14.2.2008

Fréttatilkynning - Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu viðurkenna brot á samkeppnislögum og fallast á að greiða stjórnvaldssekt

Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa viðurkennt að hafa haft um það samvinnu hvernig fyrirtæki innan vébanda samtakanna stóðu að  verðbreytingum á forverðmerktum matvælum, í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti úr 14% í 7% og afnám vörugjalda sem gildi tók þann 1. mars. 2007. Viðurkenna bæði samtökin að á vettvangi þeirra hafi verið ákveðið hvernig standa skyldi að verðbreytingu í tengslum við þessa lækkun skatta, vegna vara sem verðmerktar eru hjá framleiðendum um leið og þeim er pakkað. Í því sambandi hafi verið ákveðið hvernig tilteknu tekjutapi yrði skipt á milli viðkomandi félagsmanna samtakanna. Hafa SI og SVÞ viðurkennt að hafa farið gegn samkeppnislögum að þessu leyti. Samtökin hafa hins vegar tekið fram að ásetningur hafi ekki staðið til þess að hindra samkeppni, einungis að skila verðlækkunum til neytenda.

Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á framangreindum aðgerðum SI og SVÞ í framhaldi af frétt sem birtist í fjölmiðlum þann 21. febrúar 2007, en þar kom fram hvernig aðilar innan SI og SVÞ myndu sameiginlega bregðast við umræddri skattalækkun.  Birti Samkeppniseftirlitið samtökunum andmælaskjal í nóvember 2007, þar sem komist var að þeirri frumniðurstöðu að þau hefðu brotið gegn samkeppnislögum.

SI leituðu til Samkeppniseftirlitsins í kjölfar þessa og óskuðu eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við samtökin 16. janúar 2008. Í sáttinni felst að SI fallast á að hafa brotið gegn 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, og fallast á að greiða 2,5 milljónir kr. í stjórnvaldssekt vegna brotsins. SVÞ skiluðu athugasemdum við andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins þann 17. desember sl. Þann 28. janúar óskuðu samtökin hins vegar eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við SVÞ 4. febrúar 2008. Í sáttinni felst að SVÞ fallast á að hafa brotið gegn 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og fallast á að greiða 1 milljón kr. í stjórnvaldssekt vegna þessa brots.

SI og SVÞ eru samtök fyrirtækja og 12. gr. samkeppnislaga bannar slíkum samtökum fyrirtækja allt samkeppnishamlandi samráð. Í banni 10. gr. samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði felst að fyrirtæki ákveði sjálfstætt hvernig þau hegði sér á markaði og hvernig þau verðleggi vörur sínar og þjónustu. Mega samtök fyrirtækja með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna. Er í þessu máli mikilvægt að líta til þess að vegna hagsmuna almennings af verðsamkeppni banna samkeppnislög allt samráð um verð alveg án tillits til þess hvort samráðið miðar að verðhækkun eða verðlækkun. Samráð um verðlækkun getur t.d. haft þau skaðlegu áhrif að lækkunin verði minni en ella.

Með þeim aðgerðum sem SI og SVÞ stóðu fyrir var tryggt að nær allir birgjar (framleiðendur) osta og kjötvara og smásalar þessarar vöru myndu lækka framangreindar vörur hlutfallslega jafn mikið á sama tíma. Frumkvæði þessara aðila, þ.e. fyrirtækjanna, til að ákveða sjálf hvernig þau myndu bregðast við umræddum breytingum var því tekið af þeim og um leið dregið úr samkeppnislegu sjálfstæði þeirra. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að aðgerðir SI og SVÞ hafi haft þau áhrif að það samkeppnislega tækifæri sem skapaðist fyrir aðila á markaðnum, s.s. til að veita hver öðrum verðsamkeppni í kjölfar umræddra breytinga á virðisaukaskatti, hafi í raun verið að engu gert. Breytingarnar í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti hefðu getað leitt til enn meiri verðlækkunar og harðari samkeppni um verð á viðkomandi matvörum, ef ekki hefði komið til umræddra aðgerða SI og SVÞ.

Við mat á fjárhæð sekta var m.a. horft til þess að brotin voru framin á stuttu tímabili. Jafnframt var horft til þess að SI og SVÞ óskuðu eftir sáttarviðræðum og hafa undanbragðslaust játað brot á samkeppnislögum. Með þessum aðgerðum sínum hafa samtökin auðveldað og stytt rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif. Litið er einnig til þess að bæði samtökin hafa í málinu upplýst að þau muni setja sér reglur sem tryggi að samstarf félagsmanna innan þessara samtaka verði ávallt samþýðanlegt samkeppnislögum. Hafa samtökin og fallist á að hlíta fyrirmælum sem eru til þess fallin að efla samkeppni. Hafa SI og SVÞ fallist á að tryggja að innan samtakanna verði ekki fjallað um eða miðlað upplýsingum um verð, verðþróun, viðskiptakjör og önnur viðkvæm viðskiptaleg eða samkeppnisleg málefni með þeim hætti sem dregið getur úr viðskiptalegu sjálfstæði félagsmanna og raskað samkeppni.

SI er sérstaklega umbunað fyrir að stíga fyrst fram og játa þátttöku sína í broti á samkeppnislögum. Er almennt séð mikilvægt að fyrirtæki eða samtök sem hafa frumkvæði að því að játa slík brot eða upplýsa um þau njóti sérstakrar lækkunar á sektum. Ber í þessu máli að hafa í huga að velta SI er mun meiri en velta SVÞ. Er það ástæða þess að sekt SI er hærri en sekt SVÞ.

Ákvörðun nr. 10/2008.