30.8.2019

Samkeppniseftirlitið hefur ekki forsendur til að aðhafast vegna samruna Haga hf. og Reykjavíkur Apóteks ehf

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2019, sem birt er í dag, er gerð grein fyrir rannsókn eftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samruna Haga hf. og Reykjavíkur Apóteks ehf. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til íhlutunar af hálfu eftirlitsins vegna samrunans. Meginstarfsemi Reykjavíkur Apóteks felst í rekstri samnefndrar lyfjaverslunar í vesturbæ Reykjavíkur.

Ljóst er að meginstarfsemi samrunaaðila fer ekki fram á sama markaði enda störfuðu Hagar ekki á lyfsölumarkaði fyrir samrunann. Þá liggur fyrir að hlutdeild og markaðsstyrkur Reykjavíkur Apóteks er takmarkaður í samanburði við stærri aðila á lyfjamarkaði, enda rekur Reykjavíkur Apótek aðeins eina lyfjaverslun. Hlutdeild apóteksins í sölu á þeim vörum þar sem starfsemi fyrirtækjanna skarast einkum, þ.e. sala á snyrti- og hreinlætisvörum, er auk þess hverfandi. Þá voru ekki til staðar önnur atriði sem réttlætt gátu íhlutun vegna samrunans.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til að gera athugasemdir við kaup Haga á Reykjavíkur Apóteki. Nánari umfjöllun og rökstuðning vegna málsins má finna í ákvörðun eftirlitsins nr. 29/2019.