26.1.2012

Talsverðar aðgangshindranir að dagvörumarkaði

  • Frá ráðstefnunni Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Steingrímur Ægisson sviðsstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu í ræðustól.Hagar, Kaupás og Samkaup með 90% markaðshlutdeild á dagvörumarkaði
  • Hlutdeild lágvöruverðsverslana hefur aukist úr 20% í 63% á einum áratug
  • Minni verslanir greiða birgjum að meðaltali 15% hærra verð en Hagar
  • Í nokkrum vöruflokkum er lægsta smásöluverð lágvöruverðsverslana lægra en innkaupsverð minni verslana
  • 60% verðhækkun á dagvöru frá 2006 til 2011 skýrist að mestu leyti af ytra umhverfi
  • Birgjar hvattir til að taka verðstefnu sína til athugunar
  • Stjórnvöld hvött til að grípa til aðgerða til að efla samkeppni, m.a. með endurskoðun búvörulaga.

Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu sína „Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Í skýrslunni er varpað ljósi á verðþróun sl. sex ár hjá birgjum og smásölum og lýst þeim aðstæðum sem nýir og smærri smásalar standa frammi fyrir í verðsamkeppni.

Aðgangshindranir

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins bendir til þess að talsverðar aðgangshindranir séu að dagvörumarkaði. Eiga þessar hindranir ekki síst rót sína að rekja til mismunandi kjara sem dagvöruverslanir njóta hjá birgjum. Þrjár stórar verslanasamstæður, Hagar, Kaupás og Samkaup, hafa um 90% markaðshlutdeild á dagvörumarkaði. Aðrar verslanir sem ekki eru hluti af umræddum verslanasamstæðum greiða birgjum mun hærra verð fyrir vörur, eða að meðaltali 15% hærra verð en stærsta verslanasamstæðan, Hagar, greiðir birgjum. Aðrar verslanir myndu því hafa mjög litla álagningu út úr vörusölu sinni ef þær ætluðu sér að jafna það verð sem lágvöruverðsverslanir innan verslanasamstæðnanna bjóða. Í nokkrum vöruflokkum er lægsta smásöluverð lágvöruverðsverslana lægra en innkaupsverð minni verslana sem ekki eru hluti af umræddum verslanasamstæðum. 

Minni verslanir verða því að keppa á grundvelli annarra þátta en verðs til að laða til sín viðskiptavini, svo sem hagfelldu samblandi verðstefnu, þjónustu, vöruúrvals og staðsetningar. Slík fjölbreytni í framboði dagvöruverslana getur vissulega verið neytendum til góðs. Vandi þeirra liggur hins vegar í auknum styrk lágvöruverðsverslana, en hlutur þeirra af heildarveltu á dagvörumarkaði hefur hækkað úr um 20% árið 1999 í um 63% árið 2010. Aðrar verslanir sem ekki njóta sambærilegra viðskiptakjara og lágvöruverðsverslanir hjá birgjum eiga því takmarkaða möguleika á að stunda verðsamkeppni á stærstum og vaxandi hluta markaðarins.

Margt getur réttlætt mismunandi viðskiptakjör birgja gagnvart verslunum. Þannig er eðlilegt að stórar verslanakeðjur njóti magnafsláttar. Bónus kaupir til að mynda sexfalt meðalmagn verslana af algengum vörum og 75 sinnum meira magn en sú verslun sem minnst kaupir. Hagræði vegna dreifingarkerfis skiptir hér einnig máli. Þessi rök eiga hins vegar síður við í þeim tilvikum þar sem birgjar dreifa beint til verslana og annast jafnvel sjálfir uppröðun og framstillingu í hillur.

Verðþróun

Verð á dagvörum hefur hækkað um tæplega 60% í smásölu á sex ára tímabili frá ársbyrjun 2006 til ársloka 2011. Verð þessara vara hefur þróast með svipuðum hætti hjá birgjum. Samanburður á þróun dagvöruverðs, gengis og framleiðsluvísitölu fyrir mat- og drykkjarvörur bendir til að umrædd verðhækkun dagvöru skýrist fyrst og fremst af ytri aðstæðum og þá einkum gengishruni krónunnar í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Með því er ekki sagt að framangreind hækkun hafi í öllum tilvikum verið eðlileg og óhjákvæmileg, því kröftugri samkeppni á bæði birgja- og smásölustigi hefði getað leitt til meiri hagkvæmni og lægra verðs en ella.

Tillögur

Samkeppniseftirlitið telur vafasamt að viðskiptakjör birgja til smásöluverslana styðjist í öllum tilvikum við málefnaleg sjónarmið. Mun birgjum í mörgum tilvikum reynast erfitt að sýna fram á það, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu að viðskiptasamningarnir eru í mörgum tilvikum ekki skriflegir. Sérstaklega er mikilvægt að birgjar hugi að því hvort munur á verði til einstakra smásala leiði af eðlilegu magnhagræði eða samkeppnishamlandi kaupendastyrk. Óeðlileg verðlagning getur einnig falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga ef birgir er markaðsráðandi. Samkeppniseftirlitið hvetur birgja til að skoða verðstefnu sína að þessu leyti, einkum og sér í lagi gagnvart minni dagvöruverslunum. Eftirlitið getur hins vegar ekki á þessu stigi tekið afstöðu til þess hvort mikill verðmismunur milli verslana stafi í einstökum tilvikum af t.d. samkeppnishamlandi kaupendastyrk verslanasamstæðna og verslanakeðja eða eðlilegum sjónarmiðum um magnhagræði. Endanleg afstaða til slíks verður aðeins tekin í sérstöku stjórnsýslumáli þar sem mat er lagt á eðli viðkomandi viðskipta og markaðsstöðu þeirra fyrirtækja sem koma að þeim.

Ekki er síður mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að efla samkeppni. Reynslan sýnir því miður að stjórnvöld hafa undantekningarlítið horft fram hjá tilmælum samkeppnisyfirvalda um að bæta samkeppnisaðstæður á dagvörumarkaði. Þetta á ekki síst við um málefni er varða vinnslu og sölu landbúnaðarafurða. Ljóst er að yfirvöld hafa ekki dregið fullnægjandi lærdóm af þeim jákvæðu áhrifum sem reynslan sýnir að heilbrigð samkeppni getur haft á ýmis svið landbúnaðar. Í því sambandi má sérstaklega nefna að stjórnvöld fóru að tilmælum samkeppnisyfirvalda og afnámu tolla á grænmeti í kjölfar þess að ólögmætt verðsamráð í framleiðslu og dreifingu á grænmeti var afhjúpað á árinu 2001. Til að mæta því var stuðningur til innlendra framleiðenda tekinn upp á heildsölustigi á sama tíma og fallið var frá markaðstruflandi aðgangshindrunum á smásölustigi. Jákvæð áhrif þess létu ekki á sér standa; innlend framleiðsla jókst, smásöluverð lækkaði og neysla jókst. Þessar breytingar bættu þannig bæði hag innlendra grænmetisframleiðenda og neytenda.

Með hliðsjón af framangreindu telur Samkeppniseftirlitið m.a. mjög mikilvægt að búvörulög verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu og auka virka samkeppni á mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir neytendum og þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. Þurfa slíkar breytingar að fela í sér að dregið verði verulega úr innflutningshöftum á landbúnaðarafurðum og aðrar aðgangshindranir minnkaðar án þess að samkeppni verði raskað milli núverandi keppinauta. Breytingar í kjölfar slíkrar endurskoðunar þurfa m.a. að leiða til þess að innkoma nýrra keppinauta verði auðvelduð hvort heldur sem um er að ræða nýja innlenda framleiðendur (s.s. bændur, afurðastöðvar og/eða kjötvinnslufyrirtæki) annars vegar eða innflytjendur hins vegar. Slíkar aðgerðir þurfa ekki að útiloka eðlilegan stuðning við innlenda framleiðslu, sbr. fyrrgreindar úrbætur á grænmetismarkaði.

Sjá skýrslu nr. 1/2012 Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði.