Samkeppni Logo

Fyrri athugun á stjórnunar- og eignatengslum hætt í framhaldi af úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála

31. október 2025

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr.
3/2023
, Brim hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, var felld úr gildi
ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2023. Í þeirri ákvörðun voru lagðar
dagsektir á Brim hf. til þess að knýja á um afhendingu gagna vegna athugunar á
stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja. Hafði Samkeppniseftirlitið
gert samning við matvælaráðuneytið sem tryggði fjármagn til verkefnisins.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er komist að þeirri niðurstöðu
að það samræmist ekki því hlutverki sem Samkeppniseftirlitinu er fengið í
samkeppnislögum sem sjálfstæðu stjórnvaldi að gera sérstaka samninga við
stjórnvöld um einstakar athuganir. Jafnframt verði ekki talið að
Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum vegna
athugana sem að mati áfrýjunarnefndar er stofnað til með þeim hætti. Að því
virtu var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væru uppfyllt skilyrði til að
leggja dagsektir á Brim.

Samkeppniseftirlitið ákvað að una úrskurði
áfrýjunarnefndar. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið slitið samningi
sínum við matvælaráðuneytið, dags. 19. september 2022, sem skapaði eftirlitinu
rekstrarlegt svigrúm til að ljúka umræddri athugun á þessu ári. Var samningnum
slitið með bréfi, dags. 29. september síðastliðinn.

Þessu til samræmis gaf Samkeppniseftirlitið Fjársýslu
ríkisins fyrirmæli um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem það hafði fengið
greidda á grundvelli samningsins. Hafa þeir fjármunir nú verið endurgreiddir.

Jafnframt hefur fyrirtækjum sem Samkeppniseftirlitið hafði
kallað eftir upplýsingum frá, verið tilkynnt um að eftirlitið hefði hætt þeirri
athugun á stjórnunar- og eigna­tengslum í íslenskum sjávarútvegi sem kynnt var
á heimasíðu eftirlitsins 5. október 2022, sbr. upplýsinga­beiðni til fyrirtækjanna
frá apríl 2023.

Ný athugun

Eins og gerð er grein fyrir í tilkynningu
á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, dags. 20. september sl., hefur
Samkeppniseftirlitið í hyggju að hefja nýja athugun á stjórnunar- og
eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja. Nánari ákvarðanir um fyrirkomulag þeirrar
athugunar eða tímaáætlanir liggja ekki fyrir. Að öðru leyti vísast um þetta til fyrri
tilkynningar.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkeppniseftirlitinu hafa borist beiðnir frá nokkrum
fyrirtækjum í sjávarútvegi um eyðingu þeirra gagna sem aflað var í
athuguninni. Í 1. mgr. 24. gr. laga um
opinber skjalasöfn nr. 77/2014 er kveðið á um að óheimilt sé að ónýta eða farga
nokkru skjali í skjalasöfnum þeirra aðila sem falla undir 1. eða 2. mgr. 14.
gr. nema það sé gert á grundvelli samþykktar þjóðskjalavarðar, reglna skv. 23.
gr. eða 2. mgr. 24. gr. laganna. Samkeppniseftirlitið aflaði sjónarmiða
Þjóðskjalasafns um fyrirliggjandi beiðnir um eyðingu gagna. Þjóðskjalasafn
upplýsti Samkeppniseftirlitið um að það væri afstaða þess að þrátt fyrir
úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/2023 teldust umrædd gögn skjöl í
skilningi 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um opinber skjalasöfn og því ætti ákvæði
24. gr. sömu laga við um þau. Af því leiðir að Samkeppniseftirlitinu er
óheimilt að eyða umræddum gögnum, nema fyrir liggi sérstakt samþykki þjóðskjalavarðar.
Samkeppniseftirlitið hefur þessi mál til nánari skoðunar.

Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar staðfest við
viðkomandi fyrirtæki að það muni ekki í síðari athugunum byggja á gögnum eða
upplýsingum sem afhent voru í tilefni af upplýsingabeiðni eftirlitsins, dags.
5. apríl 2023. Síðari athuganir á þessu sviði munu því byggja á nýrri
gagnaöflun.

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.