18.7.2017

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Haga og Lyfju

Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum Haga hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og skaðleg samþjöppun hefði orðið á þeim mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Samruninn hefði leitt til þess að á þeim markaði hefði horfið samkeppni sem nú er á milli Haga og Lyfju. Breytingarnar hefðu verið til þess fallnar að skaða samkeppni, almenningi og atvinnulífi til tjóns. Því var óhjákvæmilegt að ógilda samrunann.

Framangreind ákvörðun er tekin í kjölfar ítarlegrar rannsóknar sem tók m.a. til eftirfarandi atriða:

 • Staða á mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á:
  Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að fyrirtækin eru nánir keppinautar í smásölu á hreinlætis- og snyrtivörum, markaði fyrir vítamín, bætiefni og steinefni og markaði fyrir mat- og drykkjarvörur í flokki heilsuvara.

  Velta á þessum mörkuðum er samtals um 20 milljarðar króna á ári. Fyrirtækin eru bæði öflugir keppinautar á framangreindum mörkuðum og hefði sameinað fyrirtæki haft verulega markaðshlutdeild. Við samrunann hefði samkeppni milli fyrirtækjanna horfið og á sumum landssvæðum utan höfuðborgarsvæðisins hefði hið sameinaða fyrirtæki verið eini smásalinn á umræddum vörum.

  Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að hið sameinaða fyrirtæki hefði haft umtalsverða samkeppnislega yfirburði umfram aðra keppinauta, m.a. vegna efnahagslegs styrkleika og sterkrar stöðu í innflutningi og dreifingu á tilteknum sviðum, sem erfitt hefði verið að keppa við. Telur Samkeppniseftirlitið að samruninn hefði raskað samkeppni á þessum mörkuðum umtalsvert. Með ógildingu samrunans er komið í veg fyrir að neytendur verði fyrir tjóni sem ella hefði leitt af honum, t.d. í formi hærra verðs, skertrar þjónustu eða minna vöruúrvals.

 • Markaðsráðandi staða Haga á dagvörumarkaði:
  Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beindist jafnframt að því hvort staða Haga á dagvörumarkaði hefði breyst á undanförnum árum, en samkeppnisyfirvöld og dómstólar höfðu í eldri málum komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið væri í markaðsráðandi stöðu. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru Hagar enn í markaðsráðandi stöðu. Í því sambandi var meðal annars litið til mikillar markaðshlutdeildar fyrirtækisins, en sjónarmið viðskiptavina og keppinauta, sem aflað var, gefa einnig til kynna að staða fyrirtækisins sé sterk.
  Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiðir ennfremur í ljós að samruninn hefði styrkt markaðsráðandi stöðu Haga. Sú styrking hefði fyrst og fremst birst í auknum innkaupastyrk hins sameinaða félags, samþættingu verslana, staðsetningu verslana og möguleikum á auknu vöruframboði í verslunum Lyfju. Hvert þessara atriða hefði verið til þess fallið að styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði með beinum eða óbeinum hætti og raska þar með samkeppni.
 • Áhrif Costco:
  Í samrunamálum ber Samkeppniseftirlitinu lögum samkvæmt að taka ákvörðun innan tiltekins tímafrests. Skammt er síðan Costco hóf starfsemi hér á landi. Í málinu var, eins og unnt var, rannsakað hvaða áhrif starfsemi Costco hefði á þá markaði sem málið varðaði. Aflað var tölulegra upplýsinga og sjónarmiða frá Costco og öðrum smásölum og birgjum á viðkomandi mörkuðum, niðurstöður ýmissa greiningaraðila skoðaðar, aflað upplýsinga um reynslu af opnun Costco annars staðar og aflað gagna um reynslu annarra erlendra smásölufyrirtækja sem hafa hafið starfsemi hér á landi. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var síðan stillt upp mismunandi sviðsmyndum um möguleg áhrif Costco til lengri tíma litið.

  Það er niðurstaða þessarar rannsóknar að opnun og tilvist Costco á íslenskum markaði hafi takmörkuð áhrif á þá markaði sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, þ.e. einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.

  Fyrirliggjandi upplýsingar gefa til kynna að opnun verslunar Costco hafi haft jákvæð áhrif á samkeppni á dagvörumarkaði. Á þessu stigi eru hins vegar ekki forsendur til þess að ætla að starfsemi Costco hafi dregið verulega úr sterkri stöðu Haga á markaðnum. Niðurstaða þessa máls verður því ekki reist á þeirri forsendu að Hagar séu ekki lengur í markaðsráðandi stöðu eða að sú breyting verði á næstunni. Í þessu sambandi er Samkeppniseftirlitið sammála Högum og öðrum markaðsaðilum sem hafa lýst því yfir að of snemmt sé að segja til um hvaða áhrif Costco muni hafa hér á landi til lengri tíma litið.

  Full ástæða er hins vegar til að fylgjast náið með þróun markaðarins á næstu misserum.
 • Fríhöfnin og netverslun:
  Samkeppniseftirlitið tók einnig til rannsóknar hvort verslun í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli og á netinu teldist hluti af mörkuðum málsins. Vegna þessa aflaði eftirlitið gagna um sölu á þessum vettvangi, veltu, tíðni og dreifingu sölunnar, auk þess sem úrlausnir erlendra samkeppnisyfirvalda voru teknar til skoðunar. Þá lét Samkeppniseftirlitið framkvæma sérstaka neytendakönnun til að varpa ljósi á kauphegðun og sjónarmið neytenda.

  Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa eindregið til kynna að verslun í Fríhöfninni og netverslun sé ekki ekki hluti af markaði málsins, þótt hún veiti innlendri verslun ákveðið samkeppnislegt aðhald.
 • Skilyrði:
  Undir rekstri málsins settu Hagar fram tillögur að skilyrðum sem fyrirtækið taldi til þess fallin að koma í veg fyrir samkeppnisröskun af samrunanum. Þessar tillögur voru teknar til sérstakrar skoðunar og aflað sjónarmiða frá hagsmunaaðilum. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að tillögurnar væru ekki fullnægjandi til þess að eyða þeim skaðlegu áhrifum sem samruninn hefði ella á samkeppni. Hagar voru ekki reiðubúnir að leggja fram frekari tillögur um skilyrði.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Almenningur á Íslandi á að njóta lægra verðs og betri þjónustu á mikilvægum neytendamörkuðum, á grundvelli virkrar samkeppni. Samrunareglum samkeppnislaga er m.a. ætlað að tryggja þetta. Rannsókn okkar sýnir að þessi samruni hefði verið skref í öfuga átt.˝

Í ákvörðun nr. 28/2017, sem aðgengileg er á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins www.samkeppni.is, er gerð ítarleg grein fyrir forsendum ákvörðunarinnar, undirliggjandi rannsóknum og meðferð málsins að öðru leyti.

Fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu þann 31. janúar sl. Rannsókn málsins hófst í framhaldi af því og var umfangsmikil eins og ákvörðunin ber með sér.