26.9.2017

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Alvogen á tilteknum samheitalyfjum Teva á Íslandi

Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar kaup Alvogen Iceland ehf. á tilteknum samheitalyfjum fyrirtækisins Teva Pharmaceuticals Europe B.V. á Íslandi. Bæði félögin eru lyfjafyrirtæki sem hafa markaðssett lyf sín á Íslandi og voru keppinautar á sviði framleiðslu og innflutnings á samheitalyfjum.  

Upphaf þessa máls má rekja til samruna lyfjafyrirtækjanna Teva og Allergan Generics (Actavis). Framkvæmdastjórn ESB setti samruna þessara félaga skilyrði í ákvörðun stofnunarinnar frá 10. mars 2016. Skilyrðin fólu m.a. í sér að sameinuðu félagi var gert að selja frá sér samheitalyf Teva á Íslandi til þess að tryggja samkeppni á íslenska samheitalyfjamarkaðnum. Í kjölfar þess að skilyrðin voru sett hefur Samkeppniseftirlitið verið í samstarfi við evrópsk samkeppnisyfirvöld um framkvæmd söluskilyrðanna hvað varðar Ísland. 

Alvogen og Teva komust að samkomulagi um kaup Alvogen á þeim samheitalyfjum sem Teva hafði markaðssett á Íslandi. Taldi Samkeppniseftirlitið að þessi viðskipti fælu í sér samruna í skilningi samkeppnislaga og kallaði því eftir tilkynningu vegna hans. Það var mat Samkeppnieftirlitsins, eftir að hafa ráðfært sig við innlend lyfjayfirvöld og hagsmunaaðila, að samruninn kæmi ekki til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni á milli keppinauta sem starfa á sama sölustigi (lárétt áhrif). Það var aftur á móti mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn kynni að hafa skaðleg áhrif á samkeppni á markaðnum fyrir heildsölu á samheitalyfjum (lóðrétt áhrif). Á þeim markaði starfar Alvogen í samkeppni við Lyfis ehf. sem hefur verið dreifingaraðili Teva lyfjanna á Íslandi undanfarin ár. Við samrunann mun Lyfis, sem hefur verið mikilvægur keppinautur, missa dreifingarsamning sinn við Teva og þar með veikjast sem keppinautur

Taldi Samkeppniseftirlitið mikilvægt að bregðast við mögulegri skerðingu á samkeppni sem myndi leiða af samrunanum. Viðræður Samkeppniseftirlitsins við Alvogen leiddu til sáttar þar sem Alvogen fellst á að hlíta tilteknum skilyrðum. Skilyrðin fela í sér að Lyfis er veittur lengri umþóttunartími til þess að bregðast við missi Teva lyfjanna. Nánar er hægt að kynna sér niðurstöðu málsins í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 32/2017, Kaup Alvogen Iceland ehf. á samheitalyfjum Teva á Íslandi.