27.10.2022

Ekki farið rétt með í frétt Morgunblaðsins um sölu Símans á Mílu

  • Mynd-1_1666860522595

Í umfjöllun Morgunblaðsins í gær um greiðslu til hluthafa Símans við sölu á Mílu er látið að því liggja að lífeyrissjóðir hafi orðið fyrir sex milljarða króna tapi vegna verulegra tafa við sölu á félaginu, sem rekja megi til samrunarannsóknar Samkeppniseftirlitsins. Haft er eftir ónafngreindum forsvarsmönnum lífeyrissjóða að þeir gagnrýni meðferð og vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins.

Í þágu upplýstrar umræðu er óhjákvæmilegt að leiðrétta framangreint. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins fór að öllu leyti fram innan þeirra fresta sem lög setja rannsókn á samrunamálum og urðu engar tafir við meðferð málsins hjá eftirlitinu. Þess ber hins vegar að geta að endanleg samrunatilkynning barst ekki frá samrunaaðilum fyrr en 8. febrúar, eða rúmum þremur mánuðum eftir að tilkynnt var um kaupin. Formlega rannsókn samrunamáls er ekki unnt að hefja fyrr en að móttekinni fullbúinni samrunatilkynningu.

Við rannsóknina var varpað ljósi á verulegar samkeppnishindranir sem hljótast myndu af viðskiptunum og grundvelli þeirra eins og þau voru kynnt Samkeppniseftirlitinu. Þannig byggðu viðskiptin á langtíma heildsölusamningi milli Símans og Mílu sem fól í sér samkeppnishindranir, sem engin fordæmi reyndust fyrir. Þá voru fjarskiptakerfi og heildsölustarfsemi flutt frá Símanum til Mílu í aðdraganda sölunnar sem styrktu stöðu Mílu og var að óbreyttu til þess fallin að skaða samkeppni. Þessar samkeppnishindranir voru til þess fallnar að skerða hag almennings og atvinnulífsins og kölluðu á aðgerðir af hálfu Samkeppniseftirlitsins.

Rannsókninni lauk með sátt við samrunaaðila sem fól í sér verulegar breytingar á framangreindum heildsölusamningi og skuldbindingar um frekari aðgerðir af hálfu samrunaaðila. Hafa samningsaðilar upplýst opinberlega um að þessar aðgerðir hafi kallað á endurskoðun á kaupverði.

Lyktum málsins er ítarlega lýst á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, sjá hér. Þar er einnig aðgengileg ítarleg lýsing á rannsókn og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins (sjá neðst í slóðinni).

Í ljósi mikilvægis málsins kappkostaði eftirlitið að tryggja gagnsæi í rannsókn málsins með því að birta ítrekað tilkynningar á heimasíðu sinni um stöðu rannsóknarinnar og gefa hagsmunaaðilum tækifæri að koma á framfæri sjónarmiðum. Komu aðilar á markaðnum á framfæri ítarlegum sjónarmiðum og áhyggjum vegna áhrifa viðskiptanna á samkeppni. Hið sama gerði Fjarskiptastofa sem hefur ásamt Samkeppniseftirlitinu það hlutverk að lögum að vernda samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Samkeppniseftirlitinu hafa ekki borist neinar athugasemdir frá lífeyrissjóðum vegna rannsóknarinnar, hvorki á meðan á henni stóð eða síðar.