13.1.2021

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Síminn hafi með markaðssetningu og sölu á Enska boltanum brotið gegn sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið

Áfrýjunarnefndar samkeppnismála kvað í dag upp úrskurð í tilefni af kæru Símans hf. á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem fyrirtækinu hafði verið gert að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á skilyrðum tveggja sátta sem það hafði gert við eftirlitið 23. janúar og 15. apríl 2015.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er staðfest að Síminn hafi brotið gegn þeirri sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið 15. apríl 2015 með því að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og línulega sjónvarpsþjónustu (Enska boltann á Símanum Sport) í svonefndum Heimilispakka. Í úrskurðinum er tekið fram að brot Símans sé alvarlegt en háttsemi fyrirtækisins hafi verið í andstöðu við ákvæði sáttarinnar sem það hafi undirgengist að hafa í heiðri í starfsemi sinni. Var talið að Símanum hafi ekki getað dulist að markaðssetning og sala fyrirtækisins á sjónvarpsrásinni Símanum Sport kynni að fara í bága við sáttina. Við ákvörðun á fjárhæð sektar vegna brotsins er tekið fram að Síminn hafi áður gerst sekur um sambærilegt brot sem hafi varðað stjórnvaldssekt og taldi nefndin með vísan til þessa að sekt vegna þessa brots skyldi vera 200 m. kr.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar var aftur á móti talið að Samkeppniseftirlitið þyrfti að rannsaka nánar stöðu Símans á markaði að því er snerti þá háttsemi sem í ákvörðun eftirlitsins var talin brjóta gegn sáttinni frá 23. janúar 2015. Af þeim sökum var þeim þætti málsins vísað til nýrrar meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvernig það hyggst bregðast við úrskurðinum.