31.1.2007

Fréttatilkynning - Eftirlit með samkeppni og samkeppnisaðstæðum á matvörumarkaði

Liðsinni fyrirtækja og einstaklinga getur skipt sköpum í eftirliti Samkeppniseftirlitsins og samkeppnislegu aðhaldi á markaðnum

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um verðlag á matvörum og í því sambandi samkeppni og samkeppnisaðstæður á matvörumarkaði. Af því tilefni og í þágu eftirlits með samkeppni á matvörumarkaði telur Samkeppniseftirlitið rétt að upplýsa um þær athuganir sem nú eru í gangi og aðgerðir eftirlitsins á síðustu misserum sem varða matvörumarkaðinn. Jafnframt kallar Samkeppniseftirlitið eftir liðsinni fyrirtækja og einstaklinga við að upplýsa um samkeppnishömlur sem kunna að fela í sér brot á samkeppnislögum og veita markaðnum með því nauðsynlegt aðhald.

Athuganir í gangi
Eftirfarandi athuganir standa nú yfir af hálfu Samkeppniseftirlitsins:

  • Á miðju síðasta ári hóf Samkeppniseftirlitið athugun á tilteknum þáttum smásölumarkaðarins. Meginmarkmið þeirrar athugunar er að meta stöðu einstakra fyrirtækja á markaðnum, greina með hvaða hætti aðilar kunni að fara með markaðsráðandi stöðu á honum og kanna m.a. hvort átt hafi sér stað skaðleg undirverðlagning á tilteknum sviðum. Ennfremur hefur verið aflað upplýsinga frá smásöluverslunum um samningsskilmála smásöluverslunar við birgja. Aflað hefur verið umfangsmikilla gagna vegna þessarar athugunar og er hún vel á veg komin. Ekki liggur fyrir hvenær henni muni ljúka.
  • Nýhafin er athugun á viðskiptasamningum birgja og endurseljenda, s.s. matvöruverslana og veitingahúsa. Beinist gagnaöflun að um 70 birgjum. Meðal annars er verið að afla upplýsinga um verðþróun í heildsölu, þ.m.t. þær verðhækkanir sem átt hafa sér stað af hálfu birgja síðustu vikur.
  • Innflutningsvernd á landbúnaðarvörum er til skoðunar af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Meðal annars er til skoðunar er hvort ástæða sé til að beina áliti til landbúnaðarráðherra vegna innflutningsverndar á landbúnaðarvörum. Jafnframt er verið að fylgja eftir fyrri álitum Samkeppniseftirlitsins til landbúnaðarráðherra vegna samkeppnisaðstæðna í landbúnaði.
  • Til viðbótar framangreindu er Samkeppniseftirlitið með til meðferðar erindi og ábendingar er varða matvörumarkaðinn, einkum samkeppnisaðstæður í framleiðslu og sölu mjólkurafurða.

Aðgerðir á síðustu misserum
Samkeppniseftirlitið hefur lagt áherslu á matvörumarkaðinn í eftirliti sínu á síðustu misserum. Nefna má í því sambandi eftirfarandi:  

