8.3.2013

Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við samruna WOW Air og Iceland Express

  • Mynd af flugvél WOW air ehf. - Mynd WOW.isMiklir yfirburðir Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi
  • Talsverðar opinberar aðgangshindranir að flugmarkaðnum

Í ákvörðun sem Samkeppniseftirlitið birtir í dag er fjallað um samruna WOW Air ehf. og Iceland Express ehf. Nánar tiltekið er um að ræða yfirtöku WOW Air á rekstri Iceland Express en sameinað félag er nú rekið undir merkjum WOW Air. Samruni félaganna varð í október 2012 og fengu þau undanþágu frá samkeppnislögum til að láta hann koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallaði um hann.

WOW Air hóf starfsemi sumarið 2012 og hefur frá þeim tíma veitt öðrum flugfélögum samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Fram til þess tíma sem samruninn átti sér stað kepptu WOW Air og Iceland Express á sjö áætlunarleiðum til og frá Íslandi (m.a. í flugi til Kaupmannahafnar og London). Flugfélögin buðu einnig upp á flug til annarra áfangastaða í samkeppni við Icelandair og erlend flugfélög eins og t.d. SAS og Air Berlin. Við mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans var því nauðsynlegt að taka til skoðunar áætlunarflug í heild sinni milli Íslands og áfangastaða annars staðar í Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Var m.a. aflað upplýsinga til að meta stærð og markaðshlutdeild á öllum leiðum í áætlunarflugi til og frá Keflavík fyrir árin 2010, 2011 og hluta ársins 2012.

Athugun Samkeppniseftirlitsins leiðir í ljós mikla yfirburði Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Skiptir þar mestu máli mjög há markaðshlutdeild félagsins og jafnvel einokun á nokkrum af helstu áætlunarleiðum til og frá landinu. Leiðarkerfi Icelandair sem felur í sér tengiflug milli áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku veitir félaginu einnig mikið markaðsforskot. Í því sambandi hefur áhrif að flugmálayfirvöld hér á landi hafa veitt Icelandair forgang að mikilvægustu afgreiðslutímum í Keflavíkurflugvelli. Þessi forgangur skapar Icelandair sterka stöðu og gerir nýjum aðilum t.a.m. mjög erfitt um vik að hefja tengiflug til Norður-Ameríku.

Athugun Samkeppniseftirlitsins á flugmarkaðnum leiðir til þeirrar niðurstöðu að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna samruna WOW Air og Iceland Express. Telur eftirlitið að með samrunanum sé ekki að verða til markaðsráðandi staða sameinaðs fyrirtækis, styrking á slíkri stöðu eða að samkeppni raskist verulega. Á þetta við jafnvel þó talsverð samþjöppun verði vegna samrunans á einstökum áætlunarleiðum, t.d. í flugi milli Keflavíkur og Berlínar. Í þessu sambandi skipta yfirburðarstaða Icelandair og önnur atriði sem rakin eru í ákvörðun þessari miklu máli.