1.11.2013

Úthlutun á afgreiðslutímum flugfélaga á Keflavíkurflugvelli raskar samkeppni í áætlunarflugi

Samkeppniseftirlitið grípur til íhlutunar gagnvart Isavia ohf.

isavia

Samkeppniseftirlitið hefur í ákvörðun nr. 25/2013 sem birt er í dag beint þeim fyrirmælum til Isavia, sem ber ábyrgð á rekstri Keflavíkurflugvallar, að tryggja keppinauti í flugi til og frá Íslandi aðgang að samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutímum fyrir flugvélar á flugvellinum. Núverandi fyrirkomulag úthlutunar á afgreiðslutímum hefur leitt til þess að Icelandair, langstærsti keppinauturinn, hefur í raun haft forgang að nær öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum. Á þetta einnig við um úthlutun á nýjum afgreiðslutímum vegna breytinga sem leitt hafa til fjölgunar afgreiðslutíma á flugvellinum. Úthlutunarfyrirkomulag Isavia hefur því takmarkað mjög möguleika annarra flugfélaga til þess að keppa við Icelandair og þannig skaðað samkeppni á mikilvægu sviði sem er farþegaflug til og frá landinu. 

Tildrög málsins eru þau að WOW Air kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli sem flugfélagið telur samkeppnishamlandi. Með afgreiðslutíma (e. slot) er átt við tíma sem flugfélög fá úthlutað á flugvöllum til að lenda og hleypa farþegum frá borði, fá nauðsynlega flugafgreiðslu og taka farþega um borð og fara aftur á loft. 

Telur WOW Air að úthlutunin á afgreiðslutíma komi í veg fyrir að það geti keppt við Icelandair með því að setja upp leiðarkerfi eða tengiflug á milli Evrópu og Bandaríkjanna þar sem Keflavíkurflugvöllur er miðstöð tengiflugsins. Í málinu hefur WOW Air haldið því fram að forsenda þess að geta sett upp slíkt leiðarkerfi í samkeppni við Icelandair sé sú að fá úthlutað afgreiðslutímum á álagstímum, þ.e. á morgnana (helst á milli kl. 7:00 og 8:00) og síðdegis (helst á milli kl. 16:00 og 17:30). 

Fyrirkomulag Isavia við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli er þannig að flugvöllurinn er það sem kallað er flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma. Það felur m.a. í sér að flugfélög sem fá úthlutað afgreiðslutíma og fljúga samkvæmt áætlun í a.m.k. 80% tilvika innan áætlunartímabilsins halda úthlutuðum tímum einnig á næsta tímabili. Á þessum grunni hefur langflestum afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli á álagstímum verið úthlutað til Icelandair. 

Er ljóst að Icelandair hefur ekki aðeins notið framangreinds forgangs við úthlutun á fyrirliggjandi afgreiðslutímum. Athugunin Samkeppniseftirlitsins leiðir í ljós að félagið hefur einnig notið forgangs við úthlutun á nýjum afgreiðslutímum á álagstímum sem komu til úthlutunar sl. sumar þegar afkastageta Keflavíkurflugvallar var aukin og nýtt flugstæði á flugvellinum tekið í notkun. Við þá úthlutun var ekki höfð hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum sem þó er eitt af þeim atriðum sem ber að líta til við úthlutun afgreiðslutíma. 

Icelandair nýtur mikilla yfirburða í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Skiptir þar mestu máli mjög há markaðshlutdeild félagsins og jafnvel einokun á nokkrum af helstu áætlunarleiðum til og frá landinu. Leiðarkerfi Icelandair sem felur í sér tengiflug milli áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku veitir félaginu einnig mikið markaðsforskot, m.a. vegna svokallaðra tengifarþega. Athugun Samkeppniseftirlitsins sýnir að afgreiðslutímar á umræddum álagstímum eru mikilvægir til að byggja upp slíkt leiðarkerfi, en með því næst hámarksnýting á flugvélum, þ.e. tvær ferðir frá Íslandi innan sama sólarhringsins. Að mati eftirlitsins er það mikilvæg forsenda fyrir samkeppni í áætlunarflugi til og frá Íslandi að aðrir keppinautar hafi möguleika á því að byggja upp leiðakerfi í flugi á milli áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku með Keflavíkurflugvöll sem tengistöð fyrir farþega. 

Það er því niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að núverandi fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hafi skaðleg áhrif á samkeppni og hindri innkomu nýrra aðila inn á markaði fyrir áætlunarflug frá Íslandi. Er núverandi fyrirkomulag þannig til þess fallið að valda flugfarþegum tjóni. 

Fyrir liggur að afkastageta Keflavíkurflugvallar mun aftur verða aukin næsta sumar þegar nýtt flugstæði verður tekið í notkun. Ljóst er þó að eftirspurn eftir afgreiðslutímum á flugvellinum á álagstímum frá bæði Icelandair og WOW Air fyrir næsta sumar er mun meiri en framboðið á álagstímunum. Að mati Samkeppniseftirlitsins er því nauðsynlegt í máli þessu að grípa til ráðstafana til að tryggja það að WOW Air fái úthlutað afgreiðslutímum á umræddum álagstímum. Er óviðunandi í samkeppnislegu tilliti að aðferðafræði við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vinni gegn því að nýr keppinautur geti komið sér upp leiðarkerfi og veitt Icelandair raunhæfa samkeppni til frambúðar. 

Vegna framangreinds beinir Samkeppniseftirlitið m.a. eftirfarandi fyrirmælum til Isavia: 

  • Við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumaráætlun 2014 skal WOW Air njóta forgangs þannig að félagið geti með samkeppnishæfum hætti hafið flug síðdegis samkvæmt áætluninni á milli Keflavíkur og Bandaríkja Norður-Ameríku og um leið tengt þessi flug við morgunflug félagsins til áfangastaða í Evrópu.
  • Forgangurinn skal fela í sér að WOW Air ehf. fái afgreiðslutíma fyrir a.m.k. tvær brottfarir að morgni alla daga vikunnar á milli kl. 7:00 og 8:00 sem geta þjónað flugi til áfangastaða í Evrópu og tvær brottfarir síðdegis á milli kl. 16:00 og 17:30 sem geta þjónað flugi til áfangastaða í Banda¬ríkjum Norður-Ameríku. 
  • -Isavia skal útbúa leiðbeiningar fyrir óháðan úthlutunaraðila þar sem fram kemur með skýrum hætti að hann skuli hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi við úthlutun afgreiðslutíma. Skulu leiðbeiningarnar m.a. fela það í sér að ef tvær eða fleiri umsóknir berast um sömu afgreiðslutíma á tiltekinni áætlunarflugleið skuli umsókn þess félags þar sem hlutdeild miðað við fjölda farþega er lægri almennt njóta forgangs. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, nr.