1.6.2021

Rýmkun á heimildum til lyfjaverslunar hefur jákvæð áhrif á hagsmuni neytenda

Sameiginleg afstaða norrænu samkeppniseftirlitsanna til lyfjaverslunar

Samkeppniseftirlitið hefur beint áliti til heilbrigðisyfirvalda þar sem vakin er athygli á nýrri skýrslu um samkeppni á mörkuðum um netverslun lyfja, sem samkeppniseftirlitin á Norðurlöndum hafa gefið út.

Með skýrslunni mælast norrænu samkeppniseftirlitin til þess við stjórnvöld viðkomandi landa að lagaumgjörð vegna smásölu lyfja verði tekin til skoðunar. Sérstaklega er bent á að skilyrði um að heimild til netverslunar sé bundin við rekstur hefðbundinnar lyfjaverslunar feli í sér aðgangshindranir sem torveldi samkeppni.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

  •  Munur er á milli landa á heimildum til að stunda netverslun. Í Svíþjóð og Danmörku er heimilt að starfrækja netverslun með lyf án þess að viðkomandi lyfsöluleyfishafi reki jafnframt lyfjaverslun. Í Noregi, Finnlandi og á Íslandi þarf viðkomandi lyfsöluleyfishafi að hafa heimild til reksturs lyfjaverslunar til að geta sótt um heimild til að starfrækja netverslun með lyf. Þannig er ekki heimilt að stunda eingöngu netverslun með lyf í þessum löndum. Þessi munur á reglum leiðir óhjákvæmilega til þess að mikill munur er á samkeppni í sölu lyfja. Fyrir liggur að í Svíþjóð hafa netverslanir með lyf t.a.m. veitt hefðbundnum lyfjaverslunum mikið samkeppnislegt aðhald.
  • Mikill munur á milli landanna á því hvort heimilt sé að selja lyf, sem ekki eru lyfseðilsskyld, utan lyfjaverslana. Í Svíþjóð eru rýmri heimildir til að selja ólyfseðilsskyld lyf utan lyfjaverslana heldur en annars staðar á Norðurlöndunum, þ.á m. á Íslandi þar sem nokkuð strangar takmarkanir gilda. Meiri verðsamkeppni á þessum lyfjum í Svíþjóð hefur leitt til lægra verðs til neytenda.

Norrænu samkeppniseftirlitin eru meðvituð um mikilvægi þess að tryggja öryggi neytenda við lyfsölu. Skýrslan sýnir hins vegar að til eru leiðir til að stuðla í senn að öryggi við lyfsölu og virkari samkeppni neytendum til hagsbóta. Að mati Samkeppniseftirlitsins er tilefni til að íslensk stjórnvöld á þessu sviði taki til skoðunar framangreind atriði og umfjöllun í skýrslunni með það að markmiði að auka samkeppni í lyfsölu á Íslandi.

Álit til heilbrigðisráðherra er aðgengilegt hér 

Skýrslan er aðgengileg hér

Sameiginleg frétt norrænu eftirlitanna á ensku er aðgengileg hér

Bakgrunnsupplýsingar:

Álitið er sett fram á grundvelli samkeppnislaga, en samkvæmt þeim skal Samkeppniseftirlitið gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni, vekja athygli ráðherra á ákvæðum laga sem ganga gegn markmiðum samkeppnislaga og benda stjórnvöldum að öðru leyti á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði.

Norrænu samkeppniseftirlitin hafa með sér náið samstarf sem miðar að því að samnýta þekkingu þeirra og reynslu og vinna saman að rannsóknum þegar við á. Liður er í samstarfinu er að eftirlitin taka samkeppnisaðstæður á ýmsum sviðum til sameiginlegrar athugunar og hafa birt um það allmargar skýrslur. Þessi skýrsla er ein af þeim.

Norrænu samkeppniseftirlitin hafa áður fjallað um samkeppnisaðstæður á lyfjamarkaði, sbr. sameiginlega skýrslu eftirlitanna frá árinu 2008, Konkurransemessige problemstillinger i apotek og legemiddelsektoren