5.6.2013

Sterk staða 365 miðla ehf. á dagblaðamarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun nr. 16/2013, Erindi útgefanda Viðskiptablaðsins, Mylluseturs ehf., um ætlaða misnotkun 365 miðla ehf. á markaðsráðandi stöðu. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að talsverðar líkur séu á því að 365 miðlar ehf., útgefandi Fréttablaðsins, séu markaðsráðandi á markaði fyrir auglýsingar í dagblöðum á Íslandi. Hins vegar er komist að þeirri niðurstöðu að erindi kvartanda og þau gögn sem aflað hefur verið vegna athugunar málsins veiti ekki þær vísbendingar um misnotkun á markaðsráðandi stöðu að tilefni sé til frekari rannsóknar.

Í ákvörðuninni er fjallað um erindi Mylluseturs ehf., útgefanda Viðskiptablaðsins, til Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað er undan ætlaðri misnotkun 365 miðla á markaðsráðandi stöðu. Var því haldið fram að 365 miðlar hafi misnotað meinta markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins á markaði fyrir útgáfu dagblaða og á markaði fyrir auglýsingar í dagblöðum með samningi við Icelandair um kostun á enska boltanum á Stöð 2 Sport 2 og önnur viðskiptakjör vegna kaupa á auglýsingum.

Í kjölfar kvörtunar Mylluseturs og annarra ábendinga sem Samkeppniseftirlitinu hafa borist vegna samkeppnislegrar stöðu á fjölmiðlamarkaði ákvað eftirlitið að hefja könnun á tilteknum þáttum á umræddum samkeppnismarkaði. Samkeppniseftirlitið aflaði meðal annars samninga sem lúta að auglýsingum o.þ.h. frá nokkrum af stærstu viðskiptavinum 365 miðla, ýmissa upplýsinga frá 365 miðlum og upplýsinga um tekjur helstu fjölmiðla á Íslandi.

Í ákvörðuninni er eins áður segir komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að aðhafast frekar í tilefni af erindi Mylluseturs.