8.5.2015

Arion banki hefur skuldbundið sig til að setja AFL-sparisjóð í söluferli og gert sátt við Samkeppniseftirlitið

Með ákvörðun nr. 9/2015 sem birt er í dag er tekin afstaða til yfirráða Arion banka hf. yfir AFLi-sparisjóði ses. Ákvörðunin grundvallast á sátt sem Samkeppniseftirlitið og Arion banki hafa gert með sér á grundvelli samkeppnislaga. Sáttin var gerð í framhaldi af því að Arion banki hafði öðlast full yfirráð yfir sparisjóðnum með breytingum á samþykktum sjóðsins, sem takmarkað höfðu atkvæðavægi bankans. Af því tilefni hafði Arion banki lýst því yfir að hann hyggðist selja hlut sinn í sjóðnum í opnu söluferli.

Í samræmi við þetta hefur Arion banki nú skuldbundið sig til að fara að eftirfarandi skilyrðum:

  • -AFL-sparisjóður verði seldur í skilgreindu ferli innan fyrir 1. ágúst 2015, Arion banki hefur þegar auglýst sparisjóðinn til sölu í samræmi við framangreinda sátt, sbr. auglýsingu í Viðskiptablaðinu, dags. 22. apríl sl. Þar er fjárfestum sem vilja taka þátt í útboðinu gefinn frestur til að skila upplýsingum.
  • -AFL-sparisjóður starfar í óbreyttu horfi á sölutímabilinu og Arion banka er óheimilt að grípa til nokkurra ráðstafana sem raskað geta samkeppnislegu sjálfstæði AFLs.
  • -Óháðir kunnáttumenn skulu fylgjast með söluferlinu og framfylgd bankans við skilyrði sem sett hafa verið fyrir yfirráðum bankans á sparisjóðnum.

Skili sölutilraunir Arion banka ekki árangri innan sölufrestsins, er Arion banka heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, með það að markmiði að sameina sparisjóðinn bankanum.

Áhugasömum er bent á að hafa hið fyrsta samband við Arion banka. Unnt er að beina athugasemdum vegna ferlisins til Arion banka eða Samkeppniseftirlitsins á netfangið samkeppni@samkeppni.is.

Í ákvörðun nr. 9/2015 er nánar fjallað um tildrög málsins og skyldur Arion banka samkvæmt framangreindum skilyrðum.