  • Samkeppniseftirlitið tók þátt í gerð skýrslu norrænna samkeppniseftirlita um matvörumarkaðinn, sem birt var í lok árs 2005. Skýrslan leiddi í ljós mikinn verðmun á matvörum hér á landi gagnvart flestum hinna Norðurlandanna. Samkeppniseftirlitið fylgdi framangreindri skýrslu eftir með ítarlegri kynningu, en skýrslan varð tilefni mikillar umræðu um verðlag og samkeppnisaðstæður á matvörumarkaðnum.
  • Samtímis því að Samkeppniseftirlitið kynnti niðurstöður hinnar norrænu skýrslu, kynnti það áherslur sínar á þessu sviði. Á heimasíðu eftirlitsins er að finna fréttatilkynningu um þetta, en í fylgiskjali með henni er ítarlega fjallað um samkeppnisaðstæður hér á landi (sjá www.samkeppni.is, undir skýrslur, ræður og kynningar).
  • Framangreindri umfjöllun var fylgt eftir með fjölmörgum fundum með þátttakendum og hagsmunaaðilum á matvörumarkaðnum. Upplýsingar sem þar komu fram voru síðan nýttar til þess að móta nánari áherslur Samkeppniseftirlitsins.
  • Í desember 2005 beindi Samkeppniseftirlitið áliti til landbúnaðarráðherra þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að opinber styrkveiting til mjólkurframleiðenda í formi beingreiðslna mismuni nautakjötsframleiðendum, en sú styrkveiting nýtist þeim nautakjötsframleiðendum sem jafnframt stunda mjólkurframleiðslu. Styrkveitingin fari því gegn markmiði samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið beindi þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að jafna samkeppnisstöðuna. Álitið, nr. 1/2005, er birt á heimasíðu eftirlitsins.
  • Í október 2006 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Osta og smjörsalan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart Mjólku ehf. þegar hún seldi fyrirtækinu mjólkurduft á öðru og hærra verði en öðru fyrirtæki í ostaframleiðslu. Þessi ákvörðun var staðfest af áfrýjunarnefnd samkeppnismála í desember sl. Sjá nánar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 39/2006 og úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 8/2006.
  • Í tengslum við þetta mál beindi Samkeppniseftirlitið áliti til landbúnaðarráðherra þar sem mælst var til þess að hann beitti sér fyrir breytingum á ákvæðum búvörulaga sem hindra samkeppni og mismuna fyrirtækjum í mjólkuriðnaði. Sérstaklega var fjallað um skaðleg áhrif ákvæða búvörulaga sem heimila afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að hafa með sér samráð og sameinast í trássi við samkeppnislög. Jafnframt var því beint til ráðherra að hann beitti sér fyrir því að fella niður tolla á mjólkurdufti í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði. Sjá nánar álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2006.

Fyrirtæki og einstaklingar geta liðsinnt Samkeppniseftirlitinu
Samkeppniseftirlitið hvetur fyrirtæki og einstaklinga sem starfa við framleiðslu, dreifingu eða sölu á matvörum til þess að senda Samkeppniseftirlitinu ábendingar um hugsanleg brot á samkeppnislögum.

Samkeppnislög banna hvers konar samkeppnishamlandi samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Brot á samkeppnislögum geta verið framin í leynd og valdið almenningi og atvinnulífinu miklu tjóni. Það er því mjög brýnt fyrir Samkeppniseftirlitið að fá upplýsingar um það þegar fyrirtæki hafa með sér ólögmætt samráð um t.d. verð eða skipta með sér mörkuðum. Einnig er mikilvægt að upplýsa Samkeppniseftirlitið þegar markaðsráðandi fyrirtæki misnota stöðu sína, t.d. með því að knýja fram óeðlileg viðskiptakjör eða mismuna viðskiptavinum.

Ábendingar fyrirtækja eða einstaklinga um hugsanleg samkeppnislagabrot geta ráðið úrslitum um það hvernig til tekst í eftirliti með matvörumarkaðnum. Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins www.samkeppni.is, er hægt að koma á framfæri ábendingum um þetta. Boðið er upp á að slíkar ábendingar séu sendar nafnlaust. Ennfremur er þar að finna upplýsingar um það hvernig brotleg fyrirtæki geta fengið sektir vegna samráðsbrota felldar niður eða lækkaðar, með því að upplýsa um brot og vinna með Samkeppniseftirlitinu að rannsókn máls.

Á heimasíðu eftirlitsins er að finna nánari upplýsingar um það hvers konar háttsemi geti talist brot á samkeppnislögum. Rétt er að taka fram að Samkeppniseftirlitið annast ekki verðlagseftirlit eða verðkannanir.