18.12.2009

Fréttatilkynning - Samkeppniseftirlitið leggur 150 milljóna króna sekt á Símann

Sekt lögð á Símann vegna samkeppnisbrota gagnvart keppinauti

Siminn_logoSamkeppniseftirlitið hefur í ákvörðun sinni í dag komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi gerst brotlegur við skilyrði sem eftirlitið setti honum í fyrri ákvörðun og þannig raskað með alvarlegum hætti samkeppni frá minni keppinautum. Leggur Samkeppniseftirlitið 150 m.kr. sekt á Símann.

Samkeppniseftirlitinu barst kæra frá TSC ehf. þar sem því var haldið fram að Síminn hefði brotið gegn skilyrðum sem sett voru í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005 Samruni Landssíma Íslands hf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. TSC er fjarskiptafyrirtæki sem starfar á norðanverðu Snæfellsnesi og er keppinautur Símans.

Umrædd ákvörðun samkeppnisráðs fjallaði um samruna Símans og Íslenska sjónvarpsfélagsins (nú undir heitinu Skjárinn miðlar ehf.). Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að samruninn raskaði samkeppni og að þörf væri á íhlutun vegna hans. Var bent á að óbreyttu styrki samruninn markaðsráðandi stöðu Símans á þeim fjarskiptamörkuðum er málið varðar og að hætta væri á því að samruninn takmarkaði verulega möguleika keppinauta Símans til þess að veita samkeppni, t.d. ef Síminn hefði óeðlilegan forgang að dreifingu sjónvarpefnis frá Íslenska sjónvarpsfélaginu. Síminn óskaði eftir því að gerð yrði sátt í málinu og varð það niðurstaðan. Samrunaðilar féllust á að fara eftir tilteknum skilyrðum til þess að eyða þeim samkeppnishömlum sem ella hefðu stafað af samrunanum.

Í ákvörðun nr. 10/2005 var lagt bann við því að Síminn tvinnaði saman sölu á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu. Var þetta liður í því að tryggja að keppinautar Símans í Internetþjónustu gætu á jafnréttisgrundvelli boðið viðskiptavinum sínum upp á eftirsóknarvert sjónvarpsefni því ella gæti það leitt til alvarlegra samkeppnishamlna fyrir minni keppinauta. Síminn braut gegn þessu banni með því að láta sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins, flutning þess og dreifingu fylgja frítt með í verði ADSL tenginga Símans vegna Internetþjónustu og raskaði þar með samkeppni.

Síminn braut einnig gegn umræddri ákvörðun með því að beita TSC aðgangshindrunum að flutningskerfi fyrirtækisins vegna dreifingu á sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins. Með þessum hætti var samkeppnisstöðu TSC raskað með alvarlegum hætti. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er lýst þeirri þrautagöngu sem TSC mátti þola vegna þessarar háttsemi Símans.

Fyrirtæki sem fallast á skilyrði til að vinna gegn samkeppnishamlandi samruna verða að leitast við að markmið skilyrðanna nái fram að ganga. Felst í því alvarlegt brot af hálfu Símans að ganga gegn heiti sínu um að beita ekki aðgerðum eins og þeim sem mál þetta tekur til.

Sjá nánar ákvörðun nr. 41/2009.