3.11.2016

Landspítali grípur til aðgerða til að bæta innkaupahætti

Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2016, Innkaup Landspítala á heilbrigðisvörum – mikilvægi samkeppni við opinber innkaup. Í ákvörðuninni er gerð grein fyrir athugun Samkeppniseftirlitsins á innkaupum Landspítala á lækningatækjum og öðrum heilbrigðisvörum og vísbendingum um samkeppnishamlandi háttsemi spítalans í tengslum við þau. Tilefni athugunarinnar var kvörtun Logalands ehf., en fyrirtækið er þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði sem selur heilbrigðisvörur, m.a. lækningatæki, hjúkrunarvörur og hjúkrunartæki.

Í ákvörðun þeirri sem nú er birt, er gerð grein fyrir mikilvægum breytingum á verklagi Landspítalans við innkaup. Eru þær til þess fallnar að efla til frambúðar samkeppni á markaði fyrir viðskipti með heilbrigðisvörur á Íslandi, almenningi, Landspítala og keppinautum á markaðnum til hagsbóta. Ryðja aðgerðirnar úr vegi samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið kom auga á við meðferð málsins. Í viðauka við ákvörðunina er birt formleg yfirlýsing Landspítalans um þessar aðgerðir

Framangreindar aðgerðir voru mótaðar í viðræðum Samkeppniseftirlitsins og Landspítalans. Samkeppniseftirlitið gerði m.a. athugasemdir við framkvæmd innkaupa á vörum sem falla utan útboðsskyldu, innkaup fyrir gjafafé, notkun huglægra útboðsskilmála, framkvæmd rammasamninga og samskipti spítalans við birgja. Lagði Samkeppniseftirlitið jafnframt til tilteknar lausnir sem unnt væri að ráðast í til að bæta innkaupin og þar með samkeppni á viðkomandi mörkuðum.

Við rannsókn málsins tók Samkeppniseftirlitið afstöðu til þess hvort forsendur væru til þess að beita Landspítalann bindandi íhlutun vegna málsins. Er það niðurstaða eftirlitsins að í ljósi aðstæðna í málinu séu hvorki forsendur til þess að beita bannreglum samkeppnislaga né ákvæðum samkeppnislaga sem heimila aðgerðir vegna háttsemi opinberra aðila sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Byggir sú niðurstaða m.a. á sjónarmiðum um gildissvið samkeppnislaga, skörun á hlutverki eftirlitsins og kærunefndar útboðsmála og þeim aðgerðum sem Landspítali hefur gripið til.

Aðgerðir Landsspítalans til að efla samkeppni í viðskiptum með heilbrigðisvörur eru eftirfarandi:

 1. Samkeppnisréttaráætlun
  • Landspítali mun tryggja að allir stjórnendur og starfsmenn sem hafa innkaupaheimildir séu að fullu upplýstir um þær kröfur sem sem samkeppnisreglur gera til starfsemi Landspítala í innkaupum á heilbrigðisvörum. 
 1. Samskipti við birgja, meðferð trúnaðarupplýsinga og jafnræði 
  • Landspítali mun með nauðsynlegum aðgerðum tryggja að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar muni ekki berast á milli keppinauta að tilstuðlan spítalans.
 1.  Verklag við innkaup sem falla undir viðmiðunarmörk útboðsreglna
  • Landspítali mun beita verðfyrirspurnum með reglulegum hætti vegna slíkra innkaupa. Leitast skal við að senda verðfyrirspurnir til allra þekktra birgja sem bjóða viðkomandi vöru og/eða að þær verði birtar í opinni gátt á vef spítalans.
 1. Innkaup fyrir gjafafé
  • Við innkaup á heilbrigðisvörum, tækjum og búnaði fyrir gjafafé skal eftir fremsta megni reynt að fylgja sambærilegum ferlum og við önnur innkaup með það að markmiði að sem hagstæðast verð og best gæði fáist, þ.e. að ná sem hagkvæmustum innkaupum. Þannig skal almennt beita verðfyrirspurnum í innkaupum á slíkum vörum.
 2. Reglur um huglæga útboðsskilmála og vörumerkjatryggð
  • Frá því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst hefur Landspítali gert lýsingar í útboðsgrunnum mun nákvæmari og ítarlegri að því er varðar framkvæmd við mat á huglægum útboðsskilmálum í tengslum við innkaup spítalans. Landspítali hyggst halda áfram vinnu við að bæta framsetningu og framkvæmd huglægra útboðsskilmála, m.a. með því að birta tilbúin dæmi á vefsvæði innkaupadeildar spítalans.
 3. Gæðahandbók
  • Landspítali mun innleiða nýjar innkaupareglur, m.a. um framangreind atriði, og draga þær saman í sérstaka Gæðahandbók innkaupa hjá Landspítala.  
 4. Tímaáætlun, eftirlit og endurskoðun
  • Stefnt er að því að þær aðgerðir sem fjallað er um í yfirlýsingunni verði framkvæmdar innan 9-12 mánaða. Landspítali mun koma á samstarfshópi sem m.a. fulltrúi frá Ríkisendurskoðun mun sitja í til að fylgja breytingunum eftir. Að tveimur árum liðnum mun samstarfshópurinn meta framkvæmd aðgerðanna og áhrif þeirra á innkaup spítalans. Samstarfshópurinn skal gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir niðurstöðum þeirrar vinnu.

Yfirlýsingunni eru gerð nánari skil í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Landspítali er einn stærsti kaupandi á vörum og þjónustu sem er í eigu almennings. Að mati Samkeppniseftirlitsins er gríðarlega mikilvægt að hugað sé að samkeppni við framkvæmd opinberra útboða. Með vel útfærðum útboðum sem tryggja virka samkeppni er unnt að ná fram töluverðum sparnaði og hagræðingu í rekstri hins opinbera. Í tengslum við mál þetta hefur Landspítali ráðist í endurbætur á innkaupaháttum sínum með þetta að leiðarljósi.“