27.9.2013

Er týndi áratugurinn framundan?

Öflug samkeppni læknar stöðnun

Mynd af forsíðu skýrslu SE nr. 3/2013 Er týndi áratugurinn framundan?Í tengslum við alþjóðlegu ráðstefnuna "The Future Ain‘t What it Used to Be“ – 20 Years of Competition Law and the Challenges Ahead" hefur Samkeppniseftirlitið í dag gefið út skýrslu nr. 3/2013, Er týndi áratugurinn framundan? – Öflug samkeppni læknar stöðnun. Skýrslan er framhald af skýrslu Samkeppniseftirlitsins  nr. 3/2012, Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar? og  skýrslu nr. 2/2011, Samkeppnin eftir hrun. Allar skýrslurnar byggja á rannsóknum Samkeppniseftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum en þessi fyrirtæki standa undir tæpum helmingi af veltu allra íslenskra fyrirtækja.

Útflutningsgeirinn fleytir rjómann en innlendi þjónustugeirinn er í kröggum

Arðsemi íslenskra fyrirtækja er almennt lág þegar tekið er tillit til hversu hátt vaxtastig er á Íslandi. Þannig er arðsemi fjármagns um þriðjungs stórra fyrirtækja undir stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Að óbreyttu mun eigið fé þessara fyrirtækja minnka og hætta er á að þau muni þurfa á frekari fjárhagslegri endurskipulagningu að halda í framtíðinni. Þá bendir þessi niðurstaða til að efnahagsreikningar íslenskra fyrirtækja hafi ekki aðlagast nægilega vel að breyttum aðstæðum í hagkerfinu eftir hrunið.

Arðsemin er hins vegar mjög misjöfn eftir geirum. Útflutningsgreinar standa mun betur en fyrirtæki sem afla tekna sinna eingöngu á innlendum markaði (hér eftir kallaður innlendi þjónustugeirinn). Arðsemi fjármagns í útflutningsdrifnum fyrirtækjum mælist 12,2% árið 2012 en einungis 4,6% í fyrirtækjum í innlenda þjónustugeiranum. Þess má geta að stýrivextir Seðlabankans eru nú 6%.

Þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eru almennt í mun verri stöðu en hin sem ekki þurftu á slíkri endurskipulagningu að halda. Fyrirtæki koma því almennt skuldsett út úr fjárhagslegri endurskipulagningu enda byggir endurskipulagning á væntingum um aukinn hagvöxt og bætta afkomu.

Fyrstu umferð fjárhagslegrar endurskipulagningar stærri fyrirtækja að ljúka 

SpilaborgLangflest stærri fyrirtæki hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Skuldir þeirra hafa minnkað verulega vegna niðurfærslna, uppgreiðslna og gengislánadóma. Þrátt fyrir þetta er fjárhagsstaða margra þessara fyrirtækja slæm. Þannig metur Samkeppniseftirlitið það svo að rúmlega 40% stærri fyrirtækja sem farið hafa í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu séu með neikvætt virði hlutafjár. Þessi fyrirtæki er einkum að finna í innlenda þjónustugeiranum.

Hlutur lífeyrissjóða vex en dregur úr beinni eign banka í fyrirtækjum

Hlutur lífeyrissjóða í stærri fyrirtækjum hefur vaxið hröðum skrefum frá hruni og er nú um 14% samanborið við 2% árið 2007. Beint eignarhald banka og skilanefnda hefur hins vegar farið úr samtals 29% árið 2011 niður í 14% árið 2013. Þrátt fyrir þetta hafa bankar enn tögl og hagldir í stórum hluta innlenda þjónustugeirans vegna þess hversu skuldsettur þessi geiri er.

Fyrirsjáanlegt er að hlutur lífeyrissjóða í eignarhaldi fyrirtækja eigi eftir að vaxa enn frekar á næstu árum, þó ekki væri nema vegna þess að lífeyrissjóðir þurfa að fjárfesta og í hagkerfinu eru gjaldeyrishöft. Samkeppniseftirlitið hefur áhyggjur af ógagnsæju eignarhaldi lífeyrissjóða, banka og einstaklinga í gegnum sjóði, sér í lagi sameiginlegu eignarhaldi fagfjárfesta í tveimur eða fleiri keppinautum á sama markaði.

Nauðsyn að opna markaði og efla samkeppni

Samkeppniseftirlitið telur að sú staða sem atvinnulífið er í, þ.e. lítil arðsemi og framleiðni, kalli á sérstaka árvekni. Sú hætta er fyrir hendi að þetta ástand leiði til meiri aðgangshindrana fyrir nýja aðila, innlenda sem erlenda, undir því yfirskyni að vernda þurfi  þau félög sem nú eru starfandi hér á landi. Slík stefna leiðir til minni samkeppni sem aftur leiðir til minni framleiðni og lakari lífskjara.

Stöðnun ríkir í atvinnulífinu sem m.a. má rekja til mikillar skuldsetningar fyrirtækja. Þessi staða minnir á þá stöðnun sem ríkti í Japan eftir kreppuna 1990 og nefnd hefur verið „týndi áratugurinn“.