6.12.2012

Hæstiréttur staðfestir að Síminn hafi brotið af sér og hækkar álagða sekt

FarsímiÍ lok árs 2009 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði gerst brotlegur við skilyrði sem samkeppnisráð setti honum í ákvörðun frá árinu 2005 og þannig raskað með alvarlegum hætti samkeppni frá minni keppinautum. Mál þetta á rætur að rekja til kæru sem fyrirtækið TSC sendi Samkeppniseftirlitinu. TSC er lítið fjarskiptafyrirtæki sem starfar á norðanverðu Snæfellsnesi. TSC byggði á því að Síminn hefði beitt fyrirtækið ólögmætum viðskiptahindrunum og hindrað samkeppni, m.a. með hindrunum á aðgangi að flutningskerfi Símans vegna dreifingar á sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins (Skjár 1). Eftir rannsókn málsins taldi Samkeppniseftirlitið sannað að Síminn hefði brotið gegn tveimur skilyrðum sem sett voru í umræddri ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005, Samruni Landssíma Íslands hf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., og þannig hindrað TSC að taka þátt í samkeppni á Snæfellsnesi. Lagði Samkeppniseftirlitið 150 m.kr. á Símann vegna þessa.

Síminn kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem lauk málinu í mars 2010. Staðfesti áfrýjunarnefnd þá niðurstöðu að Síminn hefði brotið umrædd skilyrði og að um alvarleg brot hefði væri að ræða. Vegna m.a. versnandi fjárhagsafkomu Símans var sektin hins vegar lækkuð í 50 m.kr. Síminn skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla.

Í janúar sl. staðfesti héraðsdómur Reykjavíkur að Síminn hafi brotið gegn því skilyrði sem fól í sér bann við að tvinna saman fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þessi hegðun Símans hafi verið til þess fallin að „veikja samkeppnisstöðu smárra fjarskiptafyrirtækja, sem byggðu afkomu sína á rekstri staðbundinna dreifikerfa, eins og TSC ehf. Skapaðist við það hætta á því að þau hyrfu af markaði …“ Héraðsdómur féllst hins vegar ekki á þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Síminn hefði brotið skilyrði sem lagði á hann skyldu að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að dreifikerfi fyrirtækisins fyrir sjónvarp og útvarp. Taldi dómurinn að ekki væri nægjanlega skýrt að það skilyrði tæki til fyrirtækja eins og TSC. Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu Símans að fella niður stjórnvaldssektina og benti á skaðleg áhrif af háttsemi Símans markaðnum fyrir nettengingar og Internetþjónustu á Snæfellsnesi. Þar sem dómurinn taldi brotið ekki eins umfangsmikið og áfrýjunarnefnd lækkaði hann sektina í 30 m.kr.

Bæði Samkeppniseftirlitið og Síminn áfrýjuðu dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Með dómi sínum í dag staðfesti Hæstiréttur framangreinda niðurstöðu Héraðsdóms um brot Símans. Hins vegar taldi Hæstiréttur rétt, með hliðsjón af eðli brots Símans, að sekt fyrirtækisins yrði hækkuð. Var því felld úr gildi niðurstaða héraðsdóms um lækkun sektar og skal Síminn því greiða 50 m.kr. í sekt, í stað 30.

Bakgrunnsupplýsingar

Í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005 var lagt bann við því að Síminn tvinnaði saman sölu á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu. Var þetta liður í því að tryggja að keppinautar Símans í Internetþjónustu gætu á jafnréttisgrundvelli boðið viðskiptavinum sínum upp á eftirsóknarvert sjónvarpsefni því ella gæti það leitt til alvarlegra samkeppnishamlna fyrir minni keppinauta. Síminn braut gegn þessu banni með því að láta sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins, flutning þess og dreifingu fylgja frítt með í verði ADSL tenginga Símans vegna Internetþjónustu og raskaði þar með samkeppni.

Fyrirtæki sem fallast á skilyrði til að vinna gegn samkeppnishamlandi samruna verða að leitast við að markmið skilyrðanna nái fram að ganga. Felst í því alvarlegt brot af hálfu Símans að ganga gegn heiti sínu um að beita ekki aðgerðum eins og þeim sem mál þetta tekur til.