30.1.2015

Vegna umfjöllunar í Morgunblaðinu

Vegna umfjöllunar í Morgunblaðinu um miðlun trúnaðarupplýsinga um efni kæru Samkeppniseftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara um ætluð brot tiltekinna starfsmanna tveggja skipafélaga, vill eftirlitið taka fram eftirfarandi:

Í frétt frá Samkeppniseftirlitinu frá 17. október sl., sem nálgast má á heimasíðu eftirlitsins, kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi þann sama dag beint erindi til ríkissaksóknara þar sem farið var fram á opinbera rannsókn á því hvaðan og hvernig trúnaðarupplýsingum um efni kæru Samkeppniseftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara hafi verið miðlað til óviðkomandi aðila. Í fréttinni á heimasíðunni kemur jafnframt fram að gripið hafi verið til aðgerða innan Samkeppniseftirlitsins til þess að ganga úr skugga um hvort upplýsingarnar hafi borist þaðan og jafnframt til þess að auðvelda rannsókn málsins. Hafi ríkissaksóknara verið greint frá því.

Eins og fram kom í fyrrgreindri frétt lítur Samkeppniseftirlitið framangreinda miðlun trúnaðarupplýsinga alvarlegum augum. Af þeim sökum beindi Samkeppniseftirlitið málinu til meðferðar hjá opinberum rannsóknaraðilum, eins og að framan greinir. Samkeppniseftirlitið getur eðli máls samkvæmt ekki upplýst um stöðu þeirrar rannsóknar, að öðru leyti en því að enginn þeirra sem nú starfar hjá Samkeppniseftirlitinu er með réttarstöðu grunaðs manns vegna þeirrar rannsóknar.

Óhjákvæmilegt er að vísa á bug órökstuddri umfjöllun í Morgunblaðinu um að meint miðlun trúnaðarupplýsinga vegna framangreindrar rannsóknar tengist dómi Hæstaréttar frá í haust vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2011 um misnotkun Vífilfells á markaðsráðandi stöðu. Í fréttaskýringu Morgunblaðsins kemur jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hafi í framhaldi af dómi Hæstaréttar í haust ráðist aftur í húsleit hjá Vífilfelli til að ná sínu fram þrátt fyrir dóminn. Hið rétta er að Samkeppniseftirlitið hefur aldrei framkvæmt húsleit hjá Vífilfelli vegna umræddrar rannsóknar.

Í fréttaskýringunni er einnig að finna órökstudda umfjöllun um að rannsókn á skipafélögunum og meint miðlun trúnaðarupplýsinga vegna þeirrar rannsóknar tengist umræðu um hugsanlegar sameiningar eftirlitsstofnana. Sú umfjöllun á ekki við rök að styðjast.

Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á skipafélögunum er rétt að árétta það sem fram kom í frétt eftirlitsins frá 15. október sl. að rannsókn málsins, sem hófst með húsleit í september 2013, er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar. Öll umfjöllun um hugsanlega sekt fyrirtækjanna eða starfsmanna þeirra er því ótímabær.