7.5.2010

Samkeppniseftirlitið hefur sett yfirtöku Eignarhaldsfélagsins Vestia ehf, dótturfélags NBI hf., á Húsasmiðjunni ehf. ítarleg skilyrði

HusaLogoEkkertmalSamkeppniseftirlitið hefur sett yfirtöku Eignarhaldsfélagsins Vestia, dótturfélags NBI hf. (Landsbankans), á Húsasmiðjunni ehf. ítarleg skilyrði, sem miða að því að draga úr samkeppnisröskun sem stafað getur af eignarhaldi bankans á fyrirtækinu. Hafa Vestia og Landsbankinn fallist á að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðuninni, með undirritun sáttar. Við vinnslu málsins hefur einnig verið höfð hliðsjón af kvörtunum og ábendingum sem Samkeppniseftirlitinu hafa borist.

Helstu skilyrði eru eftirfarandi:

  • Selja skal Húsasmiðjuna innan tiltekins tíma. Um sölufrestinn ríkir trúnaður, enda geta slíkir tímafrestir, ef opinberir væru, haft óeðlileg áhrif á söluferli og söluverð.
  • Tryggja skal að Húsasmiðjan starfi sem sjálfstæður keppinautur á markaði. Þannig er eignarhaldið á Húsasmiðjunni í höndum eignarhaldsfélags sem staðsett skal utan bankans, auk þess sem sett eru skilyrði um stjórnarsetu í annars vegar eignarhaldsfélaginu og hins vegar Húsasmiðjunni.
  • Setja skal Húsasmiðjunni eðlilegar arðsemiskröfur. Þetta er mikilvægt til þess að vinna gegn því að bankinn sjái sér hag í því að auka virði Húsasmiðjunnar með því að fjármagna undirboð eða auka markaðssókn og stækka þar með markaðshlutdeild hennar. Þessum skilyrðum er einnig ætlað að takmarka hættu á að stjórnendur og starfsmenn hins yfirtekna fyrirtækis líti á eignarhald bankans sem vernd gegn hvers konar áföllum (e. moral hazard).
  • Bankanum er óheimilt að hlutast til um viðskipti milli Húsasmiðjunnar og annarra fyrirtækja sem bankinn á hluti í. Þannig er spornað gegn því að Húsasmiðjan og önnur fyrirtæki tengd bankanum beini viðskiptum sínum hvert til annars, án þess að eðlilegar forsendur um viðskiptakjör liggi til grundvallar.
  • Bankanum er óheimilt að hlutast til um viðskipti milli Húsasmiðjunnar og viðskiptavina bankans.  Jafnframt skal tryggja að sömu aðilar á vegum bankans séu ekki viðskiptastjórar annars vegar  Húsasmiðjunnar og hins vegar viðskiptavina eða keppinauta hennar.  Þá skal tryggja að viðkvæmar upplýsingar berist ekki á milli þessara fyrirtækja.
  • Birta skal ársuppgjör og hálfsársuppgjör Húsasmiðjunnar opinberlega samkvæmt nánari fyrirmælum ákvörðunarinnar. Jafnframt skal birta margvíslegar upplýsingar um starfsemi eignarhaldsfélaga og Húsasmiðjunnar, auk upplýsinga um framkvæmd skilyrðanna.
  • Tryggja skal ítarlegt og viðvarandi eftirlit innan bankanna, til viðbótar við eftirlit Samkeppniseftirlitsins.

Brot á framangreindum skilyrðum geta varðað sektum, samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum í fleiri málum, sbr. m.a. fréttatilkynningu 31. mars 2010.

Sjá nánar ákvörðun nr. 10/2010.