29.3.2006

Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli ehf. sektuð fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína

Mynd: Merki Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf. (IGS)Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS), dótturfélag FL Group, hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína við afgreiðslu farþegaflugvéla. Fyrirtækið braut samkeppnislög þegar það gerði 10 einkakaupasamninga við flugfélög sem lenda á Keflavíkurflugvelli og með því að gera flugfélaginu LTU samkeppnishamlandi tilboð. Samkeppniseftirlitið hefur í ákvörðun sinni gert fyrirtækinu að greiða 80 milljóna króna stjórnvaldssekt til ríkissjóðs.

IGS hefur yfirburðastöðu við afgreiðslu á farþegaflugvélum í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og er félagið með yfir 95% markaðshlutdeild. Fram til ársins 2001 var fyrirtækið (áður Flugleiðir) með einkaleyfi til að afgreiða farþegaflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Á árinu 2001 hóf félagið Vallarvinir samkeppni við IGS. Í kjölfar þess lækkuðu flugafgreiðslugjöld stórlega á Keflavíkurflugvelli. Eftir sem áður hafði IGS mikla yfirburði á markaðnum enda annaðist félagið alla afgreiðslu og þjónustu fyrir systurfélagið Icelandair en þau viðskipti eru stór hluti af öllum viðskiptum sem lúta að þjónustu við farþegaflugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Það fer gegn samkeppnislögum ef markaðsráðandi fyrirtæki skuldbindur kaupanda til þess að kaupa alla þjónustu eða verulegan hluta hennar af því fyrirtæki. Til að viðhalda markaðsyfirráðum sínum gerði IGS slíka einkakaupasamninga sem giltu í 3-4 ár við tíu flugfélög sem voru í viðskiptum við félagið. Með þessu móti var samkeppni um mikilvæga viðskiptavini útilokuð og þessar athafnir IGS voru til þess fallnar að raska samkeppni með alvarlegum hætti. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að með framangreindum samningum hafi IGS misnotað markaðsráðandi stöðu sína.

Eitt af þeim flugfélögum sem gekk til viðskipta við Vallarvini á árinu 2001 var þýska félagið LTU. Það hafði áður verið í viðskiptum við IGS (Flugleiðir) sem hafði þá, eins og áður segir, einkaleyfi til að afgreiða farþegaflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Í gögnum í málinu kemur fram að LTU hafði talið sig þurfa að sæta einokunarverðlagningu af hálfu IGS (Flugleiða) og greiða um 50% hærra verð en annars staðar í Evrópu áður en Vallarvinir komu til sögunnar og hófu samkeppni.

Snemma ársins 2004 sneri IGS sér til LTU, sem var þá í samningsbundnum viðskiptum við Vallarvini. IGS gerði LTU tilboð um allmikla lækkun frá því verði sem flugfélagið greiddi Vallarvinum. Verðtilboð IGS var lægra en það sem Vallarvinir treystu sér til að bjóða og flutti LTU viðskipti sín frá Vallarvinum til IGS á miðju ferðamannatímabili árið 2004. Með því náði IGS til sín stærsta viðskiptavini Vallarvina. Eftir að hafa náð til sín viðskiptum LTU frá Vallarvinum hefur IGS gert fleiri viðskiptavinum Vallarvina tilboð til að ná til sín þeirra viðskiptum.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki hafi verið rekstrarlegar forsendur hjá IGS fyrir því verðtilboði sem félagið gerði LTU. Taprekstur var á farþegaflugafgreiðslu félagsins árið 2004. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að í tilboði  IGS til LTU falist beinskeitt og sértæk aðgerð gegn Vallarvinum sem hafi verið til þess fallin að draga úr umsvifum þess félags og þar með samkeppni á mikilvægum markaði sem áhrif hefur á stóran hluta ferðaþjónustu í landinu.

Með vísan til alls framanritaðs þykir Samkeppniseftirlitinu hæfilegt að IGS greiði 80 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna brota á 11. gr. samkeppnislaga.    

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 9/2006.