7.11.2014

Samkeppniseftirlitið leggur 50 m.kr. sekt á Já hf. fyrir brot á samkeppnislögum

Fyrirmælum beint til Já um að veita keppinautum aðgang gagnagrunni sínum á málefnalegum kjörum

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að Já hf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir rekstur og heildsöluaðgang að gagnagrunni yfir símanúmer. Þetta gerði félagið með háttsemi sem beindist gegn mögulegum keppinautum félagsins á smásölumörkuðum fyrir upplýsingaþjónustu sem byggir á aðgangi að umræddum gagnagrunni.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins grundvallast einkum á kvörtunum frá Miðlun hf. og Loftmyndum ehf., en þessir aðilar töldu að verðlagning Já fyrir aðgang að gagnagrunni þess væri óhófleg og til þess fallin að útiloka samkeppni. Einnig hafði Samkeppniseftirlitinu borist erindi frá Póst- og fjarskiptastofnun vegna samkeppnishamla sem leiddu af umræddum viðskiptakjörum Já.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Já hafi verið í markaðsráðandi stöðu á skilgreindum mörkuðum málsins. Er það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að aðgangur að gagnagrunni Já sé ómissandi fyrir þá aðila sem vilja bjóða upplýsingaþjónustu um símanúmer í samkeppni við Já. Gagnagrunnur Já á rót sína að rekja til þess tíma sem einkaréttur ríkti í fjarskiptum hér á landi. Var hann áður undir yfirráðum Símans og forvera hans.

Að mati Samkeppniseftirlitsins hefur verðlagning Já fyrir aðgang að gagnagrunninum verið óhófleg og til þess fallin að útiloka samkeppni. Með verðlagningunni hafi Já í raun synjað mögulegum keppinautum um aðgang að ómissandi aðstöðu félagsins og þannig viðhaldið eða styrkt markaðsráðandi stöðu sína. Fyrir liggur að þeir sem hugðust nýta gagnagrunnin með þeim hætti að leitt gæti til samkeppni við Já, var gert að greiða mun hærra verð en þeim sem engin samkeppnisleg ógn stóð af. Já bauð slíkum aðilum verð sem var tugum milljóna króna lægra á ársgrundvelli fyrir aðgang að sömu upplýsingum. Háttsemi Já að þessu leyti er hvorki málefnaleg né sanngjörn og ekki í samræmi við þær kröfur sem hvíla samkvæmt samkeppnislögum á fyrirtæki í yfirburðastöðu.

Vegna þessara brota er Já gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 50 milljónir króna í ríkissjóð.

Í ákvörðunarorðum beinir Samkeppniseftirlitið tilteknum fyrirmælum til Já sem fela í sér skyldu til að gæta jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis gagnvart þeim aðilum sem óska eftir aðgangi að upplýsingum í gagnagrunni félagsins. Fela fyrirmælin m.a. í sér eftirfarandi:

  • Upplýsingastarfsemi Já annars vegar og keppinautar félagsins hins vegar hafi jafnan aðgang að upplýsingum í gagnagrunni félagsins með sama verði og skilmálum, gæðum og þjónustustigi. 

  • Aðgangur að gagnagrunninum og tenging mögulegra keppinauta Já í upplýsingamiðlun verði með sama hætti og smásala Já í upplýsingamiðlun hefur.

Er þessum fyrirmælum til Já ætlað að efla samkeppni og fjölga valkostum neytenda í upplýsingaþjónustu.

Sjá ákvörðun 31/2014
Sjá úrskurð áfrýjunarnefndar 09/2015