeppniseftirlit og sjálfstæði eftirlitsstofnana í Evrópu

Dr. Mathiesen gerði einnig grein fyrir vinnu á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem miðar að því að samræma betur samkeppniseftirlit í einstökum löndum og auka sjálfstæði samkeppniseftirlita innan evrópska efnahagssvæðisins.  Nánari upplýsingar um þessa vinnu má finna hér.

Glærur frá erindi Gjermund Mathiesen má nálgast hér.


 



Um fundaröð Samkeppniseftirlitsins:


Fundurinn er liður í fundaröð Samkeppniseftirlitsins með atvinnulífi, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, undir samheitinu „Samtal um samkeppni“. Fundunum er ætlað að vera umræðuvettvangur um samkeppnismál, þar sem tækifæri gefst til þess að ræða hverju hafi verið áorkað og hver séu brýnustu viðfangsefnin framundan. Með þessu er Samkeppniseftirlitið að leggja við hlustir, koma á framfæri leiðbeiningum og taka við sjónarmiðum frá atvinnulífi, stjórnvöldum og neytendum.