22.7.2020

Skipulag og gjaldtaka Isavia ohf. á fjar- og nærstæðum fyrir fólksflutninga við Keflavíkurflugvöll

Tilmælum beint til Isavia um skipulag og gjaldtöku af hópferðafyrirtækjum á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll

Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun þar sem þeim tilmælum er beint til Isavia ohf. („Isavia“) um skipulag og gjaldtöku af hópferðafyrirtækjum á bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tilmælin eru sett fram vegna rannsóknar á gjaldtöku Isavia á rútustæðum við flugstöðina, sk. nærstæðum sem eru fyrir skipulagðan áætlunarakstur og sk. fjarstæðum sem eru fyrir hópferðafyrirtæki sem sinna öðrum akstri, s.s. með hópa en einnig að einhverju leyti akstri samkvæmt skipulagðri áætlun.

Rannsóknin er tilkomin einkum vegna kvartana Allrahanda GL frá því í janúar 2018 og 2019. Í júlí 2018 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun til bráðabirgða þar sem gjaldtaka Isavia á fjarstæðum sem tók gildi í mars sama ár var stöðvuð þar sem sennilegt var talið að hún fæli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brot á 11. gr. samkeppnislaga. Í þessu sambandi skipti það máli að Isavia nýtur einstakra yfirburða sem opinber rekstraraðili og nánast eini skipuleggjandi allrar aðstöðu fyrir fyrirtæki sem starfa á Keflavíkurflugvelli og innan flugstöðvarinnar. Taldi eftirlitið sennilegt að gjaldtakan fæli í sér of hátt verð eða okur auk þess sem hún mismunaði fólksflutningafyrirtækjum í sams konar viðskiptum og var hún því stöðvuð. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti ákvörðunina í október 2018.

Rannsókn málsins var haldið áfram en það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins nú að ekki séu forsendur til að grípa til frekari bindandi íhlutunar vegna hennar, en beina þess í stað tilmælum til Isavia um að koma traustari umgjörð um skipulag og gjaldtöku á bílastæðum fyrir fólksflutninga til og frá flugvellinum.

  • Að núverandi fyrirkomulag nær- og fjarstæða verði tekið til endurskoðunar innan sex mánaða og að aðferðafræði samkeppnismats verði beitt við þá skoðun.
  • Að næsta útboð á fólksflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli verði þannig útfært að það tryggi hagkvæmni í fólksflutningum og stuðli ekki að hækkun fargjalda.
  • Að mótaðar kostnaðarforsendur liggi til grundvallar gjaldtöku vegna þeirrar aðstöðu sem Isavia býður fólksflutningafyrirtækjum.
  • Að við skipulagningu fólksflutninga sé hugað að samspili mismunandi valkosta til þess að tryggja samkeppnislegt aðhald.

Við úrlausn mála á þessu sviði horfir Samkeppniseftirlitið m.a. til þeirra erfiðleika sem stafa af COVID-19. Hrun hefur orðið í ferðaþjónustu, sem m.a. hefur endurspeglast í því að flug til og frá landinu lagðist af að nær öllu leyti um nokkurra vikna skeið. Fyrirsjáanlegt er að langan tíma mun taka að byggja upp trausta ferðaþjónustu að nýju. Þar mun skipta sköpum hvernig staðið verður að skipulagi og umgjörð flugsamgangna til og frá landinu og tengdrar þjónustu og hvernig kraftar samkeppninnar verða nýttir í því skyni. Mikilvægt er að Isavia og stjórnvöld sem að þessu koma leggist á eitt að þessu leyti. Tilmælin sem nú eru sett fram eru liður í þessu.

Isavia hefur í málinu boðað afturvirka gjaldtöku á hópferðafyrirtæki sem notuðu fjarstæði á um þriggja mánaða tímabili árið 2018 þegar Isavia kaus að innheimta ekkert gjald vegna stæðanna vegna réttaróvissu sem félagið taldi að ríkti um gjaldtökuna. Samkeppniseftirlitið telur að ef af þessari afturvirku gjaldtöku yrði kynni hún að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mörg hópferðafyrirtæki og líklega fela í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga. Má búast við að slík afturvirk gjaldtaka yrði rannsökuð af Samkeppniseftirlitinu í sérstöku stjórnsýslumáli. Er þeim tilmælum því einnig beint til Isavia að grípa ekki til afturvirkrar gjaldtöku á fjarstæðum vegna tímabila sem liðin eru við töku þessarar ákvörðunar. Sjá ákvörðun 32/2020.