31.3.2012

Íslensk fyrirtæki eru mjög skuldsett í alþjóðlegum samanburði

Of skuldsett fyrirtæki munu ekki örva samkeppni og flýta endurreisn

Peningar_309x177Samkeppniseftirlitið hefur gefið út skýrslu nr. 3/2012, Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar?. Fjallað hefur verið um hana í fjölmiðlum í gær og í dag. Skýrslan er framhald af skýrslu eftirlitsins nr. 2/2011, Samkeppnin eftir hrun, sem gefin var út í júní 2011. Báðar byggja skýrslurnar á rannsóknum Samkeppniseftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum en þessi fyrirtæki standa undir um helmingi af veltu allra íslenskra fyrirtækja.

Á árinu 2011 komst aukin hreyfing á fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja í bankakerfinu. Endurskipulagningu fjölmargra stærri fyrirtækja er lokið og gengið hefur verið frá sölu í mörgum tilvikum. Mjög hefur dregið úr yfirráðum bankanna yfir fyrirtækjum að mati Samkeppniseftirlitsins, þótt þau séu töluverð enn.

Íslensk fyrirtæki eru mjög skuldsett í alþjóðlegum samanburði. Eftirtektarvert er að skuldir fyrirtækja þar sem  endurskipulagningu er lokið eru eftir sem áður almennt mjög miklar. Um þriðjungur stjórnenda stærri íslenskra fyrirtækja, sem hafa verið seld eða gengið í gegnum endurskipulagningu, telja að fyrirtæki þeirra geti ekki staðið undir núverandi skuldabyrði eða að óvíst sé að þau geti staðið undir henni.

Samkeppniseftirlitið telur að margvíslegar hættur stafi af mikilli skuldsetningu fyrirtækja. Mjög skuldsett fyrirtæki mun hvorki geta veitt keppinautum aðhald né starfað með skilvirkum hætti á markaði. Hætt er við að slíkt fyrirtæki ákveði verð á vöru eða þjónustu í samræmi við slæma skuldastöðu sína sé þess nokkur kostur. Hættan á þessu er þeim mun meiri eftir því sem samkeppni á þeim markaði sem fyrirtækið starfar er minni og markaðshlutdeild þess meiri.

Mikilvægt er að skuldir fyrirtækja sem eiga sér traustan rekstrargrundvöll séu lagaðar að greiðslugetu þeirra og getu til að skila hæfilegum hagnaði. Heilbrigt atvinnulíf er undirstaða sem vöxtur og viðgangur bankanna hlýtur óhjákvæmilega að helgast af. Yfirskuldsett atvinnulíf fer því hvorki saman við langtímahagsmuni bankanna né hagkerfisins.

Samkeppniseftirlitið hyggst á næstunni einkum beina sjónum að tvennu í tengslum við eftirlit með endurskipulagningu fyrirtækja; annars vegar eftirliti með arðsemismarkmiðum fyrirtækja undir yfirráðum banka og hins vegar að tryggja að raunveruleg yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu uppi á borðum.

Skilyrðum um arðsemi er einkum ætlað að draga úr hættu á að bankar fjármagni kostnaðarsama markaðssókn sem geri hinu yfirtekna fyrirtæki kleift að sölsa undir sig aukna markaðshlutdeild á viðkomandi markaði og jafnvel ryðja keppinautum fyrirtækisins úr vegi.

Hins vegar hefur Samkeppniseftirlitið að undanförnu haft til skoðunar í nokkrum málum hvort myndast hafi yfirráð banka yfir fyrirtækjum samkvæmt samkeppnislögum. Þetta er sérstaklega mikilvæg spurning um þessar mundir í ljósi mikillar skuldsetningar fyrirtækja og möguleika banka til að hafa áhrif á rekstur skuldsettra fyrirtækja í gegnum skilmála í lánasamningum og gjaldfellingarákvæði. Samkeppniseftirlitið mun halda áfram rannsóknum á þessu.