6.1.2022

Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til stjórnvalda um starfsumhverfi Isavia og samkeppnisaðstæður tengdar Keflavíkurflugvelli

  • Isavia-mynd

Samkeppniseftirlitið hefur birt álit um starfsumhverfi Isavia ohf. og samkeppnisaðstæður tengdar Keflavíkurflugvelli. Álitið er byggt á athugunum Samkeppniseftirlitsins á starfsemi Isavia og rekstri Keflavíkurflugvallar á liðnum árum en einnig er horft til nýlegra tillagna OECD um sama efni. Er áliti þessu beint til fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og ferðamála-, viðskipta og menningarmálaráðherra samanber verkaskipti í ríkisstjórninni sem var skipuð þann 28. nóvember síðastliðinn.

Í álitinu setur Samkeppniseftirlitið fram átta tilmæli til stjórnvalda sem miða að því að bæta umgjörð um starfsemi á Keflavíkurflugvelli og eru til þess fallin að skapa samkeppni, draga úr kostnaði, efla ferðaþjónustu og auka hag almennings. Tilmælin eru eftirfarandi:

  1. Tryggt verði að lög sem Isavia starfar eftir séu ekki túlkuð með þeim hætti að þau þrengi gildissvið samkeppnislaga
  2. Settur verði skýr og gagnsær rammi um gjaldtöku Isavia – Gjaldtaka lúti reglum á þeim sviðum þar sem fyrirtækið er í einokunarstöðu
  3. Settar verði reglur um framkvæmd og efni útboða og sérleyfissamninga sem varða úthlutun á aðstöðu á eða við flugvöllinn - Samkeppnissjónarmið verði höfð að leiðarljósi
  4. Settar verði reglur um þátttöku Isavia í samkeppnisstarfsemi á eða við flugvöllinn þar sem jafnræði og hlutlægni verði tryggð
  5. Staðinn sé vörður um samkeppni í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli
  6. Úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli taki mið af hagsmunum almennings og ferðaþjónustunnar af virkri samkeppni í flugi til og frá landinu
  7. Kannaðar verði leiðir til að auka hagkvæmni í starfsemi Keflavíkurflugvallar
  8. Eigendastefna Isavia taki tillit til framangreindra tillagna og verði gerð opinber

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir afar brýnt að heilbrigðar samkeppnisaðstæður séu til staðar á Keflavíkurflugvelli og í nánasta umhverfi hans.

PGP-Isavia-tilvisun

Mikilvægi og sérstaða Keflavíkurflugvallar og Isavia

Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins en álitið er sett fram á grundvelli 18. greinar samkeppnislaga. Samkvæmt henni ber Samkeppniseftirlitinu að vekja athygli ráðherra á því í áliti ef það telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna eða torveldi frjálsa samkeppni.

Samkeppniseftirlitið telur að Isavia sé markaðsráðandi og njóti jafnframt einokunarstöðu í rekstri flugvalla sem geti þjónað millilandaflugi til og frá Íslandi. Eins og kunnugt er hefur Keflavíkurflugvöllur mikla sérstöðu miðað við flugvelli og samgöngumiðstöðvar víðast hvar í heiminum, þar sem flest lönd byggja fólksflutninga milli landa á fjölbreyttu neti bíla-, lesta-, skipa- og flugsamgangna. Vegna smæðar þjóðarinnar og legu landsins hverfast flugsamgöngur um eina flugstöð á Keflavíkurflugvelli, þaðan sem öllu áætlunarflugi til og frá Íslandi er sinnt, ef undan er skilið áætlunarflug til Færeyja og Grænlands um Reykjavíkurflugvöll.

Reynslan hefur einnig sýnt hversu þýðingarmikið það er að hugað sé að samkeppni í umgjörð og starfsemi flugvallarins. Þannig hefur það til dæmis skipt sköpum fyrir hag Íslendinga, erlendra ferðamanna og atvinnustarfsemi á Íslandi að rekstraraðilum flugvallarins auðnaðist að skapa aðstæður fyrir samkeppni í flugafgreiðslu á vellinum.

EFTA-dómstóllinn benti sérstaklega á þessa sérstöðu Keflavíkurflugvallar í umfjöllun um beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur um ráðgefandi álit vegna umfjöllunar um úthlutun á afgreiðslutímum á flugvellinum. Sambærilegt mat á þýðingu flugvallarins kemur fram í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um samkeppnismat í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, frá nóvember 2020.

Stjórnvöld beiti virku eigendaaðhaldi

Samkeppnislög mæla fyrir um að Samkeppniseftirlitið skuli gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila að markaði.

Eins og rakið er í álitinu er mikilvægt að stjórnvöld beiti virku eigendaaðhaldi gagnvart þeirri mikilvægu starfsemi sem fram fer á vettvangi Isavia. Í því samhengi mælist Samkeppniseftirlitið til þess að við næstu endurskoðun á eigendastefnu á þessu sviði verði tekið tillit til þeirra tilmæla sem sett eru fram í álitnu. Sama á við um tillögur OECD sem þar eru reifaðar.

Að því marki sem stjórnvöld fallast ekki á tillögur OECD eða tillögur Samkeppniseftirlitsins, er mælst til þess að tekin verði opinber afstaða til þeirra svo ekki ríki vafi um afdrif viðkomandi tillagna eða tilmæla. Óskar eftiriltið jafnframt eftir áframhaldandi góðu samtali við stjórnvöld um þessi mál.

Hér má nálgast álitið í heild.

Nafnspjald