14.2.2009

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um afskipti Samkeppniseftirlitsins af málefnum Teymis og Tals

tal_teymi_vodafoneÍ Morgunblaðinu í dag er grein eftir Árna Pétur Jónsson, forstjóra Teymis, þar sem varpað er fram spurningum um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins í máli því sem nú er til meðferðar hjá eftirlitinu gagnvart Teymi hf. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við stjórnsýsluframkvæmd eftirlitsins við afgreiðslu á samruna IP fjarskipta (Hive) og Ódýra símafélagsins, sem eftir sameiningu starfar undir merkjum Tals. Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið taka eftirfarandi fram:

Í greininni er því haldið fram að Samkeppniseftirlitið hafi óskað eftir því að fundir vegna hins upphaflega samrunamáls væru „non-meetings“ eða fundir sem formlega hefðu aldrei verið haldnir.  Rétt er að Samkeppniseftirlitið átti fundi með samrunaaðilum í tengslum við tilkynningu þeirra á framangreindum samruna. Sneri forstjóri Teymis sér upphaflega til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir trúnaðarfundi. Engin ósk var um það af hálfu Samkeppniseftirlitsins að fundir með samrunaaðilum væru „non-meetings“. Þvert á móti voru þeir liður í athugun eftirlitsins.

Einnig kemur fram í greininni að forstjóri Teymis hafi verið beðinn um að taka til baka bréf frá félaginu til Samkeppniseftirlitsins og að stofnunin liti svo á að bréfið hefði aldrei borist. Hið rétta er að snemma í ferlinu lýsti Samkeppniseftirlitið því sjónarmiði sínu að samruninn kynni að hamla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Í framangreindu bréfi Teymis var því hafnað að Samkeppniseftirlitið hefði forsendur til íhlutunar og óskað eftir frekari rökstuðningi stofnunarinnar fyrir slíkri íhlutun. Á fundi með Teymi voru sjónarmið eftirlitsins rökstudd nánar. Fór svo að Teymi féllst á að hlýta skilyrðum sem tryggja áttu samkeppnislegt sjálfstæði Tals. Undirrituðu samrunaaðilar sátt í málinu, sem lá til grundvallar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008. Með því að fallast á að hlýta skilyrðum féllust samrunaaðilar eðli málsins samkvæmt einnig á sjónarmið Samkeppniseftirlitsins um samkeppnishamlandi áhrif samrunans. Þar af leiðandi dró Teymi til baka fyrri andmæli sín. Rétt er að taka fram að umrætt bréf Teymis er hluti af gögnum málsins.

Þá er í greininni varpað fram spurningum um það hvort eðlilegt sé að fyrrverandi starfsmaður Símans, sem nú sé starfsmaður Samkeppniseftirlitsins, stýri húsleit hjá Teymi, hvort eðlilegt sé að tveir fyrrverandi framkvæmdastjórar Símans séu tilnefndir í stjórn Tals, hvort eðlilegt sé að Samkeppniseftirlitið vísi eingöngu fulltrúum meirihlutaeiganda úr stjórn Tals en skipti ekki út öllum stjórnarmönnum, og krefjist þess að farið sé á svig við hlutafélagalög og samþykktir Tals við boðun funda.

Rétt er að einn starfsmaður Samkeppniseftirlitsins er fyrrverandi starfsmaður Símans og svo er einnig um annan þeirra stjórnarmanna sem eftirlitið tilnefndi í stjórn Tals. Hvorugur þeirra hefur nein hagsmunatengsl við það fyrirtæki sem þeir störfuðu hjá fyrir nokkrum árum síðan. Mikilsvert er að aðilar með yfirgripsmikla þekkingu á fjarskiptamarkaði komi að úrlausn þessa máls.

Afskipti Samkeppniseftirlitsins af máli þessu grundvallast á því að eftirlitið hefur ástæðu til að ætla að aðkoma Teymis að stjórnun og rekstri Tals dragi úr samkeppnislegu sjálfstæði Tals gagnvart Vodafone, sem einnig er í eigu Teymis. Til þess að skapa Tali samkeppnislegt sjálfstæði á meðan á rannsókn málsins stendur mælti Samkeppniseftirlitið fyrir um að stjórnarformaður og fjármálastjóri Teymis vikju úr stjórn Tals og óháðir stjórnarmenn yrðu kosnir í þeirra stað. Samkeppniseftirlitið taldi breytingarnar brýnar og mæltist því til þess að hluthafar félagsins féllu frá boðunarfresti hluthafafundar, eins og heimilt er samkvæmt hlutafélagalögum.