12.6.2017

Aðgerðir til að efla samkeppni á viðskiptabankamarkaði - Sátt við Landsbankann

Landsbankinn gerir sátt við Samkeppniseftirlitið um aðgerðir sem stuðla að virkari samkeppni til hagsbóta fyrir heimili og lítil fyrirtæki

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 22/2017, sem birt er í dag, er gerð grein fyrir sátt sem eftirlitið hefur gert við Landsbankann um aðgerðir til þess að efla samkeppni í viðskiptabankaþjónustu. Þær aðgerðir sem kveðið er á um í sáttinni miða einkum að því að: 

  1. Draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um viðskiptabanka.

  2. Stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi af hálfu einstaklinga og lítilla fyrirtækja með þeim sem veita viðskiptabankaþjónustu á Íslandi.

  3. Vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á markaði/mörkuðum fyrir viðskiptabankaþjónustu. 

Í framhaldi af ákvörðun nr. 8/2015, dags. 30. apríl 2015 , sem varðaði breytingar á greiðslukortamarkaði, hóf Samkeppniseftirlitið viðræður við viðskiptabankana þrjá um frekari aðgerðir til að efla samkeppni á fjármálamarkaði. Miðuðu viðræðurnar m.a. að því að ljúka athugunum sem eftirlitið hefur haft til meðferðar.  

Sú sátt sem hér er kynnt felur jafnframt í sér innlegg í stefnumörkun sem stjórnvöld og bankarnir standa nú frammi fyrir á fjármálamarkaði í tengslum við breytingar á eignarhaldi bankanna og öra þróun í fjármálaþjónustu á alþjóðavettvangi. 

Landsbankinn var fyrstur bankanna til að ljúka framangreindum viðræðum við Samkeppniseftirlitið. Viðræður við Arion banka og Íslandsbanka eru á lokastigi. 

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Það er mikilvægt að fólk og fyrirtæki gæti þess að leita ætíð bestu kjara og skilmála miðað við sínar þarfir. Með því er veitendum fjármálaþjónustu skapað aukið aðhald sem skilar sér í virkari samkeppni þeirra á milli. Þau skilyrði sem fram koma í sáttinni við Landsbankann eiga m.a. að leiða til þess að auðveldara verði fyrir viðskiptavini að veita slíkt aðhald.“


Skuldbindingar samkvæmt sáttinni: 

Með sáttinni skuldbindur Landsbankinn sig nánar tiltekið til að fylgja eftirfarandi skilyrðum í starfsemi sinni:

  • Uppgreiðslugjöld verða ekki lögð á umframgreiðslur skuldara inn á nein ný og útistandandi lán einstaklinga og lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti, óháð því undir hvaða lögum viðkomandi lán voru upphaflega veitt. 

  • Hámörk eru innleidd á þóknanir við flutning bundins séreignalífeyrissparnaðar frá bankanum til annarra aðila sem bjóða upp á stýringu séreignalífeyrissparnaðar. Er þetta einkum til þess fallið að draga úr bindandi áhrifum slíkra gjalda á hreyfanleika viðskiptavina og stuðla þannig að virkara samkeppnisaðhaldi á þessu sviði. 

  • Yfirtaka á íbúðaláni í fasteignaviðskiptum verður ekki háð því að kaupandinn færi bankaviðskipti sín til bankans. Með bankaviðskiptum er hér átt við launareikning og e.a. samtímis önnur viðskipti.

  • Viðskiptavinum verður auðveldað að færa bankaviðskipti sín milli banka. Val, þróun og innleiðing kerfa og tæknilegra úrlausna mun miða að þessu og þjónustukannanir nýttar til að bera kennsl á áherslur viðskiptavina í tengslum við þetta og mun bankinn bregðast við þeim. 

  • Viðskiptavinir verða upplýstir sérstaklega um verulegar breytingar á vöxtum og verðskrá áður en þær eiga sér stað, til að gefa viðskiptavinum svigrúm til þess að færa viðskipti sín ef þeir svo kjósa. 

  • Bankinn mun búa svo um hnútana að allar upplýsingar um almennar þóknanir, kjör og skilmála, sem eru opinberlega birtar á vefsíðu bankans, verði aðgengilegar gegnum opið API viðmót (upplýsingatæknigátt fyrir sérsniðnar forritunarlausnir)  sem þriðju aðilar (einstaklingar, fyrirtæki eða félagasamtök) gætu sótt og nýtt til að setja upp samanburðarvefsíðu sem virkjað gæti skilvirkara neytendaaðhald.[1] Getur þetta jafnframt falið í sér ákveðin viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki sem áhuga hafa á að hasla sér völl á sviði fjármálatækni (e. FinTech) hérlendis. 

  • Tiltekin heimildarákvæði í skilmálum íbúðalána sem fela í sér verulega bindingu að mati Samkeppniseftirlitsins, og upphaflega urðu tilefni rannsóknar af hálfu Samkeppniseftirlitsins, verða ekki virkjuð af bankanum.  

Til viðbótar við framangreind skilyrði kveða nýsett lög um fasteignalán neytenda (nr.118/2016) á um að bönkum sé óheimilt að ákveða lántökugjöld sem hlutfall af lánsfjárhæð, líkt og tíðkast hefur. Við meðferð frumvarpsins sem varð að umræddum lögum beitti Samkeppniseftirlitið sér fyrir því að lagt yrði bann við þessu, sbr. umsögn eftirlitsins til efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 7. janúar 2016. Varð löggjafinn við þeim óskum. Á meðan viðræður Samkeppniseftirlitsins við Landsbankann stóðu yfir og áður en áðurnefnd lög tóku gildi hafði bankinn hins vegar þegar ákveðið að verða við þessum tilmælum eftirlitsins og komið þessari breytingu í farveg innan bankans.

 


[1] API stendur fyrir application programming interface. Það gæti útlagst á íslensku sem upplýsingatæknigátt fyrir sérsniðnar hugbúnarlausnir.