13.6.2019

Íslenskur almenningur meðvitaður um mikilvægi virkrar samkeppni

Dagana 30. apríl til 3. maí 2019 framkvæmdi MMR könnun, að beiðni Samkeppniseftirlitsins, um viðhorf almennings til samkeppnisstefnu stjórnvalda og samkeppni í tilteknum atvinnugeirum. Könnunin er sambærileg könnun sem framkvæmdastjórn ESB lét framkvæma í öllum aðildarríkjum sínum. Gefur hún því færi á samanburði við viðhorf almennings í aðildarríkjum ESB.

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að íslenskir neytendur séu mjög meðvitaðir um mikilvægi virkrar samkeppni og samkeppniseftirlits.

Meginniðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

  • 97% svarenda telja virka samkeppni hafa jákvæð áhrif á sig sem neytendur. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru ESB-landanna og afgerandi hærra en að meðaltali í ESB ríkjunum, en þar svöruðu 83% því til að virk samkeppni hefði jákvæð áhrif á sig sem neytendur.
  • Íslendingar verða mest varir við samkeppnisvandamál í farþegaþjónustu (42%), fjármálaþjónustu (33%) og á matvörumarkaði (24%). Í könnun ESB nefna hins vegar flestir síma- og netþjónustu (27%), orkumarkað og lyfjamarkað.
  • Um 8 af hverjum 10 hafa heyrt um ákvörðun sem tekin hefur verið af samkeppnisyfirvöldum og nær allir nefna Samkeppniseftirlitið í því samhengi. Í könnun ESB höfðu 5 af hverjum 10 heyrt um ákvörðun samkeppnisyfirvalda.

Bakgrunnsupplýsingar:

Könnuninni svaraði 941 einstaklingur og voru niðurstöðurnar metnar með tilliti til aldurs, kyns, búsetu og menntunar. Í könnuninni var spurt um viðhorf almennings til eftirfarandi þátta:

  • Áhrifa samkeppni á neytendur og efnahagslífið.
  • Persónulegrar reynslu af vandamálum vegna skorts á samkeppni, flokkað eftir geirum og birtingarmynd vandamálanna. Nánar tiltekið var spurt um samkeppni í síma- og internetþjónustu, farþegaþjónustu, dagvörusölu, fjármálaþjónustu, lyfjamarkaði og orkumarkaði.
  • Þekkingar á samkeppnismálum (s.s. samráði eða samrunum fyrirtækja) og hvar hennar var aflað.
  • Þekkingar á ákvörðunum sem teknar eru í tengslum við vandamál tengd samkeppni og hvaða yfirvöld taka þær.
  • Hvert almenningur leiti ef hann verður áskynja um samkeppnisvandamál.

Nánari upplýsingar um könnunina og samanburð við sambærilega könnun sem framkvæmdastjórn ESB framkvæmdi í janúar sl. má finna í riti Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2019, Viðhorf almennings til samkeppnismála